14. október 1998 | Innlendar fréttir | 4431 orð

Einkaleyfi og áhættufé

KAPPHLAUPIÐ um erfðavísana er í algleymingi. Fjárfestar eru reiðubúnir til að taka talsverða áhættu í þeirri von að geta ávaxtað pund sitt ríkulega í erfðavísindum og líftækni og vísindamenn keppast um að uppgötva ný sannindi í erfðavísunum með það fyrir augum að einkaleyfi færi þeim ekki aðeins viðurkenningu vísindanna heldur einnig trygga afkomu.
Einkaleyfi og áhættufé

Einkaleyfi á erfðavísum eru umdeild. Sumir halda því fram að þau standi vísindum fyrir þrifum og aðrir segja að án verndar þeirra fáist enginn til að leggja áhættufé í rannsóknir. Karl Blöndal fjallar um einkaleyfin og áhættufé í erfðavísindum.

KAPPHLAUPIÐ um erfðavísana er í algleymingi. Fjárfestar eru reiðubúnir til að taka talsverða áhættu í þeirri von að geta ávaxtað pund sitt ríkulega í erfðavísindum og líftækni og vísindamenn keppast um að uppgötva ný sannindi í erfðavísunum með það fyrir augum að einkaleyfi færi þeim ekki aðeins viðurkenningu vísindanna heldur einnig trygga afkomu.

Í kjölfar þessa kapphlaups siglir umræðan um siðferði í vísindum. Menn velta fyrir sér hvort einkaleyfi á erfðavísum, oft í lítt breyttri mynd, standi framförum beinlínis fyrir þrifum og fullyrt hefur verið að vísindi séu ekki lengur stunduð þekkingarinnar vegna heldur fyrir gróðamöguleika sakir. Margir sjá fyrir sér mikinn ávinning af þeim rannsóknum, sem nú fara fram; hægt verði að lengja lífið, sigrast á krabbameini og Alzheimer og bæta minnið. Vísindamaðurinn Leigh Thompson heldur því fram að erfðarannsóknir muni á einum mannsaldri "gerbreyta lífinu á jörðunni".

Bill Gates erfðavísindanna?

Einn af þeim, sem undanfarið hafa varpað sér út í kapphlaupið, er Craig Venter, sem hyggst á næstu þremur árum ráða erfðamengi mannsins. Venter hefur stofnað fyrirtækið Celera Genomics og í maí tilkynnti hann að með 300 milljóna dollara stuðningi hygðist hann ráða í erfðamengið. Venter hyggst nota 270 vélmenni af gerðinni Perkin-Elmer Applied Biosystems 370 til að lesa í erfðavísana. Vélar þessar eru mun afkastameiri en þær aðferðir, sem nú þekkjast. Nú þegar hefur hann ráðið erfðavísa nánast jafnmargra lífvera og allir aðrir vísindamenn heimsins til samans.

Venter er umdeildur maður. Hann starfaði áður hjá bandarísku heilbrigðisstofnuninni og í upphafi þessa áratugar var hann lykilmaður í tilraun stofnunarinnar til að fá einkaleyfi á nokkur hundruð genaröðum í manninum. Venter hafði fundið þessar raðir með aðferð, sem hann þróaði á rannsóknarstofu sinni hjá stofnuninni.

Margir vísindamenn lögðust gegn því að einkaleyfið fengist og á endanum fór svo að það fékkst ekki. Meðal þeirra, sem voru því andvígir, var James D. Watson Nóbelsverðlaunahafi, sem sagði að það myndi stefna samvinnu milli vísindamanna í hættu. Watson sagði í yfirheyrslum á Bandaríkjaþingi að sú aðferð, sem Venter beitti, væri þannig að apar væru færir um að beita henni. Venter svaraði með því að koma fram í apabúningi. Watson er reyndar ekki hrifinn af umsvifum Venters og hefur lýst yfir því að hann óttist að þar sé að fæðast Bill Gates erfðavísindanna. Því fer hins vegar fjarri að Watson sé andvígur einkaleyfum á erfðavísum. Hann er hins vegar þeirrar hyggju að Venter sé of fljótur til vegna þess að ekki sé vitað um eiginleika og virkni þeirra tjáðu, raðgreindu DNA-búta eða -þreifara (EST), sem hann sé að sækja um að fá á einkaleyfi. Árið 1992 þurfti Watson meira að segja að víkja úr stöðu stjórnanda miðstöðvar erfðamengisrannsókna í Bandaríkjunum eftir að bandaríska heilbrigðisstofnunin hóf rannsókn á því hvort hagsmunaárekstur skapaðist af eignum Watsons og fjölskyldu hans í nokkrum líftæknifyrirtækjum.

