LEIRKRÚSIN í Brautarholti 16 í Reykjavík er nú að hefja þriðja starfsárið, en þar eru haldin námskeið í leirmótun fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Þar er auk þess opin vinnustofa fyrir þá sem hafa ákveðna undirstöðuþekkingu í faginu en vantar vinnuaðstöðu.
Leirmótun Í snertingu við höfuðskepnurnar

Það er líf í Leirkrúsinni, segir Steinunn Helgadóttir, sem var leikskólastjóri og sinnti leirmótun í frístundum en sagði svo upp starfi sínu og gerði áhugamálið að atvinnu.

LEIRKRÚSIN í Brautarholti 16 í Reykjavík er nú að hefja þriðja starfsárið, en þar eru haldin námskeið í leirmótun fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Þar er auk þess opin vinnustofa fyrir þá sem hafa ákveðna undirstöðuþekkingu í faginu en vantar vinnuaðstöðu.

Steinunn Helgadóttir er lærður leikskólakennari en lagði einnig stund á nám í leirmótun við háskólann í Stokkhólmi fyrir um fimmtán árum og hefur unnið mikið við myndsköpun með börnum, leikskólakennurum og grunnskólakennurum. "Leirinn hefur alltaf verið uppáhaldsefnið mitt," segir hún. Kannski er leirinn svona heillandi vegna náinna tengsla hans við höfuðskepnurnar. "Leirinn er grafinn úr jörðu, inniheldur vatn þegar hann er mótaður, þarf loft við þurrkun og eld þegar hann er brenndur," bendir Steinunn á.

Námskeið sérsniðin að

óskum ólíkra hópa

Nú kennir hún á námskeiðum í handmótun fyrir byrjendur og mótun á rennibekk, auk þess sem hún býður námskeið í frumstæðri brennslu og svokallaðri Raku-gljábrennslu. Þá kveðst hún gera nokkuð af því að sérsníða námskeið fyrir fólk í kennslu-, uppeldis- og meðferðarstörfum, saumaklúbba og vina- og vinnustaðahópa í ævintýraleit.

Kennt er á kvöld- og helgarnámskeiðum. Steinunn segir þau síðarnefndu ekki síst vinsæl hjá þeim sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Það eru tveggja helga námskeið, með mánaðar millibili. "Þá mætir fólk á föstudegi og er fram á sunnudag, lærir að móta og svo eru hlutirnir brenndir. Að mánuði liðnum kemur það aftur og lærir um litameðferð og glerung. Hlutirnir eru settir aftur í ofninn á föstudeginum, á laugardegi förum við gjarnan á sýningar og hittum listamenn og á sunnudeginum eru hlutirnir teknir út úr ofninum. Þá sjáum við hvernig til hefur tekist," segir hún.

EINBEITING, kraftur og leirslettur um allt á námskeiði í Leirkrúsinni.