BORÍS Jeltsín, forseti Rússlands, vísaði í gær á bug fregnum þess efnis að hann hygðist segja af sér embætti. Kvaðst hann ætla að sitja út kjörtímabil sitt, sem lýkur árið 2000, og þá setjast í helgan stein.
Tsjernomyrdín ræðir við fulltrúa Dúmunnar til að tryggja embættisskipan sína

Jeltsín segist alls ekki

á förum úr embætti

Moskvu, Washington. Reuters.

BORÍS Jeltsín, forseti Rússlands, vísaði í gær á bug fregnum þess efnis að hann hygðist segja af sér embætti. Kvaðst hann ætla að sitja út kjörtímabil sitt, sem lýkur árið 2000, og þá setjast í helgan stein.

"Það væri mjög erfitt að setja mig af og ef menn hafa í huga hvers konar manngerð ég er þá er það nánast útilokað. Mig langar til að segja að ég er ekki á förum. Ég ætla ekki að segja af mér. Ég ætla að starfa áfram," sagði Jeltsín. "Eins og lög segja til um þá lýkur kjörtímabili mínu árið 2000, þá verður efnt til forsetakosninga en ég mun ekki taka þátt í þeim."

Jeltsín neitaði því að hann hefði í hyggju að leysa upp Dúmuna, neðri deild rússneska þingsins, en fulltrúar hennar funduðu í gær með Viktor Tsjernomyrdín, starfandi forsætisráðherra. Að fundinum loknum sagði Alexander Kotenkov, sérlegur fulltrúi Jeltsíns í Dúmunni, að forsetinn hefði boðist til að auka völd forsætisráðherrans og Dúmunnar á kostnað valda forsetans. Myndi forsætisráðherra sjálfur skipa ríkisstjórn án afskipta forsetans og Dúman fengi jafnframt að hafa hönd í bagga.

Kotenkov og Gennadí Seleznyov, þingforseti í Dúmunni sögðu að unnið yrði að samningi um helgina sem myndi tryggja tilnefningu Tsjernomyrdíns í Dúmunni á mánudag. Gennadí Sjúganov, leiðtogi kommúnista í Dúmunni, neitaði því hins vegar í gærkvöld að slíkur samningur væri frágenginn. Sagði hann kommúnista enn fara fram á sterka þingbundna ríkisstjórn, að endurskoðun stjórnarskrárákvæða um valdadreifingu færi fram og að strangt eftirlit yrði haft með ríkisfjölmiðlum.

Camdessus varar við miðstýringu

Jeltsín lét það verða sitt fyrsta verk í gær, er hann sneri aftur til Kreml eftir tveggja daga fjarveru, að reka umbótasinnann Anatólí Tsjúbajs úr embætti sérlegs samningamanns við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF).

Ljóst er að ráðamenn á Vesturlöndum hafa nokkrar áhyggjur af þeim úrræðum sem allt bendir nú til að Rússar ætli að grípa til í efnahagsmálum, en Kotenkov og Seleznyov sögðu sátt hafa náðst á fundi Tsjernomyrdíns og fulltrúa Dúmunnar í gær. Þykja úrræðin minna á miðstýringu Sovétáranna og sagði Michel Camdessus, framkvæmdastjóri IMF, í gærkvöld að þau gætu haft "slæm áhrif" fyrir Rússland. Sagði hann að Rússar yrðu að stefna að umbótum í efnahagsmálum ef frekari fjárstuðningur vesturveldanna ætti að koma til, en Camdessus fundaði með Tsjernomyrdín í fyrradag.

Tsjernomyrdín segist hafa tryggt sér stuðning Júrís Luzhkovs, borgarstjóra í Moskvu, og Jegors Strojevs, forseta efri deildar rússneska þingsins, í stjórnarmyndunarviðræðum sínum, en báðir eru taldir líklegir sem keppinautar Tsjernomyrdíns um forsetaembættið árið 2000. Alexander Lebed, ríkisstjóri í Krasnojarsk, sagði einnig í gær að Rússar yrðu að fylkja sér að baki forsætisráðherra sínum til að leysa efnahagskreppuna í landinu.Staða Jeltsíns/20

Reuters

BORÍS Jeltsín fagnar komu Nadezhdu Mikhailovu, utanríkisráðherra Búlgaríu, í gær en hún fylgdi Petar Stoyanov, forseta Búlgaríu (fyrir miðju), í opinberri heimsókn hans til Rússlands.