Arnbjörg Guðlaugsdóttir Óþægilega oft hef ég verið minnt á það á tæpu ári hve dauðinn getur verið okkur nálægur og jafnframt óumflýjanlegur. Mér finnst einhvern veginn svo óraunverulegt að hún Adda systir sé ekki lengur á meðal okkar. Elsku Adda, nú ertu farin til betri heima, ég vona að þar muni þér líða vel í faðmi Halla og annarra ástvina. Þegar ég minnist þín er mér efst í huga að hafa átt þig að öll þessi ár sem voru samt of fá fyrir ást og vináttu þína. Ég sakna svo margs í sambandi við þig, alveg frá því að ég var barn og þið Halli komuð í Laugardal með litlu púkana ykkar á sunnudögum, þá var gaman, en ég sakna þó mest hringinganna á kvöldin síðustu árin þegar margt var spjallað og skipti þá ekki máli hvað klukkan var orðin, en alltaf varstu jafn undrandi hvað ég gat sofnað snemma.

Stundum verður vetur

veröld hjartans í.

Láttu fræ þín lifa

ljóssins Guð í því.

Gef oss þitt sumar

sólu þinni frá.

Kristur kom og sigra,

kom þú og ver oss hjá.

(Sbj.E.) Þótt þú sért farin frá okkur þá mun ást þín og umhyggja fyrir mér fylgja mér ævilangt, þú lifir í minningu minni. Guð blessi þig og hvíl í friði.

Þín systir,

Margrét.