Sergei Rachmaninoff leikur eigin verk og útsetningar: 2 Prelúdíur, 2 Etudes-tableaux, Humoresque, Lilacs, Polchinelle, Barcarolle, Mélodie, Polka de V.R., Elégie, Serenade o.fl. verk. Einleikari: Sergei Rachmaninoff. Útgáfa: TELARC CD 80489 (1998). Lengd: 65'12. Verð: kr. 2.100 (12 tónar).

TÓNLIST

ENDURVAKIN

TÓNLIST Sígildir diskar SERGEI RACHMANINOFF

Sergei Rachmaninoff leikur eigin verk og útsetningar: 2 Prelúdíur, 2 Etudes-tableaux, Humoresque, Lilacs, Polchinelle, Barcarolle, Mélodie, Polka de V.R., Elégie, Serenade o.fl. verk. Einleikari: Sergei Rachmaninoff. Útgáfa: TELARC CD 80489 (1998). Lengd: 65'12. Verð: kr. 2.100 (12 tónar). TÆKNIFRAMFARIR nútímans eru eiginlega hættar að koma á óvart. Einhvern veginn má búast við því að allt sé hægt. En samt verður maður einstaka sinnum furðu lostinn á því hvað nútímatæknin leyfir. Á þessum diski má heyra tónskáldið og píanistann Sergei Rachmaninoff leika eigin verk og útsetningar af píanórúllum í upptöku sem stenst samanburð við það besta sem gerist í dag og gott er ef diskurinn hljómar ekki betur en aðrir píanódiskar sem ég hef heyrt! Sergei Rachmaninoff hefur verið talinn í flokki bestu píanóleikara aldarinnar. Það sem hins vegar kemur á óvart við að hlusta á diskinn er hversu glæsileg spilamennska Rachmaninoffs hefur verið, tæknin óviðjafnanleg og túlkun tónskáldsins á eigin verkum og útsetningum bæði tilgerðarlaus og einlæg. Einnig vekur athygli í hve litlum mæli hann hefur notast við það ýkta "rubato" sem svo einkenndi spilamennsku ofurpíanistanna fyrr á öldinni. Ég gerði mér einfaldlega ekki grein fyrir að hann hefði verið svona góður. Nefna má glæsilega prelúdíuna op. 3 nr. 2 og hina þekktu prelúdíu op. 23 nr. 5 sem að sönnu er ógnvekjandi í meðförum tónskáldsins. Í Býflugu Rimskys-Korsakoffs sýnir Rachmaninoff óviðjafnanlega tækni sína í leifturhröðu lagferlinu. En hið ljóðræna og fínlega birtist einnig víða og má þar t.d. nefna Lilacs op. 21 nr. 5 sem hann spilar hreint ótrúlega fallega. Það er annars sama hvar borið er niður, allt vekur aðdáun og undrun manns. Það er sannarlega ótrúlegt hvernig tekist hefur að koma öllum blæbrigðum og styrkleikabreytingum í túlkun Rachmaninoffs til skila á þennan "mekaníska" hátt, því hér er að sjálfsögðu um að ræða píanórúllur sem spilaðar eru á nýtt hljóðfæri (Bösendorfer 290 SE Reproducing Piano). Þetta er í alla staði hreint frábær diskur sem allir unnendur fallegrar píanótónlistar ættu að eignast. Benjamin Frankel Benjamin Frankel: Fiðlukonsert op. 24, Víólukonsert op. 45, Serenata Concertante fyrir píanótríó og hljómsveit op. 37. Einleikarar: Ulf Hoelscher (fiðla), Brett Dean (víóla). Píanótríó: Stephen Emmerson (píanó), David Lale (selló), Alan Smith (fiðla). Hljómsveit: Queensland Symphony Orchestra. Hljómsveitarstjóri: Werner Andreas Albert. Útgáfa: cpo 999 422-2. Lengd: 66'02. Verð: kr. 1.800 (12 tónar). ÁÐUR hefur verið gert að umtalsefni í þessum dálkum hversu skemmtilegt það er að kanna ókunnar slóðir um lönd tónlistarinnar. Það var gert í þetta sinn ­ undirritaður þekkti hvorki haus né sporð á téðum Benjamin Frankel. Ekki er framhliðin á diskinum beinlínis árennileg: svört með hvítum bókstöfum en ef til vill ekki svo óviðeigandi þegar eitt verkið á diskinum nefnist Fiðlukonsert í minningu milljónanna sex . Sinfóníuhljómsveitin í Queensland í Ástralíu er ekki meðal þekktustu hljómsveita og hljómsveitarstjóri og einleikarar (að undanskildum Ulf Hoelscher) algerlega ókunnir þeim er þetta ritar. Sem sagt fátt sem verkar beinlínis freistandi. EN: kannski ætti maður einmitt að treysta útgáfu sem leggur svo lítið upp úr glansnöfnum og ytri umgjörð en gerir sér far um að vanda innihaldið. Og hér er sannarlega lögð rækt við hvert smáatriði ­ allt frá hinum sérlega fræðandi bæklingi (sem skrifaður er á mannamáli og með tóndæmum) til vandaðs flutnings og fallegrar upptöku. En hver var svo Benjamin Frankel? Hann fæddist í Lundúnum árið 1906 og var af pólskum gyðingaættum. Hann spilaði lengi vel jazz í klúbbum Lundúnaborgar og var eftirsóttur útsetjari söngleikjatónlistar. Ennfremur telja Englendingar Frankel einn sinn fremsta tónsmið á sviði kvikmyndatónlistar og eftir hann liggur tónlist við yfir 100 kvikmyndir. Hann samdi einnig fjöldann allan af hljómsveitar- og kammerverkum og þykja sinfóníurnar átta (1958­1972) og fyrrnefndur fiðlukonsert (1951) marka hápunkt sköpunarferils hans. Frankel lést í Sviss árið 1973 og hefur tónlist hans í alvarlegri kantinum nánast gleymst algerlega. Maður spyr sig hvernig hægt sé að "týna" svona magnaðri tónlist. En nú er þýska útgáfufyrirtækið cpo að vinna að heildarhljóðritun hljómsveitarverka hans svo vonandi er Frankel kominn til að vera. Meginverkið á diskinum er Fiðlukonsertinn op. 24 sem saminn er í minnungu fórnarlamba helfararinnar. Þungamiðja þessa sterka og dramatíska verks er hinn magnaði þriðji kafli. Þetta er sorgaróður sem lætur engan ósnortinn. Ulf Hoelscher leikur einleikshlutverkið af innileik og skilningi. Víólukonsertinn op. 45 (1967) er mikið virtúósaverk sem hlýtur að vera góð viðbót við frekar fátæklegt safn konserta sem skrifaðir hafa verið fyrir þessa "öskubusku" strengjahljóðfæranna. Einleikarinn, Brett Dean, hefur fallegan tón og tæknilegir erfiðleikar verksins virðast honum léttvægir. Lokaverkið á diskinum er Serenata Concertante fyrir píanótríó og hljómsveit (1960). Þar kveður við nokkuð annan tón en í fyrri verkunum tveimur. Verkið er fullt af gáska og þrátt fyrir að vera byggt upp á einfaldri 12- tónaröð er það mjög svo áheyrilegt og fullt af skemmtilegum uppátækjum. Þetta er ákaflega eigulegur diskur sem ég mæli heils hugar með. Valdemar Pálsson Sergei Rachmaninoff

Benjamin Frankel