Halla Einarsdóttir Nú þegar hún amma er dáin verður okkur hugsað til þeirrar miklu visku og speki sem henni tókst að miðla á sinni löngu ævi til okkar ömmubarnanna. Þó að hún hafi ekki fengið nema lágmarks skólagöngu á sinni tíð, þá hafði hennar skarpi hugur meðtekið margt um dagana og hún var óþreytandi í að brýna fyrir okkur þau lífsgildi sem hún hafði í hávegum. Það má segja að hennar lífsskoðun byggðist á því að ráðdeildarsemi og hagsýni væru lykillinn að farsælu lífi. Hún hafði einnig mikinn og lifandi áhuga á því hvernig okkur gengi í lífsbaráttunni og fylgdist til síðasta dags vel með hvað hver og einn var að gera. Spurði frétta af störfum okkar og hafði stundum áhyggjur af að "forrettningin" eins og hún kallaði það bæri sig ekki sem skyldi. Hún fylgdist vel með öllum atburðum í lífi okkar og jafnvel nánustu vina og lét sig aldrei vanta á nokkurt mannamót ætti hún þess nokkurn kost. Messuhatturinn var alltaf með í för á ferðalögum okkar í hjólhýsinu ef ske kynni að eitthvað óvænt kæmi upp á. Hún var vakandi yfir öllum okkar ferðum erlendis, bað fyrir okkur, en kunni því ávallt best þegar allir voru komnir heim aftur.

Hún amma átti mjög gott með að koma fyrir sig orði og það var ekki sá atburður innan fjölskyldunnar, ferming eða gifting að hún væri ekki búin að undirbúa að segja nokkur orð til þeira sem í hlut áttu. Þá brýndi hún fyrir okkur samheldni og nægjusemi. Orðtækin hennar standa okkur ljóslifandi fyrir sjónum. "Molar eru líka brauð". "Það er ekki eftir sem búið er" og svo samlíkingin um að sambúð hjóna væri líkt og að tveir aðilar prjónuðu peysu saman. Það væri ekki nóg að peysan væri áferðarfalleg á réttunni heldur þyrftu báðir að vinna vel saman til að hún yrði einnig hnökralaus á röngunni. Þannig fengum við börnin sérstakt tækifæri til að kynnast hugsunum og lífsgildum þeirrar kynslóðar sem séð hefur meiri breytingar en nokkur önnur kynslóð á Íslandi. Frá því að koma úr fábrotinni sveitamenningu um aldamótin til þess að taka þátt í hátæknivæddu samfélagi nútímans. En þetta hróflaði ekki við þeirri skoðun ömmu að það væri mannlegt innræti sem skipti mestu máli en ekki umbúðirnar. Hún passaði alla tíð vel upp á sitt og þegar hún flutti af Leifsgötunni, þar sem hún og afi höfðu átt heimili um sextíu ára skeið, þá kom margt forvitnilegt úr skápunum sem haldið hafði verið til haga af mikilli samvisku og reglusemi að ekki sé minnst á allar gersemarnar af háaloftinu. Það er erfitt að trúa því að hún amma okkar sé dáin. Þessi bjargfasti klettur sem alltaf var hægt að treysta á og ræða við um alla skapaða hluti. Á öllu hafði hún skoðun og hjálpaði okkur oft að sjá hlutina í öðru samhengi en áður.

Minningin um ömmu á eftir að búa í huga okkar um ókomna tíð og varla á eftir að líða sá dagur að okkur verði ekki hugsað til manngæsku og visku hennar. Þó sorgin og söknuðurinn sé mikill, þökkum við almættinu fyrir að hún fékk að loka augunum, í síðasta sinn, í sínum stól, innan um sína hluti á Dalbrautinni þar sem hún bjó síðustu fimm árin.

Við viljum biðja góðan guð að geyma ömmu okkar og kveðjum hana með orðum sem lýsa vel því æðruleysi sem einkenndi hana allt hennar líf.

"Harmið mig ekki með tárum þótt ég látin sé. Hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta. Ég er svo nærri að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur. En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín með upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu." (Höf. ókunnur.)

Þorleifur Þór, Stefanía Gyða, Bergrún Svava og Jóhann Þór.