SKYLMINGAR eru stundaðar í ÍR húsinu við Landakot og liðinn vetur fóru til dæmis nemendur í Landakotsskóla í skylmingatíma. Skylmingafélag Reykjavíkur stendur fyrir þessari íþrótt og hefur Búlgarinn Nikolay Mateen kennt mörgum að skylmast. Hann var í búlgarska landsliðinu á níunda áratugnum og keppti m.a. á heimsbikarmótum. "Árið 1986 unnum við brons og ári síðar silfur," segir hann.
Skylmingar Eru skylmingar líkar fiðluleik?

Fáir stunda skylmingar á Íslandi. Þessi íþrótt byggist á leikni, tækni og brellum að sögn hinnar tíu ára gömlu Maríu Helgu.

SKYLMINGAR eru stundaðar í ÍR húsinu við Landakot og liðinn vetur fóru til dæmis nemendur í Landakotsskóla í skylmingatíma.

Skylmingafélag Reykjavíkur stendur fyrir þessari íþrótt og hefur Búlgarinn Nikolay Mateen kennt mörgum að skylmast. Hann var í búlgarska landsliðinu á níunda áratugnum og keppti m.a. á heimsbikarmótum. "Árið 1986 unnum við brons og ári síðar silfur," segir hann.

Blaðamaður leit inn á æfingu í ÍR húsinu og hitti þar nokkra krakka sem voru að æfa hjá Nikolay.

María Helga er 10 ára gömul og segist hafa stundað skylmingar í þrjú ár. "Þetta er skemmtileg íþrótt," segir hún, "hún byggist á leikni, tækni og brellum. Ég kann vel við að það er ekki sá sterkasti sem vinnur."

Hún segist ætla að skylmast áfram. "Svo lengi sem ég treysti mér eða þangað til ég örkumlast." María stundar íþróttina allt árið nema í júlí, þá er sumarfrí.

"Ég læri líka á fiðlu og klarinett og er í skátunum," segir hún og bætir við að hún sé í Landakotsskóla.

Dagur Guðbergsson er sjö ára og segist hafa byrjað í skylmingum í sumar og líki íþróttin ágætlega.

Magnús Már er þrettán ára og hefur verið í skylmingum í þrjú ár. "Þetta er skemmtilegt. Það eru fáir í skylmingum. Það er erfitt að ná tökum á þessu fyrst en svo venst það og verður ekki svo erfitt," segir hann.

Nikolay segist reikna með því að krakkar í Landakotsskóla fari í tíma í skylmingum í vetur. Hjá Skylmingafélagi Reykjavíkur fengust þær upplýsingar að í vetur yrðu annars vegar æfingar fyrir börn og hins vegar fyrir unglinga og fullorðna.

Morgunblaðið/Jim Smart UPP stilltu sér í fremri röð: Bergur Guðbergsson, María Helga Guðmundsdóttir, Dagur Guðbergsson, Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, Alexander Mateen og Haukur Jónasson. Og í aftari röð: Magnús Már Björnsson, Nikolay Mateen og Hjörleifur Henriksson.