DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að honum væru það mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki hafa haft lagaskilyrði til þess að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Sagðist hann hafa kynnt sér það mál rækilega í gegnum tíðina og telur að þar hafi mönnum orðið á í messunni "í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins", eins og hann orðaði það.
Davíð Oddsson forsætisráðherra í umræðum á Alþingi

Ekki eitt dómsmorð heldur mörg

DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að honum væru það mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki hafa haft lagaskilyrði til þess að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Sagðist hann hafa kynnt sér það mál rækilega í gegnum tíðina og telur að þar hafi mönnum orðið á í messunni "í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins", eins og hann orðaði það. Tók hann einnig fram að á þeirri vegferð allri hefði "ekki aðeins eitt dómsmorð verið framið heldur mörg". Slíkir hlutir gætu þó ekki gerst í dag eins og þarna gerðist.

Þetta sagði ráðherra í umræðum um frumvarp Svavars Gestssonar, þingflokki Alþýðubandalags, sem kveður á um að setja skuli á stofn dómstól er nefnist réttarfarsdómstóll til að fjalla um kröfur um endurupptöku mála. "Málið er flutt að gefnu tilefni frá í fyrrasumar er Hæstiréttur hafnaði beiðni Sævars Ciesielskis um endurupptöku máls hans. Með þessu frumvarpi er ekki verið að gagnrýna niðurstöðu Hæstaréttar. Tilgangur þessa frumvarps er að hreyfa nauðsyn þess að Hæstiréttur þurfi ekki að fella úrskurði í eigin málum eins og nú háttar til. Fyrirmynd að slíkum dómstól er fengin úr dönsku réttarfarslögunum, en samkvæmt þeim starfar sérstakur kvörtunardómstóll," segir m.a. í greinargerð frumvarpsins.

Í umræðunni um frumvarpið sagði forsætisráðherra m.a.: "Ég held að þó það hafi verið sársaukafullt mjög fyrir íslenska dómstólakerfið að þá hefði það verið gott og nauðsynlegt, hundahreinsun fyrir okkur, ef ég má nota svo óvirðulegt orð, að fara í gegnum það mál allt [Geirfinnsmálið] og með hvaða hætti það var unnið. Þeir sem hafa kynnt sér það mál rækilega geta ekki annað sagt en að þar hafi pottur víða verið brotinn," sagði hann.

Ráðherra sagði ennfremur að hann fylgdist af persónulegum áhuga með málum sem vörðuðu endurupptöku mála í öðrum löndum. Til dæmis í Bandaríkjunum og í Bretlandi. "Mál sem þar eru tekin upp hafa verið miklu betur unnin, með miklu færri annmarka heldur en Geirfinnsmálið var hér hjá okkur," sagði hann og bætti því við að hann teldi að sú vantrú sem kæmi fram í skoðanakönnunum á dómskerfið ætti m.a. rót í Geirfinnsmálinu. "Það hefur þau áhrif á sálarlíf okkar Íslendinga að menn telja sig ekki geta treyst dómskerfinu. Ég er ekki þeirrar skoðunar," sagði hann hins vegar. "Ég tel að eins og það sé nú komið að þá sé það í góðu standi til þess að fara með þessi viðkvæmu mál okkar. Þarna mistókst því."

Ráðherra kvaðst síðan gjarnan myndi vilja að þetta frumvarp fengi góða meðferð á þinginu hvort sem það yrði nákvæmlega í því formi sem það væri nú eða hvort það ætti að auka frekar rýmri heimildir innan núverandi dómstólaskipunar til þess að taka mætti aftur upp mál eins og Geirfinnsmálið. Síðan sagði hann: "Það var ekki aðeins eitt dómsmorð framið á þessari vegferð allri. Þau voru mörg. Þau voru mörg dómsmorðin sem framin voru á þessari vegferð allri. Það er mjög erfitt fyrir okkur við það að búa. Ég fagna þessu frumkvæði háttvirts flutningsmanns og vænti þess að þingið taki frumvarpið til málefnalegrar meðferðar."