Friðrik Sólmundsson Vinur. Á stundum sem þessari eru orð fátækleg. Það er svo margs að minnast; það var svo margt sem við gerðum saman og það var svo margt sem við áttum eftir að gera.

Ég var rétt tvítugur þegar við kynntumst og það tók smátíma að meðtaka þennan sérstaka húmor þinn og læra inn á það að þú hafðir gaman af að gantast við hvern og einn, hvort sem hann var þér tengdur eður ei; án þess að það væri nokkurn tímann annað en saklaust glens. Síðar brölluðum við ýmislegt saman, fórum í útgerð þó það væri í smáu sniði miðað við þína útgerðarsögu. Við ætluðum líka að taka þráðinn upp aftur nú þegar þú værir kominn heim og fara á bátnum okkar á skak og á skyttirí og njóta lífsins, þegar þú varst kominn á eftirlaun og nógur tími eftir, að okkur fannst.

En stundum er lífið öðruvísi en maður ætlar og að morgni síðasta sunnudags varstu frá okkur kallaður, og við sem eftir erum verðum að taka því.

Ég vil fá að þakka fyrir að hafa fengið að kynnast þér og njóta vinskapar þíns. Tengdamóður minni og tengdafólki öllu sendi ég mínar ástar- og samúðarkveðjur.

Garðar Harðarson.