Erfðamengið kortlagt

Áætlun Venters skaut þeim skelk í bringu, sem hafa verið að rannsaka erfðamengi mannsins. Árið 1990 var hafist handa við verkefni um að ráða erfðamengi mannsins (Human Genome Project). Þúsundir vísindamanna víða um heim taka þátt í því og var stefnt að því að verkefninu lyki árið 2005. Ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Japans og Þýskalands hafa heitið þremur milljörðum dollara til þessa verkefnis og hafa vísindamennirnir heitið því að öll sú vitneskja, sem saman safnast um erfðavísana, verði látin af hendi að verkefninu loknu.

Menn eru ekki á því að láta Venter sitja einan að kjötkötlunum. Sanger-rannsóknarmiðstöðin, ein stærsta tilraunastofa Evrópu, greindi frá því að breska fyrirtækið Wellcome Trust hefði tvöfaldað rekstrarfé hennar. Michael Morgan, stjórnandi hennar, sagði að það væri geggjun að leyfa lyklunum að erfðamengi mannkyns að hafna í fórum einkafyrirtækis.

Einnig hefur verið ákveðið að spýta í lófana í áðurnefndu fjölþjóðaverkefni, sem gengur undir heitinu Human Genome Organization (HUGO). Nú á að ráða í megnið af erfðavísunum innan tveggja ára.

Spennan í kapphlaupinu jókst enn þegar nýtt fyrirtæki kvaddi sér hljóðs og kvaðst ætla að ljúka við að kortleggja erfðamengi mannsins á næsta ári. Fyrirtækið heitir Incyte Pharmaceuticals og hefur höfuðstöðvar í Kaliforníu. Þar vinna 800 manns og þar er að finna stærsta gagnabanka erfðavísa í heimi.

Iðnaður eða vísindi?

Hjá Incyte er ekki verið að hugsa um að skrá sig á spjöld vísindasögunnar. Roy Whitfield, viðskiptastjóri fyrirtækisins, greinir kinnroðalaust frá því að markmiðið sé að næla í allar þær upplýsingar, sem máli skipti í viðskiptalegu sjónarmiði, og selja þær hæstbjóðanda. Hann fullyrðir að kortlagning genanna sé iðnaður og komi "vísindum ekki lengur neitt við".

Þýska vikuritið Der Spiegel kemst að þeirri niðurstöðu að baráttan, sem nú standi yfir um erfðavísana, sé einkenni afgerandi sinnaskipta í matinu á vísindum: "Fróðleiksþorstinn, sem árþúsundum saman var eini aflvaki rannsókna mannsins, dugar ekki lengur sem hvati. Sá, sem hyggst stunda umfangsmiklar grunnrannsóknir, hefur samkvæmt þessu nýja hugtaki vísindanna aðeins góð spil á hendi ef hann getur boðið fram góða hugmynd um markaðsvöru."

Niðurstaða Der Spiegel um þáttaskil í vísindum er sennilega orðum aukin og menn hafa lengi verið tilbúnir að mála skrattann á vegginn þegar peningar og vísindi hafa verið annars vegar. Árið 1951 lýsti C.L. Emerson, varaforseti Tæknistofnunar Georgíu í Bandaríkjunum, yfir því að brátt kynni sá tími að koma að menntun og iðnaður tengdust svo náið að erfitt yrði að gera greinarmun á því hvort einstaklingur væri starfsmaður iðnfyrirtækis eða fræðimaður í háskóla.

Óljós skil akademíu og viðskipta

Samkvæmt könnun, sem Sheldon Krimsky, prófessor í þéttbýlis- og umhverfisstefnumótun við Tufts- háskóla í Massachusetts gerði á 789 greinum, sem birtust í 14 virtum vísinda- og læknatímaritum árið 1992 eru tengslin talsverð. Í þriðjungi greinanna reyndust fjárhagslegir hagsmunir einhvers höfundanna tengjast rannsóknunum, sem fjallað var um. Aðeins tvö af tímaritunum 14 gerðu þá kröfu til höfundanna að þeir greindu frá fjárhagslegum hagsmunum sínum, en fleiri hafa bæst í hópinn nú. Þá hefur alþjóðanefnd ritstjóra læknatímarita ályktað að höfundar eigi að greina frá hagsmunum sínum.

Það að þessi tengsl séu sjáanleg er talið skipta auknu máli vegna þess að háskólar í Bandaríkjunum eiga nú rétt á því að fá einkaleyfi eða rétt á uppgötvunum, sem gerðar eru með almannafé. Tekjur tíu atkvæðamestu háskólanna voru 170 milljónir dollara árið 1993 og tengslin milli akademíu og iðnaðar hafa haldið áfram að aukast, ekki síst vegna þess að fræðimönnum við háskóla er leyft að fá prósentur af tekjum, sem aflað er með einkaleyfum af þeirra uppgötvunum.

