ENN eru fjórir frjálsíþróttamenn um hituna í keppninni um "gullpottinn" svokallaða eftir fimmta Gullmótið af sjö í sumar, sem fram fór í Br¨ussel í gærkvöldi. "Hin fjögur fræknu" eru þau Marion Jones í 100 m hlaupi kvenna, Hicham El Guerrouj í 1.500 m hlaupi karla, Haile Gebrselassie í 3.000 og 5.000 m hlaupi karla og Bryan Bronson í 400 m grindahlaupi karla.
FRJÁLSÍÞRÓTTIR

Hin fjögur

fræknu gefa

ekkert eftir ENN eru fjórir frjálsíþróttamenn um hituna í keppninni um "gullpottinn" svokallaða eftir fimmta Gullmótið af sjö í sumar, sem fram fór í Br¨ussel í gærkvöldi. "Hin fjögur fræknu" eru þau Marion Jones í 100 m hlaupi kvenna, Hicham El Guerrouj í 1.500 m hlaupi karla, Haile Gebrselassie í 3.000 og 5.000 m hlaupi karla og Bryan Bronson í 400 m grindahlaupi karla.

Jones sigraði í 100 m hlaupi kvenna í gær, skaut frönsku stúlkunni Christine Arron enn og aftur ref fyrir rass, en þær tvær hafa skipst á yfirlýsingum um hvor aðra í fjölmiðlum að undanförnu. Viðbragð Jones lagði grunninn að öruggum sigri, en hún kom í mark á 10,8 sek., 15 hundraðshlutum úr sekúndu á undan Arron.

"Í þessu hlaupi sannaði ég að ég er fljótasta konan í heiminum, en tímabilið er alls ekki búið. Ég ætla mér að fá minn skerf af gullpottinum með því að sigra í Berlín og Moskvu," sagði Jones, en næsta mót verður haldið í Berlín næstkomandi þriðjudag, en lokamótið fer fram í Moskvu.

Köld golan í Br¨ussel í gærkvöldi gerði vonir manna um heimsmet að engu. Einn þeirra sem hafði slíkt á prjónunum var "eyðimerkurprinsinn" El Guerrouj frá Marokkó. Þrátt fyrir heiðarlega tilraun og hvatningu um 40 þúsund áhorfenda kom hann í mark á 3.29,67 mín., sem er langt frá besta árangri hans frá því í Mónakó og Z¨urich fyrr í þessum mánuði.

Eþíópíumaðurinn Haile Gebrselassie var hylltur af áhorfendum nær allan þann tíma sem það tók hann að hlaupa þrjú þúsund metrana. Hann náði besta tíma ársins, 7.25,09 mín., en veðrið kom í veg fyrir að Gebrselassie gæti gert atlögu að heimsmetinu. "Það var of kalt fyrir mig," sagði hann.

Bandaríkjamaðurinn Bryan Bronson er ekki jafnþekktur og hin þrjú sem enn eiga möguleika á að hreppa gullið, en hann hefur verið mjög sannfærandi á yfirstandandi tímabili. Í gærkvöldi tókst honum þó ekki að hlaupa 400 m grindahlaupið á skemmri tíma en 48 sek., en eigi að síður kom hann fyrstur í mark á 48,25 sek.

Þeir keppendur sem sigra í greinum sínum á öllum Gullmótunum hljóta sinn skerf af 70 milljóna króna "gullpotti" eftir lokamótið í Moskvu.

Kenýubúinn Paul Tergat háði harða keppni við landa sinn Paul Koech í 10.000 m hlaupi karla. Sá síðarnefndi fór framúr Tergat á lokahringnum, en Tergat var ekki af baki dottinn og náði að knýja fram sigur. Hann kom í mark á 26.46,44 mín., sem er fjarri heimsmetinu sem hann setti á sama móti í fyrra, en Haile Gebrselassie hefur þegar slegið það.

Hin rússneska Svetlana Masterkova sigraði í 1.500 m hlaupi kvenna á 3.58,95, en hún óttaðist skömmu fyrir mótið að hún yrði dæmd í keppnisbann eftir að hafa dregið sig fullseint úr keppni í Lausanne fyrr í vikunni.

Michael Johnson virðist óðum að ná sér á strik eftir meiðsl, en hann sigraði með yfirburðum í helstu grein sinni, 400 m hlaupi. Hann kom í mark á 44,06 sekúndum.