Keld Gall Jørgensen "Fám mönnum er Kári líkur" segir í Njálu og svo var um Keld Gall Jørgensen sem í dag er til moldar borinn í Danmörku. Kynni okkar stóðu í nítján ár og hófust með því að "við áttum systur tvær". Strax frá fyrsta fundi minnist ég hve ljúfur hann var í viðmóti og auðveldur í kynningu, en líka nokkur ráðgáta. Hann var hár og grannur og vasklegur í framgöngu, en þótt hann færi yfirmáta létt með margar þær þrautir sem til karlmennsku heyra, var framkoman sérlega blíð og hæversk. Hann var Danmerkurmeistari í biljarð, þessari íþrótt sem á Íslandi telst vís vegur til glötunar, sjálfur stakur reglumaður. Hann var nemandi í dönsku með íslensku sem aukagrein og bar saman þær frænkur: önnur frjálslynd og frí af sér, hin regluföst og ögn hátíðleg. Önnur alltaf að segja hvað hún er ekki, hin bara er . . .

Fyrstu árin hafði ég af þessum svila mínum meiri afspurn en kynni, en á því varð róttæk breyting þegar þau Ranka fluttu búferlum til Íslands síðsumars 1981, hún nýútskrifaður arkitekt, hann með sitt dönskupróf, en þó aðallega óskrifað blað.

Það var sjónhverfingu líkast að verða vitni að landnámi Keld á Íslandi. Hann kom sjóveg á undan eiginkonu sinni og strax á fyrstu dögum hérvistarinnar hafði hann mállaus leyst allar helstu formþrautir búferlaskiptanna; sigrað skriffinnskudrekann, lagt að velli pappírsljónið og þegar Ranka kom til landsins einhverjum dögum síðar var allt til reiðu ­ og Keld búinn að læra íslensku! Þá þraut leysti hann svo bragð var að og náði sjaldgæfum tökum á málinu.

Hann lyfti grettistökum eins og þau væru hol að innan, leikmunir.

Og hetjusaga hans hélt áfram undir brosmildum formerkjum. Haustið 1982 fæddust þeim Rönku stúlkur tvær, fyrirburar sem voru svo smáir að þeir rúmuðust hvor í sínum lófa föðurins. Mér er Keld minnisstæður með aðra dótturina í annarri hendi og Nafn rósarinnar í hinni ­ en um þessar mundir tók hann að feta í fótspor Ítalans Umberto Eco inn á lendur táknfræðinnar þar sem ekkert er sem sýnist og sýndin jafn rétthá og veran. Hann var þá byrjaður að kenna Íslendingum dönsku, fyrst sem stundakennari við Kennaraháskólann og síðan sendikennari við Háskóla Íslands. Hvar sem hann fór var hann hugljúfi hvers manns, dáður af nemendum, virtur af samverkafólki, elskaður af ástvinum.

Þau hjónakorn festu kaup á íbúð hér í næstu hlíð, tún okkar lágu saman og tíðir samfundir. Við áttum okkur sameiginlega ástmær sem var knattspyrnan, þ.e.a.s. fótboltinn, þessi leikur þar sem mörkin eru búin til úr yfirhöfnum og enginn áhorfandi af því aðvífandi eru jafnóðum virkjaðir í liðin. Og nú verður að segja frá því að Keld var auk alls annars fótboltaengill ­ áður en við var litið var hann farinn að æfa með meistaraflokki hér í bæ. Honum var fleygt á hvað sem er. Ég hef engum manni kynnst sem var eins ókvalráður og laus við verkkvíðni. Hann þýddi, hann samdi, hann prjónaði peysur, eldaði mat, bakaði kökur, lagði parket. . . Þó stóð mestur ljómi af honum í föðurhlutverkinu og aðdáunarvert hvernig þeim Rönku tókst að ala dæturnar upp í tveimur tungumálum í senn.

Fyrir utan vettvang fjölskyldunnar og fótboltans áttum við samleið í Félagi áhugamanna um bókmenntir, sátum þar saman í stjórnum. Hvar sem Keld fór lyftist brúnin á viðstöddum, einhver léttir að samneyta manni sem sameinaði á sjaldgæfan hátt yfirburði og meinleysi ­ karlmennsku og bernsku.

En þrátt fyrir opið viðmót var hann líka vandlega lokaður og við náin kynni fannst á að hann átti bernsku sem var ekki barnaleikur, að hann hafði bæði farið um dimma dali og kynnst eyðimörkum angistar.

Eftir er að rekja síðustu hetjusögu Keld Gall Jørgensen ­ baráttu hans við erfið veikindi um fjögurra ára skeið án þess að hann sleppti stílvopni úr hendi fyrr en yfir lauk. Sú saga verður ekki rakin hér. Á banabeði talar hann um fyrirhuguð verk sín, m.a. nýja þýðingu á Njálu, þessum ótæmandi sjóði norrænnar menningar. Þar eru svila Kára lögð þessi orð í munn: "ég ætlaði ekki að þessir dagar mundu verða sem nú eru orðnir."

Eitt af því allra síðasta sem Keld lagði lokahönd á var þýðing á úrvali úr Hávamálum. Þar kemur fyrir setningin um fallvaltleika fjár og frænda ­ og svo þetta eina sem aldrei deyr.

Orðstír Keld Gall Jørgensen mun lengi uppi á Íslandi.

Pétur Gunnarsson.