Staða Jeltsíns talin veikari en áður Moskvu, Bonn. Reuters. BORÍS Jeltsín, forseti Rússlands, mætti loks til starfa í Kreml í gær eftir tveggja daga fjarveru á sama tíma og efnahagsvandræði landsins ágerðust verulega.
Staða Jeltsíns talin veikari en áður

Moskvu, Bonn. Reuters.

BORÍS Jeltsín, forseti Rússlands, mætti loks til starfa í Kreml í gær eftir tveggja daga fjarveru á sama tíma og efnahagsvandræði landsins ágerðust verulega. Fjarvera Jeltsíns og aðgerðaleysi á tímum mikilla erfiðleika gaf orðrómum um væntanlega afsögn hans byr undir báða vængi en fregnir af brotthvarfi Jeltsíns eru kannski ekki fullkomlega tímabærar enda hefur forsetinn margoft sannað þrautseigju sína. Sagðist hann aukinheldur í gær staðráðinn í að sitja út kjörtímabil sitt sem lýkur árið 2000.

Jeltsín var í Kreml í gær til að taka á móti Petar Stoyanov, forseta Búlgaríu, sem er í opinberri heimsókn í Rússlandi. Leit Jeltsín út fyrir að vera við þokkalega heilsu og afsannaði þannig orðróm þess efnis að hann væri fársjúkur en fréttamönnum, sem viðstaddir voru fund forsetanna tveggja, var hins vegar aðeins gefið tækifæri til að spyrja örfárra spurninga og Jeltsín minntist ekkert á efnahagsvandann sem nú plagar Rússland.

Umbótasinninn Borís Nemtsov, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra, sagði í fyrradag að Jeltsín væri ófær um að skilja hvað væri að gerast í efnahagsmálum landsins og fréttaskýrandinn Sergej Karaganov tók í sama streng í gær þegar hann sagði að Jeltsín hefði í raun verið ófær til starfa um langa hríð. "Hann getur ekki unnið, hann er ófær um að skilja þær upplýsingar sem honum eru gefnar og draga af þeim ályktanir."

Sergej Kíríjenkó, sem Jeltsín rak úr embætti forsætisráðherra á sunnudag, sagði hins vegar í viðtali í gær að Jeltsín hefði miklar áhyggjur af framvindu mála síðustu dagana og að hann áttaði sig fullvel á umfangi vandans þótt hann hefði ekki mikið sést opinberlega að undanförnu. Kíríjenkó, sem ekki virðist erfa brottreksturinn við Jeltsín, sagðist síðast hafa hitt forsetann á sunnudag. "Jeltsín skilur alveg fullkomlega hvað er að gerast í Rússlandi," sagði Kíríjenkó. "Og ráðstafanir hans hingað til hafa verið fullkomlega við hæfi."

Ekki er víst að allir séu sammála enda hefur Jeltsín verið iðinn við að vísa undirmönnum sínum úr embætti einmitt þegar pólitískur stöðugleiki er afar mikilvægur. Jeltsín rak Kíríjenkó á sunnudag og skipaði Viktor Tsjernomyrdín aftur í embætti forsætisráðherra og í gær rak hann Anatólí Tsjúbajs, sérlegan efnahagsráðgjafa sem sá um mikilvægar samningaviðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) vegna lána til Rússlands.

Bæði Kíríjenkó og Tsjúbajs teljast til umbótasinna í rússneskum stjórnmálum og hafa erlendir ráðamenn af því nokkrar áhyggjur að stjórnvöld ætli að beygja af umbótabrautinni. Hafa þeir einmitt á síðustu dögum ítrekað að Rússar hljóti ekki frekari fjárhagsstuðning ef þeir grípa ekki þegar til nauðsynlegra umbóta í efnahagslífi landsins, minnka ríkisútgjöld og hefja aukna innheimtu skatta.

Fréttaskýrendur gera ráð fyrir að þetta verði skilaboð Bills Clintons Bandaríkjaforseta, sem heimsækir Moskvu á þriðjudag í næstu viku, og að Clinton muni ekki koma færandi hendi að öðru leyti. Fjármálaráðherrar Þýskalands, Frakklands, Bretlands og Ítalíu munu hafa flutt Tsjernomyrdín sömu skilaboð í bréfi sem þeir sendu honum í gær.

Sestur í helgan stein?

Ljóst er að pólitísk staða Jeltsíns er ekki sterk um þessar mundir en óvissa ríkir enn um framhaldið. Fréttaskýrendur spá því nú að Jeltsín afsali sér ekki forsetaembættinu heldur sitji til ársins 2000 en láti Viktor Tsjernomyrdín um raunverulega stjórnun landsins. Bent er á þessu til sönnunar að heimildir hermi að Jeltsín hafi á sunnudag gefið Tsjernomyrdín fullkomlega frjálsar hendur með myndun ríkisstjórnar.

Alexander Lebed, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og núverandi ríkisstjóri í Krasnojarsk í Síberíu, lét hafa eftir sér í gær að svo virtist sem Jeltsín hefði samþykkt að draga úr völdum sínum, sem samkvæmt stjórnarskrá Rússlands eru afar umfangsmikil. Sagt er að í viðræðum Tsjernomyrdíns og Dúmunnar um samkomulag sem tryggja myndi skipan Tsjernomyrdíns í embætti forsætisráðherra á fundi Dúmunnar á mánudag hafi m.a. rætt um hvernig hægt sé að auka áhrif Dúmunnar, og um leið draga úr stjórnarskrárbundnum völdum forsetaembættisins, gegn því að Dúman sæki Jeltsín ekki til saka fyrir embættisaflöp eftir að hann lætur af embætti.

Jeltsín virðist þannig staðráðinn í að sitja út kjörtímabil sitt en margir hafa bent á að Bill Clinton væri nær að eyða mestum tíma sínum, þegar hann heimsækir Moskvu á þriðjudag og miðvikudag, í viðræður við Tsjernomyrdín heldur en Jeltsín því það sé hinn fyrrnefndi sem verði að takast þá ábyrgð á hendur að leiða Rússland út úr þeim efnahagslegu ógöngum sem það nú er í. Frægðarsól Borís Jeltsíns sé í raun hnigin til viðar.

Reuters

VERÐBRÉFAMIÐLARI horfir vökulum augum á sjónvarpsskjá sinn í fjármálamiðstöð Moskvuborgar í gær. Efnahagshrunið í Rússlandi hefur þegar haft víðtæk áhrif á fjármálamörkuðum víðs vegar um heim.