Því hefur verið haldið fram að tengsl af þessu tagi skipti ekki máli svo lengi sem vísindamenn hafi ekki rangt við eða falsi niðurstöður. Við mat á því hvort grein eigi heima í tímariti séu gerðar svo strangar kröfur um vísindalega nákvæmni að hagur einstakra höfunda ætti ekki að hafa áhrif á niðurstöður eða mælingar. Aðrir segja hins vegar að vísindamenn eigi að bregðast við þótt aðeins sé um að ræða að hlutdrægni virðist gæta.

Hlutabréfin hækkuðu

Krimsky tók dæmi um birtingu greinar, sem í sjálfu sér var ekkert athugavert við, en færði einum höfundanna talsverðan ávinning. Greinin birtist í tímaritinu Annals of Internal Medicine og snerist um það að með því að gleypa sinktöflur batnaði mönnum fyrr kvef. Einn af höfundum greinarinnar, Michael L. Macknin frá Cleveland Clinic Foundation, keypti hlutabréf í fyrirtækinu, sem framleiddi töflurnar, fyrir birtingu greinarinnar og hagnaðist um 145 þúsund dollara þegar hann seldi þau aftur eftir birtingu. Ekkert var fundið að niðurstöðum rannsóknarinnar, en ýmsum fannst þetta framferði á gráu svæði.

Peningahagsmunir geta skapað þrýsting þegar um tímasetningu greina er að ræða. David Blumenthal, sem stjórnar heilsugæslurannsóknum við Massachusetts General- sjúkrahúsið, birti könnun í tímaritinu New England Journal of Medicine á 210 bandarískum fyrirtækjum, sem styrkja rannsóknir, og komst að því að alvanalegt væri að draga birtingu vísindalegra niðurstaðna, oft umfram þann tíma, sem þyrfti til að fá einkaleyfi. Rúmur helmingur fyrirtækja vildi að upplýsingar yrðu ekki birtar fyrr en að minnsta kosti hálfu ári eftir að þær lægju fyrir. Bandaríska heilbrigðisstofnunin heimilar að niðurstöðum sé haldið leyndum í einn til tvo mánuði á meðan sótt er um einkaleyfi. Krimsky telur að þetta sýni að peningahagsmunir geti haft áhrif á frjálst flæði upplýsinga.

Kapphlaupið um einkaleyfin?

Umræðan um einkaleyfi á uppgötvunum í erfðavísindum hefur verið mikil undanfarið. Incyte hyggst fá einkaleyfi á öllum nýtilegum niðurstöðum rannsókna á genamenginu. Craig Venter kveðst hins vegar aðeins ætla að fá einkaleyfi á 100 til 300 erfðavísum. Öllum verði veittur aðgangur að öðrum niðurstöðum án endurgjalds.

Þeir, sem starfa að HUGO, hafa skuldbundið sig til þess að láta allar upplýsingar af hendi í opinbera gagnabanka án tafar, en það ríkir hins vegar ekki eining um þá ákvörðun og má nefna sem dæmi að átta þýsk lyfjafyrirtæki, sem árlega leggja til 1,2 milljónir marka, féllust ekki á þetta fyrr en eftir hörð mótmæli.

Innan Evrópusambandsins var lengi deilt um einkaleyfi á genum. Í maí var hins vegar ákveðið hvernig farið skyldi með einkaleyfi á líftæknilegum uppgötvunum. Hægt er að fá einkaleyfi ef vitað er hvað sá bútur erfðavísisins, sem um er að ræða, gerir, tæknileg aðferð til að vinna erfðavísinn fylgir og greint er frá því hvaða gagn uppgötvunin geti gert. Þessir fyrirvarar eru gerðir í því skyni að fyrirbyggja að ævintýramenn komist upp með að sölsa undir sig einkaleyfi þótt í raun renni þeir blint í sjóinn, en gætu þegar upp er staðið hreppt þann stóra.

Harmleikur andalmenninganna?

Í sumar færðu tveir vísindamenn, Michael A. Heller og Rebecca S. Eisenberg, rök að því í tímaritinu Science að einkaleyfi stæðu vísindunum fyrir þrifum. Þau rifjuðu upp að fyrir 30 árum hefði Garrett Hardin notað líkinguna um "harmleik almenninganna" til að útskýra fólksfjölgun, loftmengun og útrýmingu dýrategunda. Með því að takmarka aðgang að auðlindum og einkavæða almenninga hefði verið hægt að draga úr ágangi. Heller og Eisenberg eru þeirrar hyggju að í vísindum sé málunum öfugt farið: þegar of margir fái rétt til að útiloka aðra í vísindum verði auðlindin vannýtt, ef svo megi að orði komast.

