LÆRLINGUR í Washington verður heitið á nýrri mynd leikstjórans Clyde Ware og fjallar myndin um unga konu sem á í ástarævintýri við valdamikinn mann úr ríkisstjórninni. Ekki þarf mikið hugarflug til að sjá hvaðan fyrirmyndin er sprottin. Ware, sem hefur framleitt nokkrar sjónvarpsmyndir, segir að hann hafi upphaflega ætlað myndinni að fjalla um öldungaráðsþingmann og ungan dreng.
Kvikmynd í bígerð sem byggð er á Lewinsky- hneykslinu

LÆRLINGUR í Washington verður heitið á nýrri mynd leikstjórans Clyde Ware og fjallar myndin um unga konu sem á í ástarævintýri við valdamikinn mann úr ríkisstjórninni. Ekki þarf mikið hugarflug til að sjá hvaðan fyrirmyndin er sprottin.

Ware, sem hefur framleitt nokkrar sjónvarpsmyndir, segir að hann hafi upphaflega ætlað myndinni að fjalla um öldungaráðsþingmann og ungan dreng. En það var áður en kynlífshneykslið í Hvíta húsinu komst í fjölmiðla. Og Ware ákvað að breyta söguþræðinum pínulítið.

Í hlutverki lærlingsins verður óþekkt leikkona að nafni Kathryn Jenkins-Smith. Hún er frá Winston-Salem í Norður-Karólínu og þótt hún hafi aðeins leikið í örfáum auglýsingum segir Ware að andlitið sé kunnuglegt.

"Hún er svo lík [Lewinsky] að það er hálfgerður óþokkaskapur," segir kvikmyndagerðarmaðurinn í samtali við Hollywood Reporter. Kvikmyndin verður fjármögnuð af Delaware pictures, sem er angi af Raleigh Studios í Norður-Karólínu. En Ware segir að ekki sé ljóst ennþá hvort hún verði sýnd í kvikmyndahúsum eða sjónvarpi.

"Þetta á eftir að verða svo illa þokkað að ég veit ekki hvernig ég fæ myndina sýnda," segir hann.NÚ ER í bígerð kvikmynd um framhjáhald Bandaríkjaforseta með Monicu Lewinsky.