20. júní 1998 | Minningargreinar | 686 orð

DIETER ROTH

DIETER ROTH

Dieter Roth, fullu nafni Karl Dietrich Roth, fæddist í Hannover í Þýskalandi 21. apríl 1930. Hann varð bráðkvaddur í Basel í Sviss 5. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Karl Ulrich Roth, bókari, f. 6.7. 1903, og Vera Ella Dolla Roth-Feltman, húsmóðir og ljóðskáld, f. 8.1. 1917. Bræður Dieters eru Wolfgang forstjóri, f. 2.5. 1931, og Hartwig, f. 11.12. 1942. Þeir búa báðir í Sviss.

Dieter kvæntist 31.7. 1957 Sigríði Björnsdóttur, listmálara og listþerapista, f. 5.11. 1929. Þau skildu 1965. Foreldrar hennar voru séra Björn O. Björnsson, f. 21.1. 1896, d. 19.9. 1975, og Guðríður Vigfúsdóttir, f. 2.6. 1901, d. 12.4. 1973. Börn Dieters og Sigríðar eru: 1) Karl, f. 17.11. 1957, tölvunarfræðingur. Hann er kvæntur Láru Magnúsardóttur, sagnfræðingi, f. 30.4. 1960. Börn þeirra eru Solveig, Þórður og Karl Dietrich Roth. 2) Björn, listmálari, f. 26.4. 1961. Sambýliskona hans er Þórunn Svavarsdóttir, kennari, f. 11.1. 1958. Börn þeirra eru Oddur, Einar og Vera. 3) Vera, jarðfræðinemi, f. 17.2. 1963. Sambýlismaður hennar var Gísli Jóhannsson, garðyrkjubóndi í Dalsgarði. Þau skildu. Börn þeirra eru Þorbergur, Þrándur og Þórunn. Stjúpdóttir Dieters er Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisfræðingur, f. 23.4. 1950.

Fyrstu 13 árin bjó Dieter í foreldrahúsum í Hannover. Árið 1943 var hann, ásamt hópi barna með svissneskan ríkisborgararétt, sendur til Sviss til að forða þeim frá hörmungum stríðsins. Í Z¨urich hlaut hann klassíska menntun til sautján ára aldurs. Í stríðslok settist fjölskylda hans að í Sviss. Hann lauk námi í auglýsingateiknun í Bern, en vann jafnframt að eigin myndlist. Þar kynntist hann verðandi stórjöxlum í svissneskri myndlist, svo sem Tinguely, Lugenbuhl og Eggenschwiller. Árið 1955 hóf hann störf sem hönnuður í Kaupmannahöfn. Í byrjun árs 1957 fluttist Dieter til Reykjavíkur og stofnaði þar heimili. Þar vann hann við ýmislegt, meðal annas við módelsmíði á skartgripum hjá Halldóri gullsmið, með Herði Ágústssyni, listmálara og fræðimanni, að ýmsum hönnunarverkefnum. Hann vann einnig með Andrési Kolbeinssyni tónlistarmanni að tilraunaljósmyndun. Árið 1958 stofnaði hann í félagi við Einar Braga skáld listbókaforlagið forlag ed (Einar Bragi og Dieter). Á árunum 1957­1959 vann hann við lóðahönnun fyrir Alaska, glerhönnun og við keramikframleiðslu í Gliti, með Ragnari Kjartanssyni myndhöggvara. Upp úr 1962 störfuðu þeir Magnús Pálsson myndlistarmaður saman að ýmiskonar módelsmíði.

Dieter tengdist Fluxus-hreyfingunni í gegnum Daniel Spoerri á 6. áratugnum. Hann vann að þróun bókverka og hreyfilistar, tengdri konkretlistinni, og gerði m.a. skúlptúra úr mat. Þessi verk voru sýnd víða og veittu honum heimsfrægð. Dieter fór fyrst til Bandaríkjanna 1958 og kenndi þá við Philadelphia Museum College of Art. 1964 var hann gestagagnrýnandi í Yale School of Architecture og 1965 kenndi hann við Rhode Island School of Design og vann að hönnun fyrir efnafyrirtækið Ciba-Geigy. Árið 1968 var hann skipaður prófessor við Akademie der Kunst í D¨usseldorf, en sagði starfinu lausu skömmu síðar. Dieter starfaði oft með öðrum og fór þá ekki í manngreinarálit. Má þar nefna Hermann Nitsch, Gunter Brus, Richard Hamilton, Arnulf Rainer, Ingrid Wiener, Stefan Wewerka og Björn Roth. Hann vann einnig að listsköpun með börnum, vinum og fjölskyldu. Hann gerði tilraunir með ýmis efni. Bókmenntapylsur hans, súrmjólkurmyndir og ostaorgel vöktu athygli. Árið 1970 hélt hann fræga sýningu á ostum í 40 ferðatöskum í Eugeni Butler- galleríinu í Los Angeles. Árið 1975 hóf hann útgáfu á Tímariti fyrir allt, þar sem hver sem er gat fengið hvað sem er birt. Með tveggja áratuga millibili lét hann taka myndir af öllum húsum í Reykjavík. Meðal verka hans eru ljóð, tónlist, skúlptúrar, uppákomur, kvikmyndir, ljósmyndir, dagbækur, málverk og bókverk. Síðustu árin vann hann mest með Birni syni sínum og hélt sýningar víða. Hann bjó í Basel, Stuttgart, Vín og Hamborg, en dvaldi hluta af árinu á Íslandi. Hann hafði sérstök tengsl við Hellna á Snæfellsnesi, Seyðisfjörð, Loðmundarfjörð og Mosfellssveit. Síðasta meistaraverk Dieters, að mati Daniels Spoerri, er afmælisgjöf til hins síðarnefnda. Það er dyrabjöllutónlist, stýrt af símbréfum. Fyrsta einkasýning hans var í Reykjavík 1958. Hann var viðstaddur opnun sýningar sinnar í Z¨urich 22. maí síðastliðinn. Hún verður opin fram í ágúst.

Til minningar um Dieter Roth verður haldið teiti í Þingholti á Hótel Holti laugardaginn 20. júní klukkan 14. Aska hans verður grafin í kyrrþey á Hellnum á Snæfellsnesi. Bálförin hefur farið fram.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.