Framan af hafi þetta ekki verið vandamál í vísindum vegna þess að opinbert fé hafi verið notað til að styrkja grunnrannsóknir og tryggja að niðurstöður þeirra væru öllum aðgengilegar og nýtanlegar. Uppgötvanir, sem ekki höfðu verið fengin einkaleyfi fyrir, voru notuð á síðari stigum ferlisins til þess að framleiða vörur, sem annað hvort auðvelduðu greiningu eða meðferð sjúkdóma. Eins og áður sagði breyttist þetta í Bandaríkjunum árið 1980. En afleiðingar einkavæðingar í líftækni höfðu mótsagnakenndar afleiðingar að sögn Hellers og Eisenbergs. "Aukinn einkaréttur hugvits í upphafi ferlisins kann að kæfa uppgötvanir, sem síðar meir í ferlinu gætu bjargað mannslífum," skrifa þau.

Þau benda á að einkaleyfi og önnur vernd afraksturs hugvits geti ýtt undir það að menn takist á hendur áhættusamar rannsóknir og leitt til sanngjarnari dreifingar á hagnaðinum. Það geti hins vegar sett strik í reikninginn þegar það margir eiga tilkall til niðurstaðna á fyrri stigum þess ferlis, sem leiðir til þess að lyf er framleitt, ný meðferð þróuð eða fundin er aðferð til sjúkdómsgreiningar, að frekari rannsóknir verða nánast ógerlegar.

Einkaleyfi sama og tollheimtuhlið

Vísindamaður, sem áður hefði látið sér nægja að vera nefndur sem meðhöfundur greinar eða tilvitnun til verka sinna finnst nú að hann eigi rétt á að vera skráður meðal einkaleyfishafa eða hlutdeild í ágóða. Þau líta á hvert einkaleyfi sem tollheimtuhlið á leiðinni að lækningu, lyfi eða greiningu.

Meðal þeirra þátta, sem Hiller og Eisenberg telja að geti staðið rannsóknum fyrir þrifum er að eigendur einkaleyfa á rannsóknum tiltekinna þátta ofmeti uppgötvanir sínar. Sú staða gæti komið upp að ein af 50 uppgötvunum í kjölfar grunnrannsókna gæti verið lykillinn að nýju og mikilvægu lyfi. Allar hinar uppgötvanirnar muni ekki hafa neitt notagildi, en framleiðandinn sé engu að síður reiðubúinn til að greiða 10 milljónir dollara fyrir þær allar. Þar sem gefið er að enginn þeirra, sem á rétt á uppgötvunum, veit hvaða uppgötvun felur í sér lausnina ætti hver þeirra að vera reiðubúinn til að selja réttinn til að nota uppgötvun sína á 200 þúsund dollara. Hver og einn sé hins vegar líklegur til að líta svo á að sín uppgötvun sé lykillinn að gátunni og krefjast hærri upphæðar. Um leið sprengir hann markaðinn og fjárfestirinn ákveður að leita annað. Þar með yrði mannkynið af mikilvægu lyfi og hagsmunir almennings hefðu orðið undir.

Höfundarnir líkja stöðunni nú við umskiptin til hins frjálsa markaðar í austri eftir hrun kommúnismans. Einkavæðing líftæknirannsókna lofi bæði góðu og feli í sér hættur. Hins vegar þurfi að hemja réttinn til einkaleyfa á grunnrannsóknastiginu.

Draga einkaleyfi úr hættu á leynd?

John J. Doll, stjórnandi líftæknideildar einkaleyfis- og einkaréttarstofnunar Bandaríkjanna, skrifar grein í sama blað, Science , þar sem hann ver einkaleyfi í líftækni. Hann heldur því fram að án einkaleyfa yrði minna um fjárfestingar í erfðarannsóknum og afleiðingin gæti orðið sú að vísindamenn gerðu ekki uppgötvanir sínar í þessum fræðum opinberar. Hann bendir á að útgáfa einkaleyfa veiti vísindasamfélaginu ekki aðeins aðgang að upplýsingum heldur ýti einnig undir fjárfestingu í rannsóknum, þróun og markaðssetningu nýrrar tækni. "Það er aðeins með einkaleyfum á DNA- tækni, sem sum fyrirtæki, sérstaklega þau smærri, geta aflað nægilegs áhættufjármagns til að koma hagkvæmum uppgötvunum á markað og kosta frekari rannsóknir," skrifar Doll.

Þá hafa menn bent á að megi ekki sækja um einkaleyfi muni vísindamenn einfaldlega liggja á nýjum uppgötvunum eins og ormur á gulli af ótta við að þeim verði stolið af þeim geti þeir ekki verndað þær.

