HRAÐFRYSTIHÚSIÐ hf. í Hnífsdal skilaði 50 milljóna króna hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins. Er það mun betri afkoma en á síðasta ári því á öllu árinu 1997 var 83 milljóna króna tap af reglulegri starfsemi félagsins. Hins vegar kom þá til hagnaður af sölu eigna og varð hagnaður ársins 179 milljónir. Frosti hf. í Súðavík og útgerðarfélagið Miðfell hf. sameinuðust Hraðfrystihúsinu hf. hinn 1.
Bætt afkoma Hraðfrystihússins hf. á fyrri árshelmingi Hagnaður nemur 50

milljónum króna

HRAÐFRYSTIHÚSIÐ hf. í Hnífsdal skilaði 50 milljóna króna hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins. Er það mun betri afkoma en á síðasta ári því á öllu árinu 1997 var 83 milljóna króna tap af reglulegri starfsemi félagsins. Hins vegar kom þá til hagnaður af sölu eigna og varð hagnaður ársins 179 milljónir.

Frosti hf. í Súðavík og útgerðarfélagið Miðfell hf. sameinuðust Hraðfrystihúsinu hf. hinn 1. maí 1997. Vegna þess eru ekki til samanburðarhæfar tölur úr milliuppgjöri á síðasta ári og eru upplýsingar um reksturinn allt árið því birtar til samanburðar við hálfsársuppgjör þessa árs á meðfylgjandi töflu.

Hagræðing að koma fram

Einar Valur Kristjánsson, formaður stjórnar Hraðfrystihússins hf., segir að árangur vinnu við endurskipulagningu sem hafin var eftir sameiningu fyrirtækjanna þriggja sé að skila sér vel á þessu ári. "Við höldum að við séum nú komnir á beinu brautina, ef ekki koma til óvænt skakkaföll." Hann segir að bolfiskveiðar og vinnsla gangi vel og afurðaverð sé gott. Aftur á móti hafi úthafsrækjuveiðar gengið ver en áður. Af þeim sökum náði fyrirtækið ekki að nýta allan sinn rækjukvóta og vegna slakrar afkomu veiðanna er erfitt að fá skip í viðskipti.

Að mati Einars Vals eru horfur fyrir árið í heild ágætar, vegna aukinna veiðiheimilda í þorski og góðs afurðaverðs. Hann kveðst vonast til að fyrirtækinu takist að halda sínum hlut í rækjunni. Hins vegar segir Einar Valur ekki vitað hvaða áhrif efnahagserfiðleikarnir í Rússlandi hafi á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins.

Breytingar á Andey

Fyrir dyrum standa endurbætur á skipi félagsins, Andey ÍS. Breytingarnar fara fram í Póllandi í haust. Skipið verður lengt um tólf metra, skipt um togspil og fleiri breytingar gerðar. Breytingarnar eru gerðar í þeim tilgangi að skipið þjóni betur hlutverki sínu sem hráefnisöflunartæki fyrir rækjuverksmiðju fyrirtækisins í Súðavík. Kostnaður er áætlaður um 100 milljónir kr.

Unnið er að skráningu Hraðfrystihússins hf. á vaxtarlista Verðbréfaþings Íslands. Einar vonast til að félagið fáist skráð í lok september eða byrjun október.