19. september 1989 | Innlendar fréttir | 252 orð

Hallgrímur Fr. Hallgrímsson fyrrv. forstjóri látinn

Hallgrímur Fr. Hallgrímsson fyrrv. forstjóri látinn HALLGRÍMUR Fr. Hallgrímsson, fyrrverandi forstjóri, lézt í sjúkrahúsi í Reykjavík síðastliðinn laugardag, á 84. aldursári. Hallgrímur var fæddur 17. október 1905 á Grund í Manitoba, Kanada.

Hallgrímur Fr. Hallgrímsson fyrrv. forstjóri látinn

HALLGRÍMUR Fr. Hallgrímsson, fyrrverandi forstjóri, lézt í sjúkrahúsi í Reykjavík síðastliðinn laugardag, á 84. aldursári.

Hallgrímur var fæddur 17. október 1905 á Grund í Manitoba, Kanada. Foreldrar hans voru sr. Friðrik Hallgrímsson, prestur á Grund og síðar dómprófastur í Reykjavík, og kona hans Bentína H. Björnsdóttir Hallgrímsson.

Hallgrímur lauk burtfararprófi frá High School í Baldur, Manitoba, árið 1924, en fluttist svo heim til Íslands og bjó í Reykjavík frá 1925. Hann var forstjóri Shell hf. á Íslandi til 1956, og forstjóri Olíufélagsins Skeljungs frá sama ári til 1971.

Hallgrímur gaf sig mikið að félagsmálum og var meðal annars formaður Ólympíunefndar Íslands 1945-1949 og átti sæti í orðunefnd um árabil. Hann var félagi í Golfklúbbi Reykjavíkur frá 1934, formaður hans 1943-1949 og síðar heiðursfélagi. Félagi í Rotaryklúbbi Íslands var hann frá 1936, formaður 1940-1943. Hallgrímur var um tíma formaður ensk-íslenzka félagsins Anglia. Hann sat í Verzlunarráði og var í stjórn Vinnuveitendasambandsins um skeið. Þá sat hann í fjármálaráði og flokksráði Sjálfstæðisflokksins.

Aðalræðismaður Kanada hér álandi var Hallgrímur frá 1957. Bretar veittu honum æðsta heiðursmerki, sem útlendingur getur fengið, Commander of the Order of the British Empire. Einnig var hann sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslenzku fálkaorðu og stórriddarakrossi St. Olafs-orðunnar norsku.

Hallgrímur kvæntist árið 1928 Margréti Þorbjörgu Hallgrímsson, sem lifir mann sinn. Margrét er dóttir Thors Jensen, kaupmanns og útgerðarmanns í Reykjavík, og er ein eftirlifandi af börnum hans. Dætur þeirra Hallgríms eru Þóra og Elína.

Hallgrímur Fr. Hallgrímsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.