UNGUR piltur brenndist mjög alvarlega þegar kviknaði í sumarbústað sem hann var staddur í ásamt tveimur öðrum piltum í Bleiksárdal í Eskifirði í gærdag og var hann fluttur með flugi á gjörgæsludeild Landspítalans í Reykjavík í gær. Þar gekkst hann undir aðgerð en að sögn vakthafandi læknis var pilturinn mjög illa brunninn og var í öndunarvél í gærkvöld og talinn í lífshættu.
Eldur í sumarbústað við Eskifjörð Piltur brenndist lífshættulega

UNGUR piltur brenndist mjög alvarlega þegar kviknaði í sumarbústað sem hann var staddur í ásamt tveimur öðrum piltum í Bleiksárdal í Eskifirði í gærdag og var hann fluttur með flugi á gjörgæsludeild Landspítalans í Reykjavík í gær. Þar gekkst hann undir aðgerð en að sögn vakthafandi læknis var pilturinn mjög illa brunninn og var í öndunarvél í gærkvöld og talinn í lífshættu.

Piltarnir þrír sem eru á aldrinum ellefu til tólf ára voru einir í bústaðnum þegar kviknaði í honum og leikur grunur á að þeir hafi verið að fikta með eld og eldfiman vökva. Vettvangsrannsókn fór fram í gær og vann lögreglan að rannsókn málsins í gærkvöld. Einn piltanna slapp ómeiddur en annar brenndist lítillega, að sögn lögreglunnar á Eskifirði.

Lögreglunni var tilkynnt um brunann klukkan 16:30 og fór hún á staðinn ásamt slökkviliði. Sumarbústaðurinn var alelda þegar komið var að honum, vel gekk að slökkva eldinn en bústaðurinn var brunninn nánast að grunni. Bústaðurinn er yfirgefinn og hefur honum ekki verið haldið við lengi.