FULLTRÚAR frá Iðntæknistofnun og Orkustofun komu norður í Eyjafjörð í vikunni til að ná í sýni úr hverastrýtunni sem fannst á botni Eyjafjarðar í apríl sl. "Leiðangurinn gekk mjög vel og miklu betur en við áttum von á.
Vatnssýni tekin úr hverastrýtunni á botni Eyjafjarðar Vatninu dælt af hafsbotni

FULLTRÚAR frá Iðntæknistofnun og Orkustofun komu norður í Eyjafjörð í vikunni til að ná í sýni úr hverastrýtunni sem fannst á botni Eyjafjarðar í apríl sl. "Leiðangurinn gekk mjög vel og miklu betur en við áttum von á. Við höldum líka að þetta sé í fyrsta sinn sem jarðhitavökva er dælt með þessum hætti af hafsbotni með slöngu," sagði Jakob Kristjánsson, prófessor við Háskóla Íslands og forstöðumaður á líftæknisviði Iðntæknistofnunar, í samtali við Morgunblaðið, en hann var leiðungursstjóri í þessari ferð.

Hverastrýtan fannst í leiðangri á vegum Iðntæknistofnunar í apríl sl. Þá voru tekin sýni úr henni en tilgangurinn með ferðinni nú var að ná í betri sýni og þá sérstaklega vatnssýni til efnagreiningar. Hverastrýtan er samtengd annarri strýtu sem fannst í leiðangri í fyrrasumar og er um 50 metra langur hryggur á milli þeirra.

"Við höfðum náð bergsýnum úr strýtunni og efnagreint þau en ekki náð góðum vatnssýnum til að efnagreina og eins var eftir að kortleggja svæðið. Það gekk vonum framar að ná í vatnssýni og þetta var allt mjög spennandi. Okkur tókst að koma slöngu niður, setja stút í eitt opið á strýtunni á um 27 metra dýpi og dæla vatni upp."

Vatnið rúmlega 50 gráða heitt

Jakob sagði að mikið vatn streymdi víða út úr strýtunni en á þessu 27 metra dýpi hafi hitinn á vatninu mælst 72 gráður. Eftir að búið var að dæla vatninu upp í gegnum 40 metra langa slöngu var það rúmlega 50 gráða heitt. "Þetta er ferskvatn og það verður spennandi að rannsaka þetta á næstunni. Við munum einnig reyna að aldursgreina það og finna út hvaðan það kemur og eins að kortleggja svæðið. Í framhaldinu munum við óska eftir því að svæðið verði friðað."

Hverastrýtan er um 45 metrar á hæð og aðeins er um 15 metra köfunardýpi niður að henni. Jakob sagði að efsti hluti strýtunnar væri mjög mjór, aðeins um 2 metrar á breidd, og því æskilegt að ekki væri mikill skarkali á svæðinu.Morgunblaðið/Kristján LEIÐANGURSMENN áttu ekki von á jafngóðum árangri og raun bar vitni og höfðu meðferðis alls kyns búnað til að ná einstökum sýnum. Þeim tókst þó að ná í ótakmarkað magn af vatni með dælingunni. F.v. Viggó Marteinsson og Jakob Kristjánsson frá Iðntæknistofnun, Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir, sem var manni sínum Erlendi til aðstoðar við köfunina, og Hrefna Kristmannsdóttir frá Orkustofnun.BÁTURINN Níels Jónsson EA kemur með leiðangursmenn að landi á Hjalteyri en Erlendur Bogason kafari tekur léttan sprett á gúmmíbátnum.