FRAMTÍÐARBÖRN ehf. er leyfishafi á Íslandi fyrir námsefni Futurekids International, sem á rætur að rekja til Los Angeles í Bandaríkjunum. Námsefni Futurekids er sérsniðið námsefni fyrir börn og unglinga, sem samið er og þróað af sérfræðingum á sviði uppeldis- og kennslufræði. Námsefnið er nú kennt í yfir 70 löndum. Á Íslandi hafa nú þegar yfir 2.000 börn notið námsefnis Framtíðarbarna.
Framtíðarbörn

Tölvuskóli hand börnum

Tölvuskóli Framtíðarbarna hefur nú verið starfræktur á Íslandi í eitt ár.

FRAMTÍÐARBÖRN ehf. er leyfishafi á Íslandi fyrir námsefni Futurekids International, sem á rætur að rekja til Los Angeles í Bandaríkjunum.

Námsefni Futurekids er sérsniðið námsefni fyrir börn og unglinga, sem samið er og þróað af sérfræðingum á sviði uppeldis- og kennslufræði. Námsefnið er nú kennt í yfir 70 löndum. Á Íslandi hafa nú þegar yfir 2.000 börn notið námsefnis Framtíðarbarna.

Meginmarkmið Framtíðarbarna er að bjóða upp á heildstætt nám í tölvu- og upplýsingatækni, sem hæfir aldri og þroska nemenda. Þó svo að tæknin sé í brennidepli er í náminu lögð áhersla á að nemendur séu að fást við lifandi og skemmtileg verkefni og í gegnum þau læri þeir að nýta sér tölvu- og upplýsingatæknina á sem fjölbreytilegastan hátt.

Í vetur gerast nemendur Framtíðarbarna könnuðir sem kanna ýmis ólík svið og efni, s.s. uppgötvanir, íþróttir, umhverfi, vísindi og leiðangra. Sem dæmi um tækniáherslur má nefna ritvinnslu, myndvinnslu, gagnagrunna, töflureikna, umbrot, margmiðlun og tölvusamskipti. Þetta þýðir að nemandi sem stundar nám allan veturinn nær að spanna vítt svið innan tölvutækninnar ásamt því að vinna að spennandi verkefnum sem tengjast daglegu lífi og umhverfi," segir Anna Ólafsdóttir skólastjóri.

Tölvuskóli Framtíðarbarna er með kennsluver víðs vegar um landið. Má þar nefna auk Reykjavíkur, Akureyri, Ísafjörð, Akranes, Reykjanesbæ, Selfoss og Egilsstaði.

Vetrarstarf skólans

Vetrarstarfið hefst 14. september nk. "Kennt er í litlum, aldursskiptum hópum og eru aldrei fleiri en átta nemendur í hóp. Eitt af markmiðum námsins er að nemendur vinni saman tveir við hverja tölvu," segir Anna, "þannig venjast nemendur því að tjá sig um verkefnin, hjálpast að og taka sameiginlegar ákvarðanir við úrvinnslu verkefnanna. Það er einnig mat þeirra sérfræðinga sem að námsefnisgerðinni koma að með þessu móti sé síður hætta á, að aukin færni á tölvusviðinu hafi neikvæð áhrif á félagslegan þroska barnanna."

Nemendur koma í tíma einu sinni í viku 50 mínútur í senn. Hvert þema nær yfir 7 vikur. Kennslustjóri er Kristín Steinarsdóttir.

Anna segir að skólastjórnendur í grunnskólum víða um land hafi sýnt námsefni Framtíðarbarna mikinn áhuga og að það sé sama þróun og átt hefur sér stað erlendis. Á síðasta ári gerði Grunnskólinn í Sandgerði t.d samning um aðgang að námsefninu og þar fá allir nemendur skólans kennslu á tölvur. Hún segir að lokum að víða í skólum séu kynningar og viðræður í gangi milli Framtíðarbarna og skólayfirvalda um notkun námsefnisins í skólum.

Morgunblaðið/Jim Smart FRAMTÍÐARBÖRN á námskeiði um heimasíðugerð á tölvu.