Netverk eykur umsvif sín erlendis Hlutafé aukið um 400­600 milljónir kr. STJÓRN Netverks hf. hefur ákveðið að auka hlutafé félagsins og nota peningana til að auka umsvif fyrirtækisins á erlendum mörkuðum þar sem félagið er að markaðssetja nýja kynslóð af hugbúnaði fyrir gervihnattasamskipti.
Netverk eykur umsvif sín erlendis Hlutafé aukið

um 400­600

milljónir kr.

STJÓRN Netverks hf. hefur ákveðið að auka hlutafé félagsins og nota peningana til að auka umsvif fyrirtækisins á erlendum mörkuðum þar sem félagið er að markaðssetja nýja kynslóð af hugbúnaði fyrir gervihnattasamskipti. Gert er ráð fyrir að selt verði hlutafé fyrir 400­600 milljónir, meirihlutinn til erlendra fjárfesta.

Netverk hefur selt fjarskiptahugbúnað sinn til nokkurra erlendra símafyrirtækja sem aftur selja hann til sinna viðskiptavina. Til dæmis er búið að afhenda sænska símafélaginu hugbúnaðinn og verið er að ganga frá afhendingu hans til norska símafélagsins. Að sögn Holbergs Mássonar, framkvæmdastjóra Netverks hf., er fyrirtækið nú reiðubúið að setja kraft í markaðs- og sölustarfið á erlendum mörkuðum og hefur í þeim tilgangi verið í viðræðum við erlenda fjárfesta um þátttöku í verkefninu. Nú hafi verið ákveðið að fela fjárfestingarbankanum Banque Paribas í London að ganga frá þessum samningum. Holberg kveðst ánægður með samningana. "Það er ánægjulegt að hægt sé að koma þessum hugmyndum í framkvæmd," segir hann.

Hluti á íslenskan markað

Hlutafjárútboðið er lokað. Gert er ráð fyrir að selja hlutafé í Netverki fyrir 6­8 milljónir Bandaríkjadala, eða á bilinu 400­600 milljónir kr. Þar af er gert ráð fyrir að selja íslenskum fjárfestum hlutafé að verðmæti um 150 milljónir kr. Banque Paribas hefur gert samkomulag við Viðskiptastofu Landsbanka Íslands um að taka að sér innlenda hluta útboðsins.

Jafnframt hefur Netverk hf. samið við Skímu hf., dótturfélag Landssímans hf., um að annast sölu á fjarskiptahugbúnaðinum hér á landi. Skrifað var undir alla þessa samninga í gærdag.

Morgunblaðið/Þorkell SPJALLAÐ saman eftir undirritun samninga, f.v. Holberg Másson, framkvæmdastjóri Netverks, Halldór J. Kristjánsson bankastjóri Landsbankans og Nick Goddard frá Paribas bankanum.