Hversu langt er hægt að ganga í veitingu einkaleyfa

Eitt af því, sem deilt er um, er hversu langt megi ganga í veitingu einkaleyfa. Ein spurningin, sem varpað hefur verið fram, er hvort hægt sé að fá einkaleyfi á hlutum líkamans, sem í raun sé afrakstur þróunarinnar en ekki vinnu vísindamannsins.

Upphafið á einkavæðingu erfðaauðs jarðarinnar hefur verið rakið til ársins 1971 þegar Ananda Chakrabarty, indverskur örverufræðingur, sótti um einkaleyfi á örverum, sem hafði verið breytt með það fyrir augum að þær gætu eytt olíuflekkjum á hafi úti. Bandaríska einkaleyfisstofnunin hafnaði umsókninni á þeirri forsendu að samkvæmt bandarískum einkaleyfislögum væri ekki hægt að fá einkaleyfi á lífverum. Málinu var áfrýjað og þar var niðurstaðan sú að lagalega skipti ekki máli að örverurnar væru lifandi. Þær væru til dæmis líkari lífvana efnahvötum en hestum og býflugum eða hindberjum og rósum. Einkaleyfisskrifstofan áfrýjaði málinu til hæstaréttar Bandaríkjanna. Árið 1980 úrskurðaði hæstiréttur Chakrabarty í vil og fyrsta einkaleyfið á lífsformi, sem breytt hafði verið með aðferðum erfðaverkfræðinnar, hafði verið veitt.

Fyrsta einkaleyfið á lífveru

Úrskurður hæstaréttarins í máli Chakrabartys vakti mikla athygli á bandarískum fjármálamörkuðum. Í október 1990 var fyrsta líftæknifyrirtækið sett á markað. Ein milljón hlutabréfa í Genentech voru boðin á 35 dollara hvert og þegar lokað var í Wall Street að kvöldi var gengi bréfanna komið upp í 89 dollara. Genentech hafði enn ekki sett neina vöru á markað og kváðust sérfræðingar aldrei hafa orðið vitni að annarri eins ásókn í hlutabréf nýs fyrirtækis. Greinilegt þótti hins vegar að markaðurinn vildi fá sinn skerf af ávöxtum líftæknibyltingarinnar.

Hjá Genentech var litið svo á sem hæstiréttur hefði tryggt framtíð Bandaríkjamanna í vísindum. Víða var aukinn kraftur settur í rannsóknir í því skyni að öðlast hlutdeild í framtíðinni.

Einkaleyfi á öllum afrakstri erfðaverkfræðinnar

Árið 1987 sneri einkaleyfisstofnunin síðan við blaðinu og komst að þeirri niðurstöðu að sækja mætti um einkaleyfi á öllum lífverum, sem væru afrakstur erfðaverkfræðinnar. Sérstök yfirlýsing var gefin til að taka fram að þessi ákvörðun ætti við allar lífverur nema manninn. Ástæðan fyrir því að maðurinn væri ekki með væri sú að bandaríska stjórnarskráin legði bann við þrælahaldi. Hins vegar mætti sækja um einkaleyfi á eggjum og fóstrum úr manni og genum, frumuröðum, vefjum og líffærum manna, sem breytt hefði verið erfðafræðilega. Þannig var kostur á að fá einkaleyfi á manninum í hlutum, þótt ekki væri hægt að fá einkaleyfi á honum í heild sinni.

Spurningin er í raun sú hvort erfðavísar, frumur, vefir og líffræði, sem fengist hefur verið við með aðferðum erfðaverkfræðinnar, séu uppgötvanir mannsins eða afsprengi náttúrunnar, sem maðurinn hefur átt við.

Til þess að fá einkaleyfi þarf viðkomandi að sýna fram á að fyrirbærið sé nýtt, ekki augljóst og hafi notagildi. Á móti hefur verið bent á að þessi atriði hafi í raun enga þýðingu ef náttúran er smiðurinn, en ekki maðurinn, rétt eins og frumefni efnafræðinnar voru ekki talin einkaleyfistæk þótt þau hefðu verið einstök, ekki augljós og haft notagildi vegna þess að þau voru fengin úr náttúrunni. Gilti þar einu að maðurinn hefði þurft að beita innsæi og sérþekkingu til að einangra efnin og skilgreina eiginleika þeirra.

Niðurstaða bandarísku einkaleyfisstofnunarinnar var sú að það dygði til að fá einkaleyfi að hafa einangrað og skilgreint eiginleika erfðavísis og tilgang.

