MIKIÐ var um dýrðir á Ingjaldshóli á Snæfellsnesi sl. sunnudag er minnisvarði um Eggert Ólafsson skáld og náttúrufræðing og konu hans Ingibjörgu Guðmundsdóttur var afhjúpað. Listaverkið er unnið af Páli Guðmundssyni á Húsafelli með dyggum stuðningi Steinsmiðju Sigurðar Helgasonar í Reykjavík.


Minnisvarði um

Eggert og Ingibjörgu

Hellissandi. Morgunblaðið.

MIKIÐ var um dýrðir á Ingjaldshóli á Snæfellsnesi sl. sunnudag er minnisvarði um Eggert Ólafsson skáld og náttúrufræðing og konu hans Ingibjörgu Guðmundsdóttur var afhjúpað. Listaverkið er unnið af Páli Guðmundssyni á Húsafelli með dyggum stuðningi Steinsmiðju Sigurðar Helgasonar í Reykjavík.

Verkið er engin smásmíði því það reyndist 9 tonn að þyngd og steinarnir tveir eru 2 metrar á hæð. Listaverkið stendur á háhólnum og sómir sér vel. Upphaflega var um einn stein að ræða sem Steinsmiðjan sagaði í sundur og standa nú steinarnir eins og opin bók á hólnum. Á milli þeirra er u.þ.b. 50 sm breitt bil og þegar staðið er sunnan við verkið er litið norður til Skorar, en sé staðið við það norðanvert blasir við slóð Eggerts á Snæfellsjökul fyrstur manna.

Steinarnir eru að öllu leyti handhöggnir af listamanninum. Á steini Eggerts sem stendur vestar horfir hann til Breiðafjarðar með fjaðurstaf í hendi og framundan kápu hans má sjá bát fyrir fullum seglum til að minna á hina örlagaríku för þeirra hjóna yfir Breiðafjörð. Á stein Eggerts er grafið ljóð hans Ísland ögrum skorið, eg vil nefna þig. Á bakhlið steinsins er höggvinn íslenskur fífill. Austanvert stendur steinn Ingibjargar sem skartar íslenskum kvenbúningi og grafið í hann hendingarnar úr ljóði sr. Matthíasar Jochumssonar, Þú heyrir enn þá harmaljóð, hljóma frá kaldri Skor. Á bakhlið hans er höggvin íslensk hófsóley.

Listaverkið afhjúpað

að lokinni messu

Athöfnin á sunnudaginn hófst með guðsþjónustu í kirkjunni kl. 14.00, þar sem héraðsprófastur sr. Ingiberg J. Hannesson á Hvoli í Saurbæ, prédikaði og minntist í ræðu sinni sérstaklega hvernig Eggert í störfum sínum byggði á kristnum lífsviðhorfum og siðgæði. Sóknarpresturinn sr. Ólafur Jens Sigurðsson þjónaði fyrir altari. Kirkjukórinn söng undir stjórn Kay Wiggs Lúðvíksson en Gunnar Kvaran sellóleikari lék forspil og eftirspil. Var kirkjan fullsetin.

Að guðsþjónustunni lokinni var gengið að minnisvarðanum. Þar söng kirkjukórinn lagið Ingjaldshól. Að því loknu afhjúpaði Guttormur Sigurbjarnarson framkvæmdastjóri Hins íslenska náttúrufræðifélags listaverkið og flutti af því tilefni stutta ræðu.

Veður var frábært en örlítið skýjafar og þótti það táknrænt að í sömu svipan og Guttormur afhjúpaði verkið mátti sjá Jökultindinn hreinsa sig af sér skýjaslæðu sem yfir honum hafði hvílt. Að því loknu söng kirkjukórinn Ísland ögrum skorið við undirleik Lúðrasveitarinnar á Hellissandi og var söngurinn tvítekinn. Í seinna skiptið tóku allir viðstaddir undir sönginn og var þetta áhrifamikil stund.

Þá lýsti listamaðurinn Páll á Húsafelli verki sínu með fáum orðum. Að því loknu bauð Óttar Sveinbjörnsson fyrir hönd Eggertsnefndar öllum viðstöddum að þiggja kaffiveitingar í safnaðarheimili kirkjunnar í boði Lionsklúbbsins Þernunnar og hlýða á stutta dagskrá í tilefni þessa merka atburðar.

Tónlist og ræðuhöld

Athöfnin í safnaðarheimilinu hófst með því að Gunnar Kvaran lék á selló. Þá flutti Thor Vilhjálmsson rithöfundur og borgarlistamaður Reykjavíkur ræðu um Eggert Ólafsson. Ástríður Sigurðardóttir píanóleikari lék á nýjan flygil safnaðarheimilisins og að því loknu flutti Richard Ringler prófessor í norrænum fræðum við Háskólann í Wisconsin-Madison erindi um Eggert Ólafsson og áhrif hans á Jónas Hallgrímsson. Undruðust menn að erlendur maður skyldi mæla svo vel og af mikilli þekkingu á íslenska tungu.

Að þessu loknu voru þegnar kaffiveitingar sem Lionsklúbburinn Þernan bar fram. Undir borðum tóku þeir til máls Stefán Jóhann Sigurðsson formaður Framfarafélags Snæfellsbæjar og veitti Eggertsnefnd, en í henni sitja: Óttar Sveinsbjörnson, Skúli Alexandersson og Ólafur Jens Sigurðsson - fyrir hönd Lionsklúbbs Nesþinga og Sóknarnefndar Ingjaldshólskirkju, viðurkenningu félagsins fyrir þetta framtak sem hefur verið unnið á skömmum tíma. Þá tók til máls Smári Jónas Lúðvíksson formaður sóknarnefndar og þakkaði listamanninum sérstaklega fyrir t samstarfið við að koma verkinu upp. Að lokum flutti Skúli Alexandersson þakkir öllum þeim sem að þessu hefðu staðið, bæði að gerð og uppsetningu listaverksins og þeim sem tóku að sér að skipuleggja og framkvæma þessa hátíð á Ingjaldshóli.

Víglundarsteinn.

Spölkorn frá listaverkinu stendur Víglundarsteinn sem ber nafn Víglundar Þorgrímssonar prúða á Ingjaldshóli. Mun hann hafa notað stein þennan til að dyljast er bræður Ketilríðar Hólmkelsdóttur reyndu að hindra ástir þeirra Ketilríðar og Víglundar með því að gera honum aðför.

Sagan um Víglund og Ketilríði er talin fyrsta ástarsagan sem skráð er á íslenska tungu og stendur nú til að merkja steininn og gera hann áhugaverðari gestum og gangandi um leið og búið verður betur að listaverki Páls á Húsafelli um Eggert og Ingibjörgu.Morgunblaðið/Gunnlaugur Albertsson LISTAMAÐURINN Páll Guðmundsson á Húsafelli við minnismerkið um Eggert og Ingibjörgu. Á bakhlið steins Eggerts er höggvinn fífill en hófsóley á stein Ingibjargar.

KIRKJUKÓR Ingjaldshólskirkju söng undir stjórn Kay Wiggs Lúðvíksson.

HÉRAÐSPRÓFASTUR sr. Ingiberg J. Hannesson á Hvoli í Saurbæ, sóknarpresturinn sr. Ólafur Jens Sigurðsson og gestir við afhjúpunina á Ingjaldshóli.