SVEINN EIRÍKSSON

Sveinn Eiríksson fæddist í Steinsholti 11. júní 1914. Hann lést af slysförum 23. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin í Steinsholti, Sigþrúður Sveinsdóttir, f. 1885, d. 1977, og Eiríkur Loftsson, f. 1884, d. 1968. Systkini Sveins eru: Jón, f. 1913; Sigríður, f. 1917, d. 1977, sonur hennar er Þórir en hann ólst upp með móður sinni og frændfólki í Steinsholti; Guðbjörg, f. 1919; Loftur, f. 1921, kvæntur Jóhönnu Björgu Sigurðardóttur en hún lést 1997. Börn þeirra eru sex. Margrét, f. 1925, gift Jóni Ólafssyni í Eystra-Geldingaholti og eru börn þeirra fimm. Öll hafa systkinin alið allan sinn aldur í Steinsholti nema Margrét. Sveinn stundaði nám í barnaskóla sveitarinnar, Ásaskóla, og 1940-1942 við bændaskólann á Hólum í Hjaltadal. Honum voru falin margháttuð trúnaðarstörf fyrir sveit sína og byggðarlag.

Útför hans fer fram frá Skálholtskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Jarðsett verður á Stóra-Núpi.