Einkaréttur á æxlismúsinni

1988 var fyrsta einkaleyfið á dýri, sem hafði verið breytt erfðafræðilega af manna völdum, veitt. Þar var um að ræða mús, sem settir höfðu verið í mannlegir erfðavísar, sem gerðu hana móttækilega fyrir krabbameini. Philip Leder, líffræðingur við Harvard, fann upp hina svokölluðu æxlismús. Lyfjaframleiðandinn Du Pont keypti sérleyfið á músinni og er hún nú seld til krabbameinsrannsókna. Leder hefur hins vegar einkaleyfi á öllum dýrum, sem sett eru í krabbameinsvaldandi gen.

Vísindamennirnir, sem klónuðu ærina Dolly, sóttu einnig um víðfeðmt einkaleyfi, sem gæfi þeim tilkall til allra klónaðra spendýra, þar á meðal klónaðra manna. Í Bandaríkjunum hafa verið veitt einkaleyfi, sem ná til heilla tegunda. Sama á við einkaleyfi, sem efna- og lyfjafyrirtæki hafa fengið á mikilvægum matjurtum.

Leitin að meingenum í mönnum hefur borist víða. Leiðangrar eru fjármagnaðir á afskekkta staði á suðurhveli jarðar. Hafin er vinna að verkefni, sem kennt hefur verið við fjölbreytileika erfðamengisins (The Human Genome Diversity Project) undir forystu erfðafræðingsins Luigi Luca Cavalli-Sforza. Ætlunin er að taka blóðsýni úr þeim fimm þúsund aðskiljanlegu málhópum, sem finna má á jörðinni, og leita að einstökum eiginleikum þeirra á meðal.

Kortlagning erfðafræðilegs fjölbreytileika mannsins

Cavalli-Sforza segir að mikilvægt sé að leita uppi erfðafræðilegan fjölbreytileika mannsins áður en hann hverfur fyrir fullt og allt, hvort sem það sé af því að þjóðflokkar deyi út eða blandist öðrum. Hann kveðst vera andvígur einkaleyfum á kjarnsýrum, en telur ólíklegt að hægt sé að halda því til streitu.

Gagnrýnendur hafa sagt að þetta verkefni sé enn eitt dæmið um nýlendustefnu gagnvart þriðja heiminum. Gagnrýni fór af stað fyrir alvöru þegar í ljós kom að bandarísk stjórnvöld höfðu sótt um einkaleyfi á veiru, sem afleidd var úr frumuröð úr indíánakonu af Guaymi-ættbálknum í Panama. Vísindamaður á vegum bandarísku heilbrigðisstofnunarinnar hafði tekið blóðsýni úr konunni og ræktað frumuröðina, sem þótti sérstaklega áhugaverð þar sem fólk af þessum ættbálki gekk með veiru, sem þótti skera sig úr. Veiran örvar framleiðslu mótefna, sem vísindamenn telja að nota megi í rannsóknum á alnæmi og hvítblæði. Fulltrúar Guaymi-ættbálksins mótmæltu opinberlega þegar fréttist af umsókninni og spurðu hvernig á því gæti staðið að svo virt stofnun virti friðhelgi ættbálksins að vettugi með þessum hætti og hygðist síðan hagnast á erfðum ættbálksins á almennum markaði.

Framlenging nýlendustefnunnar?

Umsóknin var dregin til baka, en skömmu síðar upphófust svipaðar deilur þegar sótt var um einkaleyfi í Bandaríkjunum og Evrópu fyrir frumuraðir úr íbúum Salómonseyja og Hagahai-ættbálknum á Papúu Nýju-Gíneu. Hagahai-ættbálkurinn var einnig með sjaldgæfa veiru í blóðinu, nánar tiltekið í hvítu blóðkornunum. Hún er lík veirunni, sem veldur hvítblæði, en skaðaði ekki fólk úr ættbálknum. Bandarískir vísindamenn gerðu ættbálknum tilboð: ef bandarísk stjórnvöld fengju að tryggja sér einkaleyfi á frumunum myndi ættbálkurinn fá helminginn af ávinningi, sem hlotist hefði af hvítblæðirannsóknum á blóði þeirra. Bandaríska einkaleyfisskrifstofan veitti einkaleyfi á HTLV-I-veirunni í mars 1995, en fallið var frá einkaleyfinu þegar leiðtogar eyja í Suður-Kyrrahafi lýstu yfir því að þar yrði "einkaleyfalaust svæði". Reyndar kom afstaða ættbálksins aldrei í ljós, en línurnar voru lagðar og rannsóknir á veirunni hafa að mestu legið niðri þótt blóðsýnin séu fyrir hendi.

Indverjar hafa einnig lýst yfir vanþóknun á tilraunum til að taka blóðsýni meðal hinna ýmsu þjóðarbrota landsins. Á Indlandi finnast einangruð þjóðabrot og í genum þeirra gæti lykillinn að ýmsum sjúkdómum leynst. Hjá einum ættbálki er dvergvöxtur algengur og hjá öðrum, þar sem kólera er algeng, virðist stór hópur fólks orðinn ónæmur fyrir sjúkdómnum. K. Suresh Singh, fyrrverandi yfirmaður mannfræðirannsóknastofnunar Indlands, segir að tillögum frá bandarískum vísindamönnum hafi rignt yfir hann.

