Á djasshátíð á Selfossi vakti ung söngkona, Kristjana Stefánsdóttir, athygli gagnrýnanda Morgunblaðsins, Vernharðs Linnets. Í dómi um hátíðina fullyrti hann að Kristjana væri "eitt efnilegasta djasssöngkonuefni sem við höfum eignast" og honum þótti hún hafa "sérstaklega heillandi sviðsframkomu og húmorinn er ósvikinn, röddin góð".
Svo er það bara sveiflan

Á djasshátíð á Selfossi vakti ung söngkona, Kristjana Stefánsdóttir, athygli gagnrýnanda Morgunblaðsins, Vernharðs Linnets. Í dómi um hátíðina fullyrti hann að Kristjana væri "eitt efnilegasta djasssöngkonuefni sem við höfum eignast" og honum þótti hún hafa "sérstaklega heillandi sviðsframkomu og húmorinn er ósvikinn, röddin góð".

Kristjana Stefánsdóttir er þrítugur Selfyssingur en undanfarin tvö hefur hún lagt stund á nám í Hollandi við Tónlistarháskólann í Amsterdam. "Þegar ég lýk námi verð ég djasssöngkennari og djasssöngvari og get víst titlað mig þannig. Ég verð núna heima í eitt ár og tek svo upp þráðinn á nýjan leik að ári. Ef allt gengur svo eftir, lýk ég námi vorið 2000." Kristjana ætlar að dvelja í Reykjavík í vetur. "Ég ætla að sækja söngtíma og syngja eins mikið og ég get. "

Söngurinn hefur verið Kristjönu hugstæður frá fyrstu tíð. "Ég var alin upp í kórum eins og margir. Tók stúdentspróf í Fjölbrautaskóla Suðurlands og var í kórnum þar. Var svo í hljómsveitinni Karma í þrjú ár með Labba á Glóru og fleiri góðum mönnum. En svo fór ég að læra, fyrst hjá Diddú og síðan í Söngskóla Reykjavíkur. Kláraði þar vorið '96 eftir 6 ára nám. Ég fór út þá strax um haustið til Hollands, í djassinn í staðinn fyrir að fara í einsöngvarann hérna heima. Ég held ég sé alveg á réttri hillu og hafi fundið mig þar."

Kristjana hefur sungið með öðrum. "Ég hef sungið mjög mikið inn á plötur, dúetta og raddir og svona. Einkum í poppgeiranum. Svo hef ég sungið í þrjú ár í röð á djasshátíðinni á Selfossi sem stendur yfir í ágúst. Í fyrra söng ég líka á Egilsstaðadjasshátíðinni. Á Rúrek (Djasshátíð Reykjavíkur) hef ég sungið einu sinni og það geri ég svo aftur núna 11. september. Í Hlaðvarpanum, held ég. Þetta er að byrja að vinda upp á sig svolítið núna, í djassinum. Ég hef annars verið í öllu mögulegu, sungið í brúðkaupum o.fl.

Á Selfossi er ég með starfandi kvartett sem heitir einfaldlega "Kvartett Kristjönu Stefáns". Þar byrjaði þetta allt saman. Þetta eru allt heimamenn, Vignir þór Stefánsson píanó, Smári Kristjánsson bassaleikari og Gunnar Jónsson trommuleikari. Þeir koma allir úr poppgeiranum en kvartettinn var reyndar stofnaður af Karli heitnum Sighvatssyni fyrir um tíu árum. Þá var Kalli í staðinn fyrir Vigni og svo Kári og Gunni. Við vorum eiginlega að byrja að spila þarna fyrir austan, en Kalli var búsettur í Hveragerði þegar hann féll mjög sviplega frá.

Þetta sama haust, 1989, var haldinn hátíð í tilefni af 100 ára afmæli Ölfusárbrúar og þá kom hljómsveitin saman eins og hún er núna í fyrsta sinn. Kvartettinn kemur saman þegar tækifæri gefast. Það er eiginlega komin svona hefð fyrir því að spila jóladjass daginn fyrir Þorláksmessu. Og fyrir tveimur árum gáfum við út plötu með "jóladjassi". Það er í rauninni það sem heldur lífinu í þessum kvartett.

"Ég verð reyndar með öðru bandi hérna á Rúrek. Þeim Arnóri Má Magnússyni píanista, Ólafi Stolzenwald á bassa og Pétri Péturssyni trommuleikara. Við þóttumst vera voða fyndin þegar við tókum stafina framan af nöfnunum okkar og út kom KÓPA-kvartettinn þannig að við spilum undir því nafni.

Kristjana syngur með tríói úti í Hollandi, skipað Hollendingi og tveimur Þjóðverjum. "Þetta er mjög flott tríó. Við erum kannski að gera aðeins flóknari hluti en við erum að gera þarna fyrir austan. Þeir ætla að bíða eftir mér í ár. Þetta eru svo fínir strákar."

En hvað er það sem heillar við djassinn? "Rytminn, frelsið og "improvisasjónin", spuninn, hvað maður þarf að vinna náið með tónlistarmönnunum. Samhæfing er auðvitað mikilvæg í allri músík en í djassinum þarftu alltaf að vera að spinna. Í klassíkinni er miklu meira form sem þú þarft að halda þig innan. Þó samspilið þar sé auðvitað alveg jafn mikilvægt. Svo er það bara sveiflan. Mér finnst hún svo skemmtileg." Morgunblaðið/Arnaldur KRISTJANA Stefánsdóttir djasssöngkona