NÚ ER skammdegið að fara í hönd og farið að huga að umferð skólabarna við grunnskóla, en skólarnir hefja almennt störf eftir helgina. Lögreglan í Reykjavík hefur haft sérstakan viðbúnað til að efla löggæslu við skólana fyrstu dagana á meðan börnin eru að venjast leiðum í og við skólann.
Lögreglan með eftirlit við grunnskóla Reykjavíkur

NÚ ER skammdegið að fara í hönd og farið að huga að umferð skólabarna við grunnskóla, en skólarnir hefja almennt störf eftir helgina.

Lögreglan í Reykjavík hefur haft sérstakan viðbúnað til að efla löggæslu við skólana fyrstu dagana á meðan börnin eru að venjast leiðum í og við skólann. Á þessu hausti mun lögreglan í Reykjavík einbeita sér sérstaklega að þessu verkefni með þátttöku lögreglumanna úr öllum deildum embættisins.

Þeir nemendur sem eru að leggja í sína fyrstu skólagöngu, þ.e.a.s. sex ára nemendur, eru búnir að fá nokkra kennslu um umferðarmál og er þá átt við skólagöngu þeirra í Umferðarskólanum ungir vegfarendur, sem er starfræktur í júní ár hvert. Vill lögerglan hlúa sérstaklega að þessum aldurshópi og leiðbeina honum eins og kostur er.

Lögreglan í Reykjavík vill hvetja foreldra til að ræða við börn sín um hætturnar er leynast í umferðinni. Einnig hvetur hún foreldra til að fara með börnunum í skólann fyrstu dagana og hjálpa þeim að velja öruggustu leiðina.

Fylgst verður með hraðakstri

Áhersla lögreglunnar við skólana mun einkum beinast að hraðakstri og umferð í nánd við gangbrautir. Einnig verður hugað að lagningu ökutækja, og því hvernig bifreiðar eru stöðvaðar til að hleypa börnum út.

Lögreglan í Reykjavík vill hvetja alla ökumenn til að sýna fyllstu aðgæslu í umferðini sérstaklega í nágrenni við skólana þar sem mikið af ungum börnum verður á ferðinni.Morgunblaðið/RAX LÖGREGLAN mun sérstaklega aðstoða yngstu skólanemendurna næstu daga.