Sveinn Eiríksson Sæmdarmaðurinn Sveinn í Steinsholti er látinn. Fjölskylda mín hefur átt þar athvarf og vináttu heimilisfólksins um tugi ára, allar götur frá aldamótum, er afi bjó í Bala en þar í túnfætinum kvaddi Sveinn þetta líf á yndisfögrum ágústdegi.

Við systkinin fjögur höfum dvalist í Steinsholti sumarlangt, eitt fram af öðru. Ég hef kynnst Svenna best þar heima fyrir og ekki síst í fjallaferðum. Svenni, eins og hann var jafnan kallaður, var óvenju glöggskyggn og engan mann hef ég þekkt, sem hefur haft jafn skarpa athyglisgáfu og beitta dómgreind um náttúru landsins, gildi hennar og möguleika. Gnúpverjaafréttur var hans kjörsvið ­ næmi hans fyrir gróðri þar innra, landkostum og árferði var öllum kunnugt. Hann var vorboðinn þar við fjárrekstra og fór í lengstar leitir á haustin ­ stundum lúinn, ætíð glaður.

Svenni var ræktunarmaður í orðsins fyllstu merkingu, fjárræktarmaður svo af bar ­ verðlaun lofa hann og hlóðust á hann, en aldrei miklaðist hann, Svenni bætti bara í reynslusarpinn. Þessi sterka eðlisgreind og fádæma glöggskyggni hvatti hann fram á veg, svo fjárrækt þeirra Steinhyltinga varð landsfræg.

Margar glaðar minningar og góðar hrannast upp. Þessi dæmalausa hógværð, en um leið festa, skörp athygli og dómgreind ­ einkenndu dagsfar hans. Hann var náttúrubarn öðru fremur, söngvinn, glaðvær, greiðvikinn og barngóður, unni mjög sveit sinni og sveitungum.

Rómuð er héraðslýsing hans um Eystri-Hreppinn í ritverkinu Sunnlenskar byggðir. Ég sé Svenna fyrir mér á Hrolli, hörðum brokkara, í innhögum Steinsholts á björtum sumardegi, smalandi til rúnings, blístrandi lagstúf og hafandi gætur á hjörðinni.

Fyrir mánuði komum við hjónin ríðandi til þeirra systkina sem oftar, áttum næturstað fyrir hesta okkar í gamla fjósinu. Við kvöldkaffið var lífleg orðræða um bókmenntir nýskálda sem eldri ritsnillinga. Alls staðar voru þau systkin á heimavelli, lesin og höfðu velt fyrir sér aðdraganda og örlögum sagna.

Minnið var fágætt, lítillætið einstakt og orðræðan varð þeim gleðigjafi og uppbygging í daglegu lífi. Baðstofa þeirra systkina er menningarsetur. Við fórum efld af þeirra fundi. Undir lágnættið skaust Svenni með okkur bæjarleið ­ hjálpsemin í fyrirrúmi. Það var okkar skilnaðarstund. Nú er einum hornsteininum færra í systkinahópnum í Steinsholti.

Við hjónin sendum eftirlifandi systkinum, öllum ættingjum og vinum hugheilar samúðarkveðjur og biðjum þeim blessunar Guðs.

Kristján Guðmundsson og fjölskylda.