Ólafía Karlsdóttir Elsku amma mín, ég vil kveðja þig með nokkrum orðum, og minningum frá liðinni tíð, sem voru svo yndislegar með þér.

Mér finnst stór hluti vera horfin frá mér, ég trúði og vonaði heitt að þú yrðir fjörgömul og oft minnti ég þig á að þú værir búin að lofa mér því að verða minnst 120 ára, en auðvitað var það bara eigingirni í mér sem trúði því að þú fengir að fylgja mér lengra á lífsbraut minni, elsku amma mín. Þú varst og verður alltaf hetjan mín, þú gafst mér svo mikið og studdir mig í einu og öllu. Alltaf varstu til staðar þegar ég þurfti á að halda. Ég vil þakka þér fyrir allt það sem þú hefur kennt mér og þakka þér fyrir þá visku sem þú gafst mér. Ef þú hefðir ekki verið mér við hlið væri ég ekki það sem ég er í dag. Þú varst mikil kona, þér tókst að koma þér svo vel út úr þeim áföllum sem þú varðst fyrir á lífsbraut þinni. Oft töluðum við um það þegar þú varðst fyrir snjóflóði og misstir systur þína og frænku. Það varð þér mikið áfall. Og mikið þótti mér vænt um þegar þú sagðir mér frá kynnum þínum af Guðmundi afa. Ykkur varð sjö barna auðið. Þú kenndir mér hve mikils virði barnaauður er, meira virði en það lífsgæðakapphlaup sem er að fara með alla í dag, og að vera hamingjusöm með sínum manni er meira virði en lottóvinningur.

Þú vildir að öllum liði vel og allir væru hamingjusamir. Ég minnist þess þegar þú hringdir nokkrum vikum fyrir andlát þitt þegar þú varst sem veikust, til að athuga hvernig ég hefði það, og ég sem var bara með kvef. Þetta lýsir hversu heil manneskja þú varst.

Það varð þér mikið áfall þegar Guðmundru afi lést og ekki urðu dagar þínir betri tveimur árum seinna þegar þú misstir son þinn, Karl. Þú varst dugleg þá og hélst áfram að vinna af krafti til að öllum liði sem best í kringum þig. Við vorum svo heppin að þú hittir yndislegasta afa í heiminum fyrir okkur. Hann var mikill og merkur maður, og dyggð hans er engu lík.

Elsku amma mín, þú varst mér sem Biblía. Allt sem þú sagðir og gerðir var rétt, ég græt eins og smábarn og hryggð mín er mikil. Ég veit það er ekki rétt, en eigingirnin er því miður stundum óumflýjanleg. Öll endum við á þennan veg og mín huggun er að nú get ég farið sama veg og þú, án hræðslu og hryggðar, því gleðin er nú hjá þér. Ég kveð þig með þessum orðum, elsku amma mín, og bið góðan guð að vernda þig eins vel og þú gerðir við okkur hin.

Hvíldu í friði.

Þín,

Júlíana.