Arnbjörg Guðlaugsdóttir Í dag verður til moldar borin Arnbjörg Guðlaugsdóttir, sem lést úr krabbameini langt um aldur fram. Í fámennum byggðarlögum eins og á Patreksfirði myndast oft meiri kynni og samhugur milli fólks en á stærri stöðum. Þess vegna var hljótt yfir plássinu og fánar dregnir í hálfa stöng þegar fréttist andlát Öddu, eins og hún var alltaf kölluð. Adda fluttist ung til Patreksfjarðar. Hér kynntist hún eiginmanni sínum, Haraldi Aðalsteinssyni, sem er látinn fyrir nokkrum árum. Þau bjuggu á Túngötu 15 þar til þau réðust í byggingu einbýlishúss á Mýrum 13. Þau eignuðust 12 börn, sem öll komust til fullorðinsára og búa 10 þeirra á Patreksfirði. Adda prjónaði og saumaði á hópinn sinn og aldrei var hægt að sjá að hún hefði of mikið að gera. Haraldur lærði vélsmíði í Vatneyrarsmiðjunni, sem hann seinna keypti og rak í mörg ár. Þegar heilsa hans bilaði réðust þau í að kaupa veitingahúsið Matborg, sem fjölskyldan rekur enn. Adda réð sig til starfa við Sjúkrahúsið á Patreksfirði árið 1982 og starfaði þar í þvottahúsinu þar til fyrir rúmu ári þegar hún veiktist. Hún hafði ótrúlegt starfsþrek, því hún lét sér ekki nægja að vinna fullan vinnudag á sjúkrahúsinu, heldur fór hún oftast eftir vinnu til að hjálpa dætrum sínum á Matborg. Adda var glaðlynd kona og félagslynd. Oft var hún hrókur alls fagnaðar á vinnustað, sérstaklega ef gripið var í spil, sem var hennar líf og yndi. Hún var fríð kona og spengileg, sem setti svip á umhverfið. Við sem þekktum hana eigum góðar minningar um hana. Öllum aðstandendum vottum við hjónin samúð.

Ingveldur Hjartardóttir.