"Í ÖLLUM viðskiptum er einn seljandi og annar kaupandi og vilji seljandinn ekki selja þá verður ekkert úr viðskiptunum," sagði Lars Gustafsson aðstoðarbankastjóri S- E-bankans sænska í kjölfar þess að ríkisstjórnin ákvað í gær að láta af áformum um sölu Landsbankans.

SE-Banken vonast til

samstarfs síðar meir Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. "Í ÖLLUM viðskiptum er einn seljandi og annar kaupandi og vilji seljandinn ekki selja þá verður ekkert úr viðskiptunum," sagði Lars Gustafsson aðstoðarbankastjóri S- E-bankans sænska í kjölfar þess að ríkisstjórnin ákvað í gær að láta af áformum um sölu Landsbankans. Hann sagði jafnframt að bankinn hefði áfram áhuga á að fá fótfestu á Íslandi, þar sem stefna bankans væri að koma upp starfsemi á öllum Norðurlöndum.

Aðspurður hvort hann skildi forsendur ákvörðunarinnar sagðist Gustafsson bera fulla virðingu fyrir ákvörðuninni. Hins vegar mætti ekki gleyma að mikil þróun væri í bankaheiminum og eins og hann hefði bent á áður þyrftu Íslendingar að ákveða hvort þeir ætluðu sér að að vera með þar. Gustafsson sagðist hafa fengið tilkynningu um ákvörðunina frá íslenskum yfirvöldum strax að loknum fundi ríkisstjórnarinnar í gær. Ákvörðuninni hefði verið komið til skila á sama faglega hátt og gilt hefði um samskiptin við Íslendinga almennt. Um það hvort ákvörðunin hefði komið á óvart sagði Gustafsson hlæjandi að hann væri orðinn of gamall til að hlutirnir kæmu honum á óvart. Hins vegar sagði hann að það hefði komið sér á óvart að íslenskir fjölmiðlar hefðu birt fréttir af viðræðunum þegar þær hefðu verið rétt að byrja. Eftir á séð hefði það kannski ekki breytt neinu, en það ætti við um samningaviðræður almennt að það væri þeim aldrei til framdráttar að athygli fjölmiðla beindist að þeim. Gagnkvæmt ferli

Um það hver hefði átt upptök að viðræðunum sagði Gustafsson að þarna hefði eiginlega átt sér stað gagnkvæmt ferli. Því væri erfitt að segja til um hver hefði átt frumkvæðið. S-E-bankanum hefði verið kunnugt um að hugmyndir væru uppi um að einkavæða íslenska bankakerfið og stefna bankans á norræna starfsemi hefði verið kunn. Um tíma hefði virst svo að möguleiki væri á sameiginlegum skrefum, sem síðan hefði því miður ekki getað orðið. Þrátt fyrir að úrslitin hefðu orðið þessi sagði Gustafsson bankann hafa áframhaldandi áhuga á samstarfi við Íslendinga, sem vonandi gæti orðið af þó síðar yrði. Niðurstöðurnar nú hefðu engin áhrif þar á. Persónulega sagðist hann sakna þess að eiga nú ekki lengur erindi til Íslands, þar sem hann hefði því miður ekki haft nægan tíma til að kynnast landi og þjóð.