"ÉG beitti röddinni vitlaust og fékk hæsi," segir Sævar Kristinsson, ráðgjafi hjá Iðntæknistofnun, "en eftir að ég hóf söngnámið losnaði ég við hæsina." "Það er mikil bót fyrir mig að geta talað og sungið rétt, því ég fæst nefnilega töluvert við kennslu," segir hann. "Núna treysti ég mér til að tala hljóðnemalaust hvar sem er.
Næmari á smáatriðin í músíkinni

Sævar Kristinsson hafði verið í kór í mörg ár þegar hann ákvað að fara að læra söng í Nýja söngskólanum Hjartansmál.

"ÉG beitti röddinni vitlaust og fékk hæsi," segir Sævar Kristinsson, ráðgjafi hjá Iðntæknistofnun, "en eftir að ég hóf söngnámið losnaði ég við hæsina."

"Það er mikil bót fyrir mig að geta talað og sungið rétt, því ég fæst nefnilega töluvert við kennslu," segir hann. "Núna treysti ég mér til að tala hljóðnemalaust hvar sem er. Mér finnst að kennsla í raddbeitingu ætti að vera skyldufag í skólum."

Sævar hefur alltaf haft unun af söng og verið í nokkrum kórum, t.d. Rangæingakórnum. Hann segir að í söngskólanum sé nemendum m.a. kennt að anda rétt og beita röddinni í tali og söng. "Ég byrjaði hjá Birni Björnssyni rafverktaka, sem söng og kenndi af hjartans lyst," segir hann, "næst var ég hjá Sigurði Demetz og síðast hjá Jóhönnu Linnet, en þau eru öll frábærir kennarar."

Hann segist einnig hafa lært að meta ýmislegt nýtt eins og ljóðasöng, óperur og klassíska tónlist. "Ég er núna búinn með fimmta stig og hef hug á að klára öll átta sem kennd eru hér á landi, því ég er enn að bæta við mig."

Sævar segir að raddsviðið hafi stækkað og hann fundið nýjar tónhæðir. Tóneyrað hafi líka þroskast og hann geti núna hlustað og íhugað smáatriðin í músíkinni. "Svo kann ég núna brot í ítölsku," segir hann, "í heild er þetta mjög gott fyrir sjálfið."

Áhrifin eru alltumlykjandi. "Söngurinn bætir alla líðan," segir hann. "Allir ættu að fara í söngnám. Það er enginn svo vonlaus að kennsla og þjálfun geti ekki hjálpað honum til að ná tökum á söng."

Morgunblaðið/Arnaldur "SÖNGNÁM er gott fyrir sjálfið," segir Sævar Kristinsson.