"FYRIR vikið var leikurinn frekar bragðdaufur og fátt sem gladdi augað, ef undan er skilið ævintýralegt innkast HK-mannsins Stefáns Guðjónssonar sem tók heljarstökk fram fyrir sig um leið og hann kastaði knettinum inn á völlinn...
Ævintýralegt innkast Stefáns Guðjónssonar Gleður augað

Knattspyrnuliði HK í Kópavogi hefur ef til vill ekki gengið sem best í 1. deildinni á þessari leiktíð. En HK-liðið hefur eitt, sem önnur lið hafa ekki, innkastarann snjalla Stefán Guðjónsson, sem sýndi Sveini Guðjónssyni tilþrifin.

"FYRIR vikið var leikurinn frekar bragðdaufur og fátt sem gladdi augað, ef undan er skilið ævintýralegt innkast HK-mannsins Stefáns Guðjónssonar sem tók heljarstökk fram fyrir sig um leið og hann kastaði knettinum inn á völlinn..." Þannig hljóðar lýsing íþróttafréttamanns Morgunblaðsins á atviki í leik HK og Víkinga, þegar umræddur Stefán tók innkast og kastaði frá hliðarlínu á stöngina fjær, sem virkar í raun eins og hornspyrna. Þetta vakti áhuga blaðamanns Morgunblaðsins og hann skundaði því léttur í spori á æfingasvæði HK-manna í Kópavoginum til að sjá með eigin augum þessi tilþrif hins liðuga og hugmyndaríka íþróttamanns.

"Þessir óvenjulegu hæfileikar Stefáns uppgötvuðust á æfingu þegar ég var að láta strákana leika sér með boltann, fara kollhnís og þess háttar," sagði Kjartan Másson, þjálfari HK, þegar við mættum á svæðið. "Ég hef aldrei mælt kastið nákvæmlega en það er á við góða hornspyrnu," sagði hann og bætti við: "Þetta getur auðvitað verið stórhættulegt upp við mark andstæðinganna, en auk þess er þetta skemmtilegt fyrir áhorfendur og gleður augað. Það mætti kannski líkja þessu við tilburði kólumbíska markvarðarins Rene Hiquita," sagði Kjartan.

Stefán Guðjónsson er 27 ára og starfar sem sölu- og markaðsfulltrúi hjá TVG-Zimsen. Hann er fæddur og uppalinn í vesturbæ Reykjavíkur og lék fótbolta með KR í yngri flokkunum. "Ég hætti í fótboltanum fyrir sjö árum og fór þá að æfa frjálsar íþróttir og var aðallega í millivegalengdum, 400, 800 og 1500 metra hlaupi," sagði Stefán. "Svo byrjaði ég aftur í boltanum í vetur og æfði þá með Þrótti. Ég hef svo spilað með HK í 1. deildinni síðari hluta sumars."

­ Eru einhver framtíðaráform varðandi fótboltann?

"Ég ætla að halda áfram í boltanum og það væri gaman að komast að hjá einhverju liðinu í efstu deild."

­ Eitthvert draumalið þar?

"Það eru helst Þróttur eða KR. Það yrði óneitanlega gaman að vera með KR-ingunum þegar þeir vinna Íslandsmeistaratitilinn á hundrað ára afmælinu á næsta ári ...!"

­ Hvernig datt þér í hug að fara út í þessa tilburði í innkastinu?

"Ég sá þetta einhvers staðar fyrir mörgum árum. Ég held að það hafi verið í landsleik í sjónvarpinu. Og svo sá ég einn Þróttarann í 2. flokki gera þetta í sumar og þá rifjaðist það upp. Þegar svo Kjartan var að láta okkur fara kollhnís með boltann datt mér í hug að prófa þetta og það gekk upp."

Stefán hefur ekki fyrr sleppt orðinu en hann tekur heljarstökk með knöttinn og varpar honum í fallegum boga langt út á völlinn. Við lauslega skrefatalningu mælist kastið 35 metrar, en Stefán getur kastað mun lengra þegar sá gállinn er á honum.Morgunblaðið/Jim Smart