ÓLAFUR Steinn hefur mörg járn í eldinum. Flest tengjast þau streitu og streitusjúkdómum og meðhöndlun þeirra. Að sögn hans hefur það bakað margan vandann að hingað til hefur ekki verið hægt að mæla streitu sem eina stærð, þar sem hún kemur fram í svo mörgum ólíkum líkamsferlum á sama tíma.
Streitustuðull ÓLAFUR Steinn hefur mörg járn í eldinum. Flest tengjast þau streitu og streitusjúkdómum og meðhöndlun þeirra. Að sögn hans hefur það bakað margan vandann að hingað til hefur ekki verið hægt að mæla streitu sem eina stærð, þar sem hún kemur fram í svo mörgum ólíkum líkamsferlum á sama tíma. Nú eygir hann von um að þetta vandamál verði brátt úr sögunni því um þessar mundir er indverskur verkfræðingur í doktorsnámi í Bandaríkjunum, Boregowda að nafni að hanna aðferð til að túlka heildarstreitu í líkamanum á stærðfræðilegan hátt sem eina stærð, streitustuðul eða objective stress index . Nú þegar hafa nokkrar greinar birst um þessar rannsóknir og eins og Ólafur segir: "Það er svolítið fyndið að þær hafa hingað til eingöngu birst í tímaritum um verkfræði en ekki í sálfræði- eða læknisfræðitímaritum."

Að sögn Ólafs veit Boregowda lítið sem ekkert um sálfræði. Ólafur hefur því séð um sálfræðilegan þátt verksins og hefur hann prófað aðferðina á 30 læknanemum. "Ég athugaði hvort það væru tengsl milli streitusjúkdómseinkenna, til dæmis verkja, og þessa streitustuðuls. Því hærri sem stuðullinn var því fleiri líkamleg einkenni streitu höfðu læknanemarnir. Það bendir til þess að þetta geti reynst gagnleg uppgötvun. Ég er einmitt að fara að halda erindi á ráðstefnu í apríl um fyrstu tilraunina sem gerð var með þessari aðferð."

Og Ólafur útskýrir nánar hvað býr að baki stuðlinum. "Boregowda þróaði stuðulinn út frá lögmálum varmafræðinnar, sérstaklega öðru lögmálinu. Það hefur verið sýnt fram á í svokölluðum Maxwell jöfnum í eðlisfræði að það er hægt að mæla heildaróreiðu í lokuðum kerfum. Líkaminn er tiltölulega lokað kerfi svo að við notum sömu aðferðir og notaðar eru á önnur lokuð kerfi í alheiminum. Til þess notum við húðhita, blóðþrýsting og hjartslátt. Ef þetta reynist mögulegt ætti að vera hægt að fara til læknis og fá mælda hjá sér heildarstreitu rétt eins og blóðþrýsting eða blóðsykur. Það yrði mikil framför því þá getum við ákvarðað hver eru eðlileg mörk streitu og mælt hvar hver einstaklingur stendur, óháð því hvort honum sjálfum finnst hann vera haldinn streitu eða ekki."