Sveit FH hefur fimmtán stiga forskot í Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands, FRÍ, eftir fyrri keppnisdag, sem var einkar vætusamur. FH-ingar hafa hlotið 126 stig, en ÍR-ingar eru í öðru sæti með 111 stig. Sveit UMSS, með Jón Arnar Magnússon í fararbroddi, er í þriðja sæti með 98 stig, einu stigi meira en HSK. FH-ingarnir settu Íslandsmet í 4×100 m boðhlaupi karla, komu í mark á 41,89 sek.
FH-ingar í óskastöðu Sveit FH hefur fimmtán stiga forskot í Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands, FRÍ, eftir fyrri keppnisdag, sem var einkar vætusamur. FH-ingar hafa hlotið 126 stig, en ÍR-ingar eru í öðru sæti með 111 stig. Sveit UMSS, með Jón Arnar Magnússon í fararbroddi, er í þriðja sæti með 98 stig, einu stigi meira en HSK.

FH-ingarnir settu Íslandsmet í 4×100 m boðhlaupi karla, komu í mark á 41,89 sek. og bættu þar með tveggja ára gamalt með UMSK, sem var 42,19 sek. Aron Már Lúðvíksson hljóp fyrsta sprettinn fyrir FH, Ólafur Sveinn Traustason annan sprettinn, Sveinn Þórarinsson hinn þriðja og Bjarni Þór Traustason gulltryggði Íslandsmetið.

Guðrún Arnardóttir úr Ármanni vann allar greinarnar sem hún keppti í, en hver keppandi má aðeins taka þátt í þremur einstaklingsgreinum hvorn dag. Sigur hennar í þrístökki vakti mikla athygli, en þar skákaði hún Íslandsmethafanum Sigríði Önnu Guðjónsdóttur í síðasta stökkinu ­ 12,60 m., sem var fjórum cm lengra en lengsta stökk Sigríðar Önnu. Auk þrístökksins sigraði Guðrún í 400 m grindahlaupi og 100 m hlaupi. Hún setti mótsmet í grindahlaupinu, hljóp á 57,54 sek. og bætti sitt eigið met um tæpa eina og hálfa sekúndu.

Jón Arnar Magnússon, UMSS, sigraði í tveimur af þremur greinum, langstökki og stangarstökki, en varð að játa sig sigraðan í 100 m hlaupi þar sem Jóhannes Már Marteinsson varð fyrstur ­ en hann hljóp á 10,60 sek. og jafnaði þannig persónulegt met sitt.

ÍR-ingar glötuðu sex dýrmætum stigum er Sunna Gestsdóttir var dæmd úr leik í 400 m grindahlaupi fyrir að stíga út fyrir braut sína, en hún kom þriðja í mark. Gísli Sigurðsson, þjálfari hjá UMSS, segir ÍR-inga standa frammi fyrir erfiðu verkefni er þeir freista þess að skáka FH-ingum, sem hafa sigrað í keppninni fjögur ár í röð.

"Staðan er vissulega öðruvísi en ég átti von á. En það eru margar greinar eftir og mjótt er á mununum í mörgum þeirra. Því má segja að allt sé raunhæft. Sveitir UMSS, HSK og Ármanns geta komið upp á milli FH og ÍR í nokkrum greinum, þannig að vissulega getur allt gerst," segir Gísli.

Tvö önnur mótsmet voru sett í gær. Sveinn Þórarinsson kom í mark á 52,75 sek. í 400 m grindahlaupi og bætti eigið met um rúma hálfa sekúndu. Auk þess setti Sveinn Margeirsson, UMSS, mótsmet í 1.500 m hlaupi ­ hljóp á 3.58,75 mín., en hann sigraði einnig í þrjú þús. metra hindrunarhlaupi, en afar sjaldgæft er að sami keppandinn beri sigur úr býtum í þessum tveimur greinum.