"SPARISJÓÐIRNIR sýndu af fullum heilindum áhuga á því að kaupa Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Ég virði rétt eigandans til þess að taka ákvarðanir um hvernig hann vilji selja bankann. Þeir eiga bankann, fyrir hönd okkar íbúa þessa lands.
Þór Gunnarsson Virði rétt eiganda bankans til að taka ákvarðanir

"SPARISJÓÐIRNIR sýndu af fullum heilindum áhuga á því að kaupa Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Ég virði rétt eigandans til þess að taka ákvarðanir um hvernig hann vilji selja bankann. Þeir eiga bankann, fyrir hönd okkar íbúa þessa lands. Þeim hefur verið falið að fara með þetta og ég get ekki annað en virt það að þeir hafa tekið sína ákvörðun og ég sætti mig við hana," sagði Þór Gunnarsson, formaður Sambands sparisjóða, þegar álits hans á niðurstöðunni varðandi sölu ríkisbankanna var leitað.

"Ég lít á þetta sem tapaða orustu. Stríðið heldur áfram. Sparisjóðirnir hafa fullan hug á því að vera virkir þátttakendur á fjármagnsmarkaði og munu ekki láta deigan síga þó þetta hafi komið fyrir, síður en svo," sagði Þór.

Aðspurður um áhuga sparisjóðanna á því að fjárfesta í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins síðar, eftir að hann verður boðinn á markaði, sagði Þór, að áhugi sparisjóðanna hefði beinst að því að sameina FBA Kaupþingi og gera það að virkri og öflugri stofnun frá undirskriftarstundu. "Ef aðilar velja þá leið að fara fyrst í sölu til starfsmanna, síðan í dreifða sölu til einstaklinga, þá getur það orðið miklum erfiðleikum bundið að semja við þann hóp allan um að kaupa Kaupþing inn í bankann síðar meir. Ferlið gæti allt orðið miklu þyngra og erfiðara," sagði Þór Gunnarsson.