"ÉG fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að bankarnir verði ekki seldir á næstu mánuðum," sagði Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins þegar álits hennar á niðurstöðu ríkisstjórnarinnar var leitað. "Ég hef hins vegar ekki trú á að ríkistjórnin hefði nokkru sinni komist upp með þessi söluáform sín, sérstaklega ekki hvað varðar Landsbankann.
Margrét Frímannsdóttir Eykur ekki traust á bankamálaráðherra

"ÉG fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að bankarnir verði ekki seldir á næstu mánuðum," sagði Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins þegar álits hennar á niðurstöðu ríkisstjórnarinnar var leitað.

"Ég hef hins vegar ekki trú á að ríkistjórnin hefði nokkru sinni komist upp með þessi söluáform sín, sérstaklega ekki hvað varðar Landsbankann. Alþingi hefði aldrei samþykkt sölu Landsbankans til erlendra aðila í ljósi þeirra loforða, sem gefin voru, þegar rekstrarforminu var breytt," sagði Margrét.

"Hins vegar er ég hissa á þeirri ákvörðun sem tekin var varðandi Fjárfestingabankann. Það var vakin athygli á því þegar hann varð til, að það væri heppilegra að það yrði deild, t.d. hjá Landsbankanum, sem sæi um þessa starfsemi. Þá var talið mjög nauðsynlegt að stofna sérstakan banka sem sæi um fjármuni þeirra sjóða sem runnu inn í hann. Því var á sínum tíma mótmælt. Mér sýnist þetta vera viðurkenning ríkisstjórnarinnar á því að hún hafði rangt fyrir sér í því máli," sagði Margrét.

"Fyrst og fremst held ég að við megum þakka fyrir ef þessi fljótfærni hefur ekki orðið til að rýra traust íslenskrar bankastarfsemi. Þessi bankafarsi ríkisstjórnarinnar hefur síður en svo orðið til að auka traust á bankamálaráðherranum, sem var þó ekki mikið fyrir," sagði Margrét Frímannsdóttir.