"Ég er mjög sammála niðurstöðu ríkisstjórnarinnar," sagði Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands. "Ég held að það hafi verið mjög rökrétt og æskilegt að gefa Landsbankanum tækifæri til að styrkja rekstur sinn í nýju rekstrarformi, bjóða út nýtt hlutafé, styrkja stöðu sína, nýta kosti rekstrarformsins, ljúka skráningu á verðbréfaþingi og vinna að þeirri hagræðingu,
Halldór J. Kristjánsson Sammála niðurstöðunni

"Ég er mjög sammála niðurstöðu ríkisstjórnarinnar," sagði Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands. "Ég held að það hafi verið mjög rökrétt og æskilegt að gefa Landsbankanum tækifæri til að styrkja rekstur sinn í nýju rekstrarformi, bjóða út nýtt hlutafé, styrkja stöðu sína, nýta kosti rekstrarformsins, ljúka skráningu á verðbréfaþingi og vinna að þeirri hagræðingu, sem er fær innan bankans, áður en frekari skref eru stigin. Það hefur verið mín skoðun frá upphafi. Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu og held að hún sé skynsamleg."

Halldór sagðist hins vegar vilja taka fram að viðræðurnar við SE- bankann hefðu verið vinsamlegar og gagnlegar þó að þessi niðurstaða varðandi eignaraðildina væri sú farsælasta.

Um næstu skref innan bankans sagði Halldór: "Við erum, eins og kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, með undirbúning okkar hlutafjárútboðs á lokastigi og allur okkar undirbúningur miðast við að áskrift hlutafjár hefjist fyrrihlutann í september."

Þá er 15% hlutafjáraukning í Landsbankanum fyrirhuguð, þar af mun starfsmönnum bankans gefast kostur á að kaupa 5% á verði sem samsvarar innra virði bankans um áramót. Halldór sagði undirbúning að skráningu bankans á Verðbréfaþingi einnig á lokastigi. "Verðbréfaþingið er að ljúka yfirferð yfir skráningargögn okkar og við gerum ráð fyrir því að sækja um skráningu og að hlutabréf bankans verði skráð á verðbréfaþingi í lok september, byrjun október," sagði Halldór J. Kristjánsson.