ANGÓLSKIR hermenn greindu frá því í gær að þeir stæðu í samningaviðræðum við uppreisnarmenn í Lýðveldinu Kongó, sem hefðu hótað að sprengja í loft upp helsta vatnsorkuver landsins. Kváðust Angólamenn hafa unnið "örugga sigra" á hersveitum uppreisnarmanna, sem berjast gegn forráðum Laurents Kabila í Kongó, og sögðust Angólamenn hafa hertekið hafnarborgina Matadi á þriðjudag.
Lýðveldið Kongó

Hóta að sprengja orkuver

Cabinda í Angóla. Reuters.

ANGÓLSKIR hermenn greindu frá því í gær að þeir stæðu í samningaviðræðum við uppreisnarmenn í Lýðveldinu Kongó, sem hefðu hótað að sprengja í loft upp helsta vatnsorkuver landsins. Kváðust Angólamenn hafa unnið "örugga sigra" á hersveitum uppreisnarmanna, sem berjast gegn forráðum Laurents Kabila í Kongó, og sögðust Angólamenn hafa hertekið hafnarborgina Matadi á þriðjudag.

Yfirmaður í angólska hernum, sem nýkominn var frá Kongó, tjáði Reuters í gær að sveitir hersins væru komnar að vatnsorkuverinu við Inga, og þar stæðu yfir samningaviðræður. Hefðu uppreisnarmenn krafist þess að fá að hörfa óáreittir en myndu sprengja stíflu orkuversins í loft upp ella. Fréttamenn Reuters, staddir í Matadi, sögðu á fimmtudagskvöld að bærinn væri enn í höndum uppreisnarmanna.

Uppreisnarmenn hafa haft orkuverið á valdi sínu og skrúfað fyrir rafmagn til höfuðborgarinnar Kinshasha undanfarna ellefu daga og því hafa höfuðborgarbúar orðið að reiða sig á rafmagn frá öðru og minna orkuveri, og hefur borgin nokkrum sinnum orðið rafmagnslaus.

Undanfarna viku hefur Angóla sent um tvö þúsund hermenn frá hólmlendunni Cabinda til aðstoðar hersveitum Kabilas í vesturhluta Kongó.