MANNSLÍKAMINN ER ENDALAUS UPPSPRETTA INNBLÁSTURS Jirí Kylián er danshöfundur og listrænn stjórnandi Nederlands Dans Teater, dansflokksins sem heimsótti Listahátíð í Reykjavík í vor.

MANNSLÍKAMINN ER

ENDALAUS UPPSPRETTA

INNBLÁSTURSJirí Kylián er danshöfundur og listrænn stjórnandi Nederlands Dans Teater, dansflokksins sem heimsótti Listahátíð í Reykjavík í vor. Kylián var staddur hér á landi í tilefni frumsýningar Íslenska dansflokksins á verki hans "Stool Game" í Borgarleikhúsinu í júní. RAGNA SARA JÓNSDÓTTIR spjallaði við Kylián um nútímadansinn, hugmyndalegan innblástur, viðhorf til áhorfenda og margt, margt fleira.

ÞAÐ er óhætt að fullyrða að Jirí Kylián er einn þekktasti, virtasti og eftirsóttasti danshöfundur heims. Í raun er ótrúlegt að hann skuli koma hingað til lands, með jafn stuttum fyrirvara og raun ber vitni, en ekki er hlaupið að því að fá aðgang að verkum jafn eftirsóttra danshöfunda og hann er. Einhverra hluta vegna ljáði hann samt sem áður Íslenska dansflokknum verk eftir sig með stuttum fyrirvara.

"Dansflokkar sem fá að dansa verkin mín verða að hafa ákveðna eiginleika og vera í ákveðnum gæðaflokki. Þegar ég kom hingað til Íslands í fyrra sá ég að Íslenski dansflokkurinn var fær um að takast á við verkið mitt "Stool Game". Hitt er svo annað mál að ég og aðstoðarmenn mínir verðum að hafa tíma til að kenna verkin. Þeir fara á staðina og setja ballettana mína upp þegar að því kemur, en eins og stendur verða dansflokkar sem vilja dansa verkin mín að bíða til ársins 2001 af því að aðstoðarmenn mínir eru fullbókaðir þangað til." Það er semsagt ekki hlaupið að því að eiga samstarf við jafn upptekinn danshöfund og Kylián er.

Uppgötvaður af Cranko

Kylián er Tékki, fæddur í Prag árið 1947. Hann stundaði nám í klassískum ballett, austur-evrópskum þjóðdönsum og nútímaballett, aðallega Graham tækni. Árið 1967 fékk hann styrk til að stunda nám við Royal Ballet School í London þar sem hann komst í kynni við nokkra helstu danshöfunda samtímans. Þar á meðal var John Cranko, listrænn stjórnandi Stuttgart Ballet sem er þekktur fyrir að hafa uppgötvað marga af þekktustu danshöfundum þessarar kynslóðar. Þar má einna helst nefna John Neumeier, William Forsythe, Gray Veredon og Jirí Kylián. Cranko bauð Kylián samning við flokkinn í Stuttgart og dansaði hann þar í nokkur ár. Þar hóf hann jafnframt að semja verk, enda fékk hann mikinn stuðning og hvatningu frá Cranko. Um upphaf ferils síns sem danshöfundur hefur Kylián eftirfarandi að segja:

"Það er fyndið að hugsa til þess hvernig maður verður danshöfundur. Ég held að allir danshöfundar hafi byrjað sem dansarar, og það er mín skoðun að oft verði þeir danshöfundar sem ekki eru mjög góðir dansarar. Í mínu tilfelli var það þannig að ég áttaði mig á því að ég átti auðveldara með að túlka hugmyndir mínar og tilfinningar með líkömum annarra en með mínum eigin. Og það var eingöngu vegna þess að aðrir voru mun betri dansarar en ég. Þannig varð ég danshöfundur."

