HÖRÐ átök urðu við kjör til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga á landsþingi sambandsins sem lauk á Akureyri í gær. Formaður kjörnefndar, Smári Geirsson, sagði eftir að kjörnefnd hafði lokið störfum, að tímabært væri að taka upp ný vinnubrögð við kjör til stjórnar og draga úr pólitískum áhrifum flokkanna.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson endurkjörinn formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Hörð átök við stjórnarkjör

HÖRÐ átök urðu við kjör til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga á landsþingi sambandsins sem lauk á Akureyri í gær. Formaður kjörnefndar, Smári Geirsson, sagði eftir að kjörnefnd hafði lokið störfum, að tímabært væri að taka upp ný vinnubrögð við kjör til stjórnar og draga úr pólitískum áhrifum flokkanna.

Við kjör í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er venja að horfa til þriggja sjónarmiða, að fulltrúar komi úr öllum kjördæmum, að kjörið endurspegli pólitíska stöðu flokkanna og að konur eigi trygg sæti í stjórninni. Það getur því verið heilmikið púsluspil að koma saman stjórn.

Nokkur togstreita varð í kjörnefndinni um hvort stilla ætti Sigrúnu Magnúsdóttur, borgarfulltrúa í Reykjavík, en til greina koma einnig að velja frekar Guðrúnu Ágústsdóttur borgarfulltrúa. Sigrún er sem kunnugt er eiginkona Páls Péturssonar félagsmálaráðherra og töldu sumir að Sigrún væri í mörgum málum vanhæf til setu í stjórn vegna þessara tengsla. Niðurstaðan varð á endanum sú að Sigrún yrði áfram í stjórn og Guðrún yrði varamaður hennar.

Sunnlendingar beittir ofbeldi

Þegar talið var að komin væri niðurstaða í kjörnefndinni og búið var að prenta tillögu nefndarinnar kom upp óánægja sem leiddi til þess að kjörnefnd settist aftur á fund og töfðust fundarstörf í tæpa klukkustund vegna þessa. Jafnaðarmenn sættu sig ekki við niðurstöðu kjörnefndar og einnig vildu margir að reynt yrði að auka hlut kvenna í stjórninni. Þar sem stóru kjördæmin voru búin að stilla upp mönnum í stjórn var þrýst á Sunnlendinga að tilnefna nýjan mann í stjórnina. Upphaflega var rætt um Svein A. Sæland úr Biskupstungnahreppi færi í stjórn og Jónas Jónsson úr Ásahreppi yrði til vara. Sunnlendingar buðu að Jónas færi inn í aðalstjórn en því var hafnað. Þeir gerðu þá tillögu um að Ingunn Guðmundsdóttir úr Árborg færi inn í aðalstjórn, en jafnaðarmenn í kjörnefnd höfnuðu henni, en hún er sjálfstæðismaður. Þegar því hafði verið hótað að óska eftir að fram færi kosning um stjórnina komu Sunnlendingar með tillögu um Sigríði Ólafsdóttur, jafnaðarmann úr Árborg, og var hún samþykkt.

Smári Geirsson sagði eftir að niðurstaða lá fyrir í kjörnefnd að "það væri ekki leggjandi á sæmilega heilbrigt fólk að starfa í kjörnefnd við þessar aðstæður". Draga yrði úr vægi flokkspólitískra sjónarmiða við kjör í stjórn og fulltrúaráð og veita kjördæmunum meira umboð til að tilnefna fólk.

Loftur Þorsteinsson, oddviti Hrunamannahrepps, tók undir þessi orð og sagði að Sunnlendingar hefðu verið beittir ofbeldi við kjörið. Þeir hefðu ítrekað komið með tillögu um fulltrúa í stjórn en þeim hefði verið hafnað vegna pólitískra sjónarmiða. Þetta væri ekki í fyrsta skipti sem Sunnlendingar hefðu mátt sæta þessari meðferð, en þessu yrði að linna.

Þeir sem voru kjörnir í stjórn voru Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Reykjavík, sem var endurkjörinn formaður, Sigrún Magnúsdóttir Reykjavík, Jónína Sanders Reykjanesbæ, Ólafur H. Sverrisson Stykkishólmi, Sigurður R. Ólafsson Ísafjarðarbæ, Valgarður Hilmarsson Engihlíðarhreppi, Kristján Þór Júlíusson Akureyri, Guðmundur Bjarnason Austurríki og Sigríður Ólafsdóttir Árborg.

Úr stjórninni ganga Sigríður Stefánsdóttir Akureyri, Magnús Karel Hannesson Árborg, Ólafur Kristjánsson Bolungarvík og Ingvar Viktorsson Hafnarfirði.

Þá voru Karl Björnsson og Jón G. Kristjánsson, sem hafa verið í forystu fyrir Launanefnd sveitarfélaganna, endurkjörnir í nefndina.

Morgunblaðið/Kristján VILHJÁLMUR Þ. Vilhjálmsson var endurkjörinn formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga til næstu fjögurra ára.