"ÞAÐ mun eyðileggja trúnaðarsambandið milli lögmanns og skjólstæðings ef lögmönnum verður gert skylt með lögum að tilkynna um grun um peningaþvætti," segir Henrik Rothe, framkvæmdastjóri danska lögmannafélagsins, en hann var einn frummælenda á árlegum fundi forystumanna norrænu lögmannafélaganna, sem haldinn var í Stykkishólmi í gær.
Forystumenn norrænu lögmannafélaganna ræða peningaþvætti

Tilkynningaskylda eyði-

leggur trúnaðarsamband

"ÞAÐ mun eyðileggja trúnaðarsambandið milli lögmanns og skjólstæðings ef lögmönnum verður gert skylt með lögum að tilkynna um grun um peningaþvætti," segir Henrik Rothe, framkvæmdastjóri danska lögmannafélagsins, en hann var einn frummælenda á árlegum fundi forystumanna norrænu lögmannafélaganna, sem haldinn var í Stykkishólmi í gær.

Sérfræðinganefnd á vegum Evrópusambandsins hefur hvatt til þess að slík tilkynningaskylda lögmanna jafnt og þeirra sem starfa í ýmiskonar fjármálastofnunum og fyrirtækjum sem geta tengst peningaþvætti verði lögfest.

Um alla Evrópu er nú unnið að því að herða löggjöf um peningaþvætti og til stendur að leggja frumvarp þess efnis fyrir Alþingi á hausti komanda. Sjálfur situr Henrik Rothe sem fulltrúi danskra lögfræðinga í nefnd sem vinnur að undirbúningi dönsku löggjafarinnar um peningaþvætti og á nefndin að leggja fram álitsgerð innan hálfs árs. Löggjöfin mun svo væntanlega líta dagsins ljós að einu eða tveimur árum liðnum. "Dómsmálaráðherra Danmerkur hefur lýst yfir þeirri skoðun sinni að lögmenn eigi að gegna þessari tilkynningaskyldu, svo það er ljóst að við eigum við ramman reip að draga," segir Rothe.

Varhugavert að breyta þannig hlutverki lögmanna

Hann segir það mjög varhugavert að breyta á þennan hátt hlutverki lögmanna. "Samkvæmt þessu ber að tilkynna um hinn minnsta grun, án vitundar hins grunaða, sem þýðir að skjólstæðingar okkar geta ekki verið vissir um að allt sem þeir segi við okkur sé í fyllsta trúnaði. Og það myndi hafa mjög skaðleg áhrif. Í fyrsta lagi álítum við að það að einstaklingur geti talað við lögmann sinn í fyllsta trúnaði, hafi fyrirbyggjandi áhrif gagnvart glæpum. Sá sem er í vafa um hvort eitthvað er ólöglegt eður ei á þannig óhræddur að geta leitað til lögmanns og verið öruggur um að það sem þeim fari á milli sé í trúnaði. Sá hinn sami myndi þannig jafnvel láta eiga sig að gera það sem hann annars hefði gert. Við megum heldur ekki gleyma því að einstaklingur sem hefur brotið af sér á líka rétt á því að leita aðstoðar lögmanns í fullum trúnaði. Í raun má segja að nú séu lögmenn einu aðilarnir í samfélaginu, þar sem maður getur verið viss um fullkominn trúnað. Í Danmörku hafa endurskoðendur t.d. ákveðna skyldu til þess að tilkynna um ef eitthvað virðist óreglulegt í bókhaldinu, svo þeir hafa eiginlega tvöfalt hlutverk þar sem þeir eru einnig trúnaðarmenn almennings. Lögmaðurinn er aftur á móti trúnaðarmaður skjólstæðingsins eingöngu og það væri mjög hættulegt ef lögmaðurinn myndi skyndilega missa þá stöðu sem hann hefur í lýðræðislegu réttarsamfélagi sem trúnaðarmaður skjólstæðings síns. Við eigum einungis að gæta hagsmuna skjólstæðingsins," ítrekar hann.

Aðgreining erfið

Rothe segir að oft geti verið erfitt að greina á milli tvenns konar starfsemi lögmanna. Annars vegar sé um að ræða eiginleg lögmannsstörf og hins vegar störf við ráðgjöf um fjármál og viðskipti. Þetta tvennt vill fyrrnefnd sérfræðinganefnd Evrópusambandsins aðskilja, að sögn Rothes. "Vandamálið er að það er ekki nærri alltaf hægt að aðgreina þessi tvö svið í starfsemi lögmanna. Það sem byrjar t.d. sem fjárhagsleg ráðgjöf fyrir skjólstæðing getur allt eins endað með að verða lögfræðiráðgjöf þar sem maður segir við skjólstæðinginn: "Þessar fjárhagslegu ráðstafanir sem þú hefur í hyggju eru ólöglegar," og þá er maður kominn inn í lögmannsstarfið. Svo við vonum að menn hafi skilning á því að lögmenn eigi að hafa sérstöðu hvað þetta varðar.

Þetta hefur einnig í för með sér að lögmenn mega ekki reka blandaða starfsemi með öðrum. Sem dæmi má nefna að víða er rekin endurskoðunar- og málflutningsstarfsemi hjá einu og sama fyrirtækinu. Þá er alveg ljóst að það er ekki hægt að hafa ólíkar reglur um trúnað innan sama fyrirtækisins. Þá neyðumst við til að segja að ef þagnarskylda lögmanna á að vera ótvíræð og ef löggjöfin um peningaþvætti á ekki að taka yfir starfsemi þeirra, þá hlýtur þeim að verða bannað að reka fyrirtæki ásamt öðrum," segir Rothe að síðustu.

Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason HENRIK Rothe, framkvæmdastjóri danska lögmannafélagsins.