Þórður Kristleifsson Þórður er í þægum blund

þrekinn Kristleifs niður,

yfir þessum laufa lund

ljómar ást og friður.

Þannig kom Þórður Símoni Dalaskáldi fyrir sjónir þegar hann var ungur drengur. Fyrstu minningar mínar um Þórð föðurbróður minn voru þær að ég vaknaði að morgni og þá svaf maður í rúminu hjá mér sem mér sýndist vera pabbi minn, en mér fannst hann þó eitthvað öðruvísi en ég átti að venjast. Ég vakti hann ekki heldur fór fram í eldhús og þá var pabbi þar. Skýringin á þessu var sú að Þórður hafði komið um nóttina eftir að ég var sofnaður og lagt sig í rúmið hjá mér. Þórður og bræður hans voru svo líkir á yngri árum að margir þekktu þá ekki að.

Flest sumur sem ég man sem unglingur kom Þórður í heimsókn til foreldra minna og gekk þá stundum að heyskap og var þá stórvirkur, en hann dró aldrei af sér við það sem hann var að gera. Guðrún kona hans kom oftast með honum en geislum rósemdar og góðvildar stafaði frá henni. Engum sem kynntist þeim gat dulist að ást þeirra var mikil og gagnkvæm. Guðrún var lærður handavinnukennari og kenndi við Laugarvatnsskólann.

Guðrún átti við mikið heilsuleysi að stríða mörg seinustu ár ævi sinnar, en þá var umhyggja Þórðar takmarkalaus. Hann vann þá öll heimilisverk sjálfur og blessaði hvern morgun sem hann fékk að hafa hana hjá sér.

Þýskukennarar kusu hann heiðursfélaga í félagsskap sínum þegar hann var 98 ára en margir af nemendum hans höfðu orðið framúrskarandi þýsku- og málamenn. Þórður hafði þó aldrei lært þýsku í skóla. Um hann sagði Þór Vigfússon í afmælisgrein: "Margur kennarinn er sterkur, margur hefur hátt og beitir hörku, jafnvel sanngjarnri, og nær þó ekki hug og hjarta sinna ungu skjólstæðinga. En það gerði Þórður svo sannarlega. Er nokkur dýpri skýring á ógleymanleik Þórðar, á óafmáanleik hans? Fyrir tveimur árum hitti ég hann ásamt fleiri þýskukennurum og talið barst að nemendum, sem komu í þýskunám til hans á síðari stigum og höfðu misst af hreinsunareldi fyrsta ársins. Um þá sagði Þórður: "Það reyndist stundum þungt fyrir að fá þá til að taka flugið."

Það var nefnilega flugið. Þórður var og er haldinn þeirri logandi ástríðu listamannsins að duftið skuli fljúga til hæða og geti það, ef skapgerð er nægilega sterk til þess að æfa þrotlaust og gefast ekki upp. Honum dugði ekkert minna, fyrir hönd okkar nemenda. Þetta skynjuðum við, óvitarnir, og vildum eftir hinum óljósa og hvikandi hætti æskunnar, auðvitað, samsamast þessari kröfu. En ekkert er eins upphefjandi og að gefa sig listinni á vald. Þess vegna elskuðum við Þórð. Mér finnst að kennslufræðingar nútímans ættu að draga ályktanir af þessu.

Nátengt þessu er eitt orð enn, sem ég vil nota til að reyna að lýsa Þórði Kristleifssyni. Það er orðið auðmýkt, það er hin algera lotning hans fyrir viðfangsefninu, fyrir þýskri tungu og menningu, fyrir íslenskri tungu og menningu, fyrir hnitmiðaðri tungu, allri göfgandi menningu. Viðfangsefnið var heilagleikinn sjálfur, það eina sem heilagleikanum er bjóðandi er hin fullkomna lausn. Þar kom engin málamiðlun til greina, þar var ekkert hér um bil. Í þessu ljósi sé ég skýringuna á því að sólarupprásin í L'Arrabiata varð að helgistund í meðförum Þórðar. Það er einmitt það sem sólarupprásin er í eðli sínu."

Hann var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 1989 fyrir störf að söng- og kennslumálum.

Þórður bar mikla umhyggju fyrir ættmennum sínum og nemendum. Hann gladdist mjög ef hann frétti um velgengni fólks. Hann sagði um nemanda sinn sem hafði lært mikið: "Hann víkkaði sí og æ landnám sitt á víðáttu menntagyðjanna." Benedikt Sigvaldason sagði: "Þórður Kristleifsson var dáðasti og áhrifamesti kennari sem ég hef kynnst fyrr og síðar að öðrum ólöstuðum og hafði ótrúleg áhrif á unga nemendur, sem hann ávallt hvatti til dáða."

Ég á Þórði margskonar góðvild að þakka, en þó sérstaklega fyrir aðstoð sem hann veitti elstu dóttur minni, þegar hún hugðist taka utanskólapróf í MR en það var leyfilegt að taka slík próf en svo margar hindranir í vegi til þess að styrk góðra mann þurfti til að það væri framkvæmanlegt.

Á aldarafmæli Þórðar sendi vinur hans honum þessa vísu.

Vígi úr tónlist vaskur hlóð,

vegg er trauðla hrynur.

Hefur verið þarfur þjóð

Þórður söngvahlynur.

Starfsfólki á Droplaugarstöðum hældi hann jafnan fyrir hjálpfýsi og þægilegheit.

Í okt. 1996 skrifaði Þórður sendibréf til Ástu systur minnar og sagði þá: "Þorsteinn Þorsteinsson liðsinnir mér af aðdáunarverðri alúðar ræktarsemi og Ásta systir hans er á sömu bylgjulend." Í bréfi til sömu í apríl 1997 sagði Þórður: "Þorsteinn lífefnafræðingur er mín hægri hönd og allt hans lið leggst á eina ár að liðsinna mér. Er það göfugt starf og stundað af frábærri fjölhæfni og vizku".

Ef annað tilverustig er til þá mun Þórður hafa fundið konu sína og dóttur á ný. Móðir mín og við systkinin frá Runnum hugsum með þakklátum hugum til þeirra Þórðar og Guðrúnar og óskum þessu fólki alls hins besta á hinni ókunnu braut.

Brandur Fróði Einarsson.