Alltaf að semja erfiðasta verkið

Árið 1973 var Kylián gestadanshöfundur hjá Nederlands Dans Teater sem þá var stjórnað af Hans van Manen. Það var upphafið að langvinnu sambandi þeirra á milli og árið 1975 tók Kylián við listrænni stjórn flokksins ásamt Hans Knill. "Eitt af fyrstu verkunum sem ég samdi fyrir NDT, fyrir tuttugu og fimm árum, var einmitt "Stool Game" sem Íslenski dansflokkurinn setur upp núna," segir Kylián, brosir hugsandi á svip og heldur áfram.

"Þegar ég er að semja finnst mér ég alltaf vera að semja erfiðasta verk sem ég hef nokkurn tíma samið. Hjá sumum danshöfundum er því kannski þveröfugt farið. Þeim finnst þeir alltaf vera að semja besta verk sem þeir hafa nokkurn tíma samið. En við danshöfundar erum allir svo vitlausir, af því að við hendum alltaf gömlu verkunum okkar, en að mínu mati er beinlínis rangt að gera það. Auðvitað erum við alltaf að læra og bæta okkur en það þýðir ekki að við megum henda eldri verkum. Þegar ég horfi núna á "Stool Game", sem ég samdi fyrir tuttugu og fimm árum, sé ég mörg mistök. Ég sé ýmislegt sem ég myndi ekki leysa nú eins og ég gerði þá því nú er ég mun reyndari og fróðari. En verkin eru samt alltaf vitnisburður um samtímann og mér finnst mjög mikilvægt að sjá það."

Færði elstu kynslóð dansara nýtt líf

Frá 1978 hefur Kylián verið ábyrgur fyrir listrænni stefnu NDT. Nokkrum árum síðar stóð hann fyrir því að stofnaður yrði annar danshópur innan Nederlands Dans Teater. Hópurinn var einfaldlega kallaður NDT II og var ætlaður ungum dönsurum.

"Ég áttaði mig á því að ungir dansarar áttu mjög erfitt með að komast inn í dansflokka. NDT er til dæmis dansflokkur fyrir sólóista og það er mjög erfitt að koma út úr dansskóla og eiga skyndilega að geta dansað sem sólóisti. Þess vegna stofnaði ég NDT II, til að brúa bilið á milli þess að vera nemandi og atvinnudansari, sem er að mínu mati mjög stórt. NDT II gefur ungum dönsurum tækifæri til að prófa sig áfram og mótast sem dansarar," segir Kylián og segist vera ánægður með tengsl hópanna tveggja sín á milli, en 90% af dönsurum aðaldansflokksins hófu feril sinn með NDT II.

Árið 1991 stofnaði Kylián svo þriðja hópinn, sem var ætlaður fyrir dansara sem voru komnir yfir fertugt og bjuggu yfir mikilli reynslu. Í þeim hópi eru nú fimm dansarar en við hann mun eflaust bætast á næstu árum. Stofnun hópsins markaði að mörgu leyti tímamót í sögu dansins. Í fyrsta sinn var farið að líta á dansara yfir fertugu sem boðlega áhorfendum, reynsla þeirra var nýtt til hins ýtrasta og hefur flokkurinn átt miklum vinsældum að fagna um allan heim. Sumir segja að það sé vegna þess að dansararnir nái persónulegu sambandi við áhorfendur með einlægri nærveru sinni á sviðinu.

Klæðskerasniðin hlutverk

Kylián semur verk fyrir alla hópana þrjá, og segir að það sé ólíkt ferli. "Það er stór munur á hópunum þremur, og þá aðallega á orku þeirra og reynslu. Yngstu dansararnir hafa mikla orku og litla reynslu en þeir elstu hafa minni orku sem þeir vega upp með mikilli reynslu. Ég hef jafn gaman af því að vinna með öllum hópunum þó það sé mjög ólíkt. Ég held að það sem ég semji fyrir elsta hópinn sé mest sniðið eftir hæfileikum hvers og eins. Það er vegna þess að enginn leysir þá af, þau hafa enga varamenn. Í hinum hópunum eru hins vegar tveir til þrír sem læra sömu hlutverkin og því verða þau ekki eins persónuleg og annars."

