GUÐRÚN Ögmundsdóttir borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í framboð til borgarstjórnar í vor. Guðrún hefur verið borgarfulltrúi í sex ár, fyrst sem varaborgarfulltrúi Kvennalistans árið 1990, aðalborgarfulltrúi árið 1992 og 1994 borgarfulltrúi Reykjavíkurlista. "Þetta er orðið fínt núna," sagði hún.

Guðrún Ögmundsdóttir

ekki í framboði

GUÐRÚN Ögmundsdóttir borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í framboð til borgarstjórnar í vor.

Guðrún hefur verið borgarfulltrúi í sex ár, fyrst sem varaborgarfulltrúi Kvennalistans árið 1990, aðalborgarfulltrúi árið 1992 og 1994 borgarfulltrúi Reykjavíkurlista. "Þetta er orðið fínt núna," sagði hún. "Ég vonast til að geta nýtt mér þessa reynslu sem ég hef og ég get alltaf reynt fyrir mér í mínu fagi sem félagsráðgjafi og fjölmiðlafræðingur." Guðrún sagðist ætla að hvíla sig á borgarmálunum en að hún myndi vinna að framboðsmálum fyrir næstu kosningar og leggja sitt af mörkum þar. "Nei, ég er ekki byrjuð að hugsa slíkt," sagði hún þegar spurt var hvort hún hugleiddi þingmennsku.

Guðrún sagði að ákvörðun um að hætta væri ekki einföld. "Það brýst í manni hvort verkefnunum sé lokið sem byrjað hefur verið á og hvort hægt sé að fara frá þeim en kannski kemur að því að maður á að hugsa örlítið meira um sjálfan sig og segja sem svo, "ég er búin að leggja mitt af mörkum" og vona að það skili sér áfram," sagði hún. "Ég hætti sátt og ánægð."