KRISTINN Magnússon sundgarpur þreytti Grettissund síðastliðinn laugardag og varð þar með fjórði maðurinn til að ljúka sundinu að Gretti Ásmundarsyni meðtöldum. Auk þess hafa fjórir menn synt Drangeyjarsund, sem er 800 metrum styttri leið. Kristinn bætti eldra metið í Grettissundi um rúmar tvær klukkustundir. Hann synti skriðsund alla leiðina og fór vegalengdina á 2,10 klukkustundum.
Setti hraðamet

í Grettissundi

KRISTINN Magnússon sundgarpur þreytti Grettissund síðastliðinn laugardag og varð þar með fjórði maðurinn til að ljúka sundinu að Gretti Ásmundarsyni meðtöldum.

Auk þess hafa fjórir menn synt Drangeyjarsund, sem er 800 metrum styttri leið. Kristinn bætti eldra metið í Grettissundi um rúmar tvær klukkustundir. Hann synti skriðsund alla leiðina og fór vegalengdina á 2,10 klukkustundum.

Grettissund er synt frá uppgönguvíkinni í Drangey, en Drangeyjarsund frá fjöru sunnan megin í eyjunni. Grettissund er 7,5 km. Kristinn þreytti sundið í blautbúningi. Yfirleitt hafa menn synt Grettissund smurðir með ullarfitu og í lopabrókum og bolum. Eyjólfur Jónsson sundkappi er sá eini sem hefur synt Grettissund ósmurður og án annarra klæða en sundskýlu. Hann átti hraðametið áður en Kristinn þreytti sitt sund, 4,45 klukkustundir. Hraðametið í Drangeyjarsundi er 3,18 klukkustundir, en það er 800 metrum styttra en Grettissund.

Markviss undirbúningur

"Mér hafði verið sagt að ég gæti synt þetta á um þremur tímum og ég hafði hálft í hvoru stefnt að því. Ég hef markvisst búið mig undir Grettissundið í tvö ár, synt í laug og byrjaði þjálfunina að fullum krafti í sjó í byrjun júní," sagði Kristinn.

Sjórinn var 9,7 gráðu heitur á Celsius þegar Kristinn þreytti sundið. "Ég hugsa yfirleitt ekki um kulda þegar ég fer í sjóinn og ég virðist geta beitt huganum til þess að draga úr áhrifum kuldans á líkamann."

Kristinn er með BS-gráðu í sálfræði og íþróttalækningaþjálfun og er nú að ljúka námi í sjúkraþjálfun. Hann telur að þekking sín á áhrifum kælingar hafi hjálpað sér yfir margan þröskuldinn í Grettissundinu. "Það kom mér ekki á óvart hvernig líkaminn bregst við. Mér bregður ekki og verð ekki hræddur ef eitthvað gerist í líkamanum á sundi," sagði Kristinn.

Hann segir að fái menn óstjórnlegan skjálfta á sundinu sé ráðlegast að halda aftur í land, því þá geti líkaminn ekki lengur haldið á sér hita. Kristinn segir að hægt sé að þjálfa kuldaþolið mjög mikið og aðalatriðið sé að fara ekki með bægslagangi í sjóinn heldur af varfærni.

Morgunblaðið/Gunnlaug KRISTINN á sundinu. Hann er fjórði maðurinn til að þreyta Grettissund.