Árið 1978 hlaut Kilyán alþjóðlega frægð þegar verk hans "Sinfonietta" hlaut mikla athygli á Spoleto danshátíðinni í Bandaríkjunum. Síðan þá hefur hann samið yfir fimmtíu verk, sem komið hafa honum á stall nokkurra virtustu og eftirsóttustu danshöfunda í heimi. Stíll hans er auðþekkjanlegur, en frægastur er hann fyrir að brúa bilið milli klassísks balletts og nútímaballets. Verk hans bera einnig keim af þjóðdönsum heimalands hans, Tékklandi, og úr verður einhvers konar blanda sem hefur töfrað áhorfendur um allan heim.

Mannslíkaminn endalaus uppspretta

"Verkin mín eru byggð á klassískum grunni en síðan gætir áhrifa úr svo mörgum áttum. Í mínum augum er mannslíkaminn endalaus uppspretta innblásturs. Það sem hann getur gert er takmarkalaust, hann hefur áhrif á mig og fær mig til að halda áfram að semja. En það er ekki bara líkaminn sem hefur áhrif heldur einnig hvernig hann tengist sálinni, og hvernig þau saman tengjast fólkinu og umhverfinu, og hvernig það tengist alheiminum. Hvernig í ósköpunum komumst við hingað, hvers vegna erum við hér? Hverjar eru hinar óútskýranlegu þrár mannsins og hvað fær okkur til að gera órökrétta hluti? Allar þessar grunnspurningar hef ég ætíð á bak við eyrað. Og því meira sem ég hugsa um það því meira meðtek ég meðvitundarleysi lífs okkar og tilveru. Því meira sem ég trúi á meðvitundarleysi þess sem ég er að gera, því meira frelsi öðlast ég.

Áður fyrr var ég mjög upptekinn af skilaboðum. Í dag sendi ég hvorki skilaboð né segi sögur í verkum mínum. Og því eldri sem ég verð því óhlutbundnari verða verkin mín. En "óhlutbundið" er hræðilegt orð. Hvað er óhlutbundið við að setja manneskju, sem gerð er úr skinni, beinum og blóði, með sál, reynslu og tilfinningar, á sviðið? Hvað er óhlutbundið við það? Það er varla hægt að kalla dans óhlutbundinn, vegna þess að hann er framkvæmdur af fólki, lifandi líkömum."

Boomerang í stað dansleyfis

Á tímabili var Kylián undir miklum áhrifum frá menningu og dansi frumbyggja Ástralíu og hafa dansgagnrýnendur löngum talið sig geta greint þau áhrif í verkum hans. Á það við rök að styðjast?

"Um 1970 sá ég mynd um dansa frumbyggja Ástralíu og skynjaði strax að þeir væru mjög mikilvægir í menningu frumbyggjanna. Mörgum árum síðar, um 1982, fór ég svo til Ástralíu. Þar skipulögðum við, ásamt hollenska, þýska og sænska sjónvarpinu, áströlsku ríkisstjórninni og fleiri aðilum, stærstu danssamkomu frumbyggjanna á eyju einni norðan við Ástralíu. Samkoman var ekki gerð fyrir áhorfendur, heldur fyrir fólkið sjálft og það voru aðeins nokkrir Evrópubúar sem fengu að horfa á. Eftir að hafa verið á þessari stóru danshátíð uppgötvaði ég að dans í augum þessa fólks er óaðskiljanlegur félagsgerð samfélagsins. Það þarfnast dansins og getur ekki lifað án hans.

Ég spurði einu sinni gamlan mann í frumbyggjahópnum að því hvers vegna hann og fólkið hans dansaði. Við því hafði hann einfalt svar: "Vegna þess að faðir minn kenndi mér það og ég verð að kenna syni mínum það." Honum fannst ég vera að spyrja mjög heimskulegrar spurningar því fyrir þeim er dans jafn mikilvægur og að borða og sofa.

