FALDARNIR lyftast og síðpilsin sviptast í húsnæði Þjóðdansafélags Reykjavíkur í Álfabakka 14a í Mjóddinni í vetur eins og endranær. Að sögn Ragnars Einarssonar, formanns félagsins, verður starfsemin með hefðbundnu sniði. Boðið verður upp á námskeið í gömlu dönsunum, þjóðdönsum og barnadönsum, auk þess sem dansglaðir eru velkomnir á opna æfingadansleiki sem haldnir eru hálfsmánaðarlega.
Þjóðdansafélag Reykjavíkur Gömlu dansarnir, vikivakar og barnadansar

FALDARNIR lyftast og síðpilsin sviptast í húsnæði Þjóðdansafélags Reykjavíkur í Álfabakka 14a í Mjóddinni í vetur eins og endranær. Að sögn Ragnars Einarssonar, formanns félagsins, verður starfsemin með hefðbundnu sniði. Boðið verður upp á námskeið í gömlu dönsunum, þjóðdönsum og barnadönsum, auk þess sem dansglaðir eru velkomnir á opna æfingadansleiki sem haldnir eru hálfsmánaðarlega.

Á mánudagskvöldum eru námskeið í gömlu dönsunum fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna og fyrir þá sem vilja æfa sig í gömlu dönsunum eru svokölluð opin kvöld annan hvern miðvikudag. "Það er svona hálfgerður æfingadansleikur sem er opinn fyrir hvern sem er. Þarna er yfirleitt mikið fjör, kennarinn stjórnar þessu öllu með harðri hendi og lætur fólk fara í leiki, marséringu og sitthvað fleira," segir Ragnar og bætir við að auðvitað sé dansað við lifandi tónlist og harmonikkan þanin.

Dansað fyrir ferðamenn

Þjóðdansaæfingar eru á dagskrá á fimmtudagskvöldum og að sögn Ragnars æfir þar að staðaldri 30­40 manna hópur, auk annarra sem koma endrum og eins, en æfingarnar eru öllum opnar. Þar eru æfðir þjóðdansar frá ýmsum löndum, íslenskir vikivakar, færeyskir hringdansar, danskir, norskir, finnskir, mexíkanskir, rússneskir og ítalskir þjóðdansar, svo fátt eitt sé nefnt. Ekki má gleyma börnunum en námskeið í barnadönsum eru á þriðjudögum og laugardögum. "Nú eru börnin okkar reyndar nýkomin frá Danmörku, þar sem þau tóku þátt í Norðurlandamóti í þjóðdönsum," segir Ragnar.

Þó að námskeiðahald á vegum Þjóðdansafélagsins liggi niðri yfir sumartímann er nóg að gera hjá félagsmönnum á öðrum vettvangi og ber þar hæst danssýningar fyrir ferðamenn. "Við skreppum út í skemmtiferðaskip, út í Viðey og víðar þar sem óskað er eftir sýningu á þjóðdönsum," segir Ragnar.Morgunblaðið/Arnaldur FÉLAGAR úr Þjóðdansafélagi Reykjavíkur sýna dans í Viðey.