HAFÞÓR VESTFJÖRÐ SIGURÐSSON

Kveðja frá nemendum og kennurum í uppeldisvísindadeild Kennaraháskóla Íslands

Fyrir hönd nemenda og kennara við uppeldisvísindadeild Kennaraháskóla Íslands vil ég minnast Hafþórs V. Sigurðssonar, kennara við Álftanesskóla í Bessastaðahreppi.

Kynni okkar hófust síðastliðið haust þegar Hafþór hóf nám til meistaragráðu við Kennaraháskóla Íslands. Hann reyndist sérlega ljúfur í viðkynningu, hæglátur og hugsandi, hlýr og geðþekkur.

Hafþór hafði góðar forsendur til að hefja framhaldsnám, vandaður skólamaður með mikla reynslu af kennslu, bæði almennri kennslu, mynd- og handmenntakennslu og skólastjórn. Sem sérsvið í framhaldsnáminu valdi Hafþór sér list- og verkgreinar, enda hafði hann betri grunn en flestir aðrir til að sækja fram á því sviði. Auk langrar kennslureynslu hafði hann aflað sér margháttaðrar viðbótarmenntunar, bæði með því að setjast í Myndlista- og handíðaskólann um tveggja ára skeið, 1980-1982, og með því að taka smíðar sem valgrein í almennu kennaranámi við Kennaraháskóla Íslands veturinn 1990-1991. Þá fylgdist Hafþór vel með þróun í kennslu list- og verkgreina hér heima og erlendis. Hann hafði mikinn áhuga á tölvum og nýtti sér tölvutæknina í þekkingarleit sinni. Með tölvusamskiptum hafði hann skapað sér sambönd við stofnanir og sérfræðinga víða um heim. Þá hafði Hafþór fengist talsvert við námsefnisgerð, m.a. skrifað námsefni um viðarfræði, sem hann hafði áhuga á að auka og þróa. Hafþór var í stjórn Félags íslenskra smíðakennara og félagsmaður í Félagi íslenskra myndmenntakennara.

Í verkefnum sínum í framhaldsnáminu lagði Hafþór sig sérstaklega eftir að kanna hvernig kennarar gætu auðgað kennslu sína með því að nýta lista- og minjasöfn með markvissum hætti í skólastarfi. Hann byggði á þekkingu sinni á tölvutækni og bjó til vefsíður um safnfræðslu á veraldarvefnum, svo efnið gæti gagnast sem flestum. Á vefinn setti hann ábendingar um hvernig kennarar gætu notað söfn í kennslu, hugmyndir að verkefnum og kennsluleiðbeiningar, auk margvíslegs fróðleiks um safnamál. Þessi verk vann Hafþór af sérstakri alúð, áhuga og þekkingu.

Hafþór átti sér fjölmörg hugðarefni. Auk almennrar lista- og menningarsögu var saga íslensks handverks honum sérstaklega hugleikin. Sem dæmi má nefna að í tómstundum safnaði hann upplýsingum um íslenskar fiðlur og langspil, skráði þau hljóðfæri sem hann fann og gerði af þeim vinnu- og smíðateikningar. Hann hafði mikinn áhuga á hljóðfærasmíði og leitaði víða fanga í því efni. Sumu af þessu kom hann fyrir á vefsíðum sínum á veraldarvefnum.

Undir miðjan júní áttum við kennarar og nemendur í meistaranáminu saman nokkra ánægjulega daga í Kennaraháskólanum. Þá sem fyrr var Hafþór virkur í öllu okkar starfi og lagði margt gott til málanna á sinn ljúfmannlega máta. Hafþór kom til mín í Kennaraháskólann nokkrum dögum áður en hann varð bráðkvaddur. Hann var nokkuð þreyttur eftir annasaman vetur í námi og kennslu, en samt fullur tilhlökkunar að takast á við verkefnin framundan. Hafþór ræddi hugmyndir sínar um endurbætur á safnafræðsluefni sínu og sagði mér frá kennaranámskeiði um notkun safna í kennslu sem hann hafði tekið að sér að undirbúa og batt miklar vonir við. Ekki fór á milli mála að hann hafði ákveðið að láta að sér kveða á sviði safnafræðslu. Þar var réttur maður á réttum stað.

Hafþór V. Sigurðsson hverfur frá okkur langt um aldur fram. Í djúpri sorg er huggun í minningunni um einstakan hagleiks- og hugsjónamann, vitra og góða manneskju. Á þá minningu fellur enginn skuggi. Við þökkum kynni af góðum dreng. Fjölskyldu hans sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Ingvar Sigurgeirsson, dósent við Kennaraháskóla Íslands.