Það sem er einnig merkilegt við dans frumbyggjanna er að þeir semja ekki dansana heldur dreymir þá. Maður kemur til félaga sinna í þjóðflokknum, segist hafa dreymt nýjan dans og dansar hann fyrir hina. Það má eiginlega segja að þeir eigi höfundarrétt að dönsunum sem þá dreymir. Segjum sem svo að þig langi til að dansa dansana þeirra, en það geturðu ekki gert bara si svona. Þeir eiga sína dansa. Fyrst vilja þeir sjá þig dansa dansinn, og ef þú gerir það sómasamlega leyfa þeir þér e.t.v. að dansa hann, en vilja kannski fá boomerang í staðinn!

Ólík verk en sama rithönd

Það má segja að þessi reynsla hafi haft áhrif á allt sem ég gerði þaðan í frá. Hún frelsaði mig frá öllu sem ég hafði lært áður, stíl sem ég hafði mótað, og því hvernig ég hafði lært að hreyfa mig. Í þessari hugsun þeirra felst svo mikið frelsi, því þau getur dreymt hvaða dansa sem þau vilja. Í gegnum þessa reynslu hef ég með tímanum orðið danshöfundur án stíls. Hugmyndalega tel ég að maður eigi að reyna að hafa engan stíl þannig að þú gætir til dæmis ekki þekkt næsta verk sem ég gerði. Auðvitað er það ekki svona, því jafnvel þó ég geti fundið margvíslegar hreyfingar fyrir það sem ég vil segja þá verður rithönd mín ávallt sú sama. En með þessari rithönd get ég skrifað margar ólíkar bækur og mörg ólík ljóð. Ekki satt?"

Ber virðingu fyrir áhorfendum

Þegar svo vinsælir danshöfundar eru annars vegar, skyldu þeir einhvern tímann leiða hugann að áhorfendum og hvað þá langar að sjá?

"Mér finnst að maður eigi ekki að vera hrokafullur í garð áhorfenda og ég hef ávallt í huga þegar ég er að semja, að fólk eigi eftir að horfa á það sem ég er að gera. Ég sem hins vegar ekki einungis fyrir áhorfendur. Við erum að hluta til að dansa fyrir okkur sjálf, en að hluta til fyrir fjöldann. Ef áhorfendur sitja heima hjá sér og koma ekki á sýningar þá getur maður alveg eins verið heima hjá sér. Ef maður ætlar að reka dansflokk, þá verður maður að vera viss um að áhorfendur langi til að koma á sýningar. Mér líkar ekki yfirlýsingar sumra félaga minna sem segja að þeim standi á sama um áhorfendur. Mér er ekki sama um þá, vegna þess að ég er líka að semja fyrir þá.

Hins vegar hef ég minni og minni áhuga á gagnrýni. Ég les hana ekki lengur og hef ekki gert í mörg ár. Það er vegna þess að mín eigin gagnrýni á verk mín er miklu verri en gagnrýni nokkurs annars. Ég þarf ekki á gagnrýni annarra að halda, ég veit hvenær ég er að gera eitthvað slæmt."Morgunblaðið/Jim Smart JIRÍ Kylián

VERKIÐ "Dreamtime" er innblásið af dansi ástralskra frumbyggja.

VERKIÐ "Sinfonietta", sem Kylián samdi árið 1978, færði honum mikla athygli og síðan þá hefur hann fest sig í sessi sem einn virtasti danshöfundur heims.

Morgunblaðið/Jim Smart ÍSLENSKI dansflokkurinn sýndi verk Kylián, "Stool Game", á Listahátíð í vor. David Greenall og Katrín Á. Johnson í forgrunni.

KYLIÁN blandar klassískum ballett og nútímaballett saman svo úr verður undraverð blanda. Úr verkinu "Sweet Dreams".