Indverjar hemja blóðútflutning

Árið 1996 var hvatt til þess að settar yrðu reglur á Indlandi um að banna útflutning á blóði, frumulínum, DNA, beinum og steingervingum nema fyrir lægi formlegt samkomulag milli hlutaðeigandi aðilja. Þetta var gert þegar í ljós kom að bandaríska heilbrigðisstofnunin var að reyna að verða sér út um sýni úr sjúklingum án tilskilinna leyfa. Erfðafræðingur einn greindi frá því að sér hefðu verið boðnir 20 þúsund dollarar fyrir sýni úr tveimur sjúklingum með sjaldgæfan sjúkdóm.

Vísindamenn hafa ekki aðeins leitað suður fyrir miðbaug. Í Bandaríkjunum hefur verið leitað bæði til íbúa í Amish-héraði Pennsylvaníu og mormóna í Utah. Lítil blöndun á sér stað í mormónafjölskyldum og ættarskrár eru nákvæmar. Þetta hafa erfðafræðingar vitað í hálfa öld og á undanförnum 20 árum hefur athygli þeirra beinst til Utah í auknum mæli. Bill Hockett, talsmaður fyrirtækisins Myriad Genetics, segir að aðeins Íslendingar og afskekkt þjóðarbrot bjóði upp á sömu rannsóknarmöguleika og mormónarnir í Utah.

Hver á genin?

Samskiptin við mormónana hafa gengið vel, en sömu sögu er ekki að segja af samskiptum Kaliforníuháskóla í Los Angeles (UCLA) við kaupsýslumanninn John Moore frá Alaska. Moore var greindur með sjaldgæft krabbamein og fór í meðferð í UCLA. Í meðferðinni kom í ljós að milta hans framleiddi prótein í blóði, sem ýtir undir fjölgun hvítra blóðkorna, en þau eru mikilvæg í baráttu líkamans gegn krabbameini. Háskólinn bjó til frumulínu ­ frumur, sem fjölga sér sjálfkrafa ­ úr vef úr milta Moores og fékk einkaleyfi á uppfinningunni árið 1984. Talið er að þarna geti verið allt að þrír milljarðar dollara í húfi. Moore komst ekki að því að sótt hefði verið um einkaleyfi og rétturinn til að nota það verið seldur Sandoz-lyfjafyrirtækinu fyrr en nokkru síðar. Hann stefndi, en árið 1990 dæmdi hæstiréttur Kaliforníu gegn honum. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að versla með líkamsparta eins og hvern annan varning. Hins vegar hefðu þeir, sem fundu upp frumulínuna, átt að láta hann vita af mögulegu verðmæti hennar og gætu þeir því verið skaðabótaskyldir. Hins vegar var ekki amast við tilkalli háskólans til frumulínunnar. Þótt hún væri ekki eign Moores, mætti með réttu halda því fram að hún væri eign UCLA.

Viðskipti aðeins meinuð þeim, sem sýnið var úr

Einn dómari hreyfði andmælum við þessari niðurstöðu og sagði að það að kröfu stefnanda væri hafnað þýddi ekki að bannað væri að kaupa og selja líkamsparta. Þar væri eingöngu um það að ræða að þeim, sem lagt hefði til frumurnar, væri bannað að hagnast á þeim, en stefndu, sem að sögn hefðu komist yfir frumurnar með óréttmætum hætti, mættu halda og nýta allan hagnað af illum feng sínum án ábyrgðar.

Það þykir einnig bera því vitni hversu langt má ganga að einkaleyfisskrifstofa Evrópu hefur veitt bandaríska fyrirtækinu Biocyte einkaleyfi á öllum blóðfrumum úr naflastreng nýfæddra barna. Samkvæmt einkaleyfinu getur þetta fyrirtæki bannað hvaða einstaklingi eða stofnun sem er að nota blóðfrumur úr naflastreng nema gegn endurgjaldi. Þetta einkaleyfi var veitt vegna þess að Biocyte gat einangrað blóðfrumurnar og djúpfryst þær.

Fjárfest í líftækni

Fjöldi fyrirtækja hefur fjárfest í líftæknifyrirtækjum. Samningur svissneska lyfjarisans Hoffmann- La Roche við Íslenska erfðagreiningu er aðeins eitt dæmið um það. Árið 1995 vörðu lyfjafyrirtæki 3,5 milljörðum dollara til að kaupa líftæknifyrirtæki. Sama ár gerðu þessi sömu fyrirtæki sérleyfissamninga við líftæknifyrirtæki að andvirði 1,6 milljarða dollara. Mikið af þessum viðskiptum varða líftækni og landbúnaðarafurðir. Lyfjafyrirtækin hafa verið að gera samninga við fyrirtæki, sem eru að rannsaka genamengi mannsins. Þau veðja á að framtíð lyfjaframleiðslu og læknavísinda liggi í upplýsingum, sem verið er að safna saman um erfðir mannsins. Schering Plough keypti fyrirtækið Canji fyrir 54,4 milljónir dollara árið 1996. Bayer, Novartis og Eli Lilly hafa efnt til viðskiptasambands við fyrirtækið Myriad, sem meðal annars hefur fundið brjóstakrabbameinsgen. Pfizer, Pharmacia og Upjohn hafa fjárfest í Incyte.

Millennium-lyfjafyrirtækið er dæmi um líftæknifyrirtæki, sem hefur allar klær úti. Eli Lilly hefur gert samning við Millennium um erfðarannsóknir á æðakölkun, Roche hefur gert samning um rannsóknir á offitu, Astra um rannsóknir á öndunarfærasjúkdómum og Monsanto á erfðarannsóknum í landbúnaði.

Leitin að basabreytileikum (skammstafað SNP eða Single Nucleotide Polymorphism) hefur ekki aðeins höfðað til Hoffmann-La Roche þótt samningur þess við ÍE sé sá stærsti á þessu sviði. Abbott- rannsóknastofurnar lögðu 42,5 milljónir dollara í Genset, franskt erfðavísindafyrirtæki, um mitt síðasta ár. Þá stendur yfir fimm ára samstarf milli Bristol-Myers Squibb, Millenium Pharmaceuticals, erfðafræðinga við Whitehead-stofnunina við Tækniháskóla Massachusetts (MIT) og Affymetrix, sem hefur gert tæki til að þefa uppi erfðabreytileika. Samstarf þetta er metið á 40 milljónir dollara.

En það eru ekki aðeins stóru lyfjafyrirtækin, sem setja fé í erfðarannsóknir. Sjö fyrirtæki lögðu til 12 milljónir dollara í stofnfé deCODE genetics, móðurfyrirtækis Íslenskrar erfðagreiningar. Þau eru Advent International, Alta Partners, Atlas Venture, Arch Venture Partners, Falcon Technologies, Medical Science Partners og Polaris Venture Partners.

Kröfur til viðskiptavina

Á heimasíðu Atlas Venture er að finna þær upplýsingar að þar sé á ferð félagsskapur manna, sem leggur fram áhættufé í hátækniiðnað. Áhersla sé lögð á tvo geira, líftækni og upplýsingatækni. Atlas Venture leitar uppi fyrirtæki í hröðum vexti og leggur í upphafi til milli hálfrar og tveggja milljóna dollara um leið og haldið er áfram að leggja fram fé eftir því sem á líður. Í stefnuskrá fjárfestingafyrirtækisins segir að ráð sé gert fyrir því að einhver eigenda þess setjist í stjórn fyrirtækisins sé lagður fram ráðandi hlutur. Áhersla sé lögð á að stjórn fyrirtækis, sem fjárfest sé í, sé fámenn. Samstarfi við Atlas Venture fylgir gerð fimm ára rekstraráætlunar, sem viðkomandi fyrirtæki skuldbindi sig til að fylgja. Þeir áskilja sér einnig rétt til að benda á veikleika í stjórn fyrirtækis gangi ekki sem skyldi, til dæmis við að koma vöru á markað.

Miklar væntingar eru bundnar við líftækniiðnaðinn, ekki síst hagnaðarvonir. Atburðarrásin hefur sennilega gert umræðuna um einkaleyfin á genunum næsta tilgangslausa og finna má rök bæði með og á móti. Hins vegar eru menn þegar farnir að velta fyrir sér hvort væntingarnar séu of miklar. Því til vitnis má benda á að í Þýskalandi eru stjórnendur líftæknifyrirtækja ragir við að láta skrá sig á hlutabréfamarkaði. Óttinn er sá að verð hlutabréfa stjórnist um of af duttlungum þeirra, sem skipta með þau. Þannig megi búast við að verð hlutabréfa verði allt of hátt í upphafi og þegar það lækki verði erfitt fyrir fyrirtækin að ná fyrra sessi og ná inn auknu áhættufé.

Í LÍFTÆKNI er nú helsti vaxtarbroddur vísindanna. Grannt er fylgst með þróun mála og gangi nýrra fyrirtækja í kauphöllunum. Leitin að genunum fer víða fram og hafa stjórnvöld á Indlandi bannað útflutning blóðsýna til að vernda þessa auðlind.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.