14. nóvember 1998 | Í dag | 499 orð

NORÐMENN draga í efa íslenzkt þjóðerni Eiríks rauða og Leifs he

NORÐMENN draga í efa íslenzkt þjóðerni Eiríks rauða og Leifs heppna, sem komu við sögu landafunda í Vesturheimi. Víkverji lærði það ungur að fyrsta tilraun til landnáms á Grænlandi hafi verið gerð um 970. Þá sigldi Snæbjörn galti Hólmsteinsson með 20 menn í leit að Gunnbjarnarskerjum. Eftir vetursetu á Grænlandi kom hann aftur til Íslands.
NORÐMENN draga í efa ís lenzkt þjóðerni Eiríks rauða og Leifs heppna, sem komu við sögu landafunda í Vesturheimi. Víkverji lærði það ungur að fyrsta tilraun til landnáms á Grænlandi hafi verið gerð um 970. Þá sigldi Snæbjörn galti Hólmsteinsson með 20 menn í leit að Gunnbjarnarskerjum. Eftir vetursetu á Grænlandi kom hann aftur til Íslands. Þá hafði Eiríkur rauði Þorvaldsson, sem bjó á Eiríksstöðum í Haukadal í Dölum, verið dæmdur fyrir vígaferli. Hann lagði upp í landkönnun til Grænlands árið 981 eða 982, sigldi í norðvestur frá Breiðafirði suður með strönd Grænlands og fór fyrstur manna fyrir suðurodda landsins. Kannaði suðvesturströndina í 3 ár en hélt síðan heim.

Árið 986 eða 987 sigldi hann öðru sinni til Grænlands, ásamt 300 landnemum (og kvikfé) á 25 skipum. Ellefu fórust í hafi eða hröktust aftur til Íslands. Eiríkur og fylgdarlið settust að í Eystribyggð (Julianehaab) og Vestribyggð (Godthaab). Bær Eiríks hét Brattahlíð. Talið er að um 1000 mans hafi flutzt frá Íslandi til Grænlands og að þar hafi búið 4.000 til 5.000 norrænir menn þegar flestir voru.

BJARNI HERJÓLFSSON frá Eyrarbakka hugðist sigla til Grænlands haustið 986. Hann hrakti af leið og greindi lönd í vestri (Ameríku) en kannaði ekki. Leifur heppni, sonur Eiríks rauða, sem fæddur var í Dölum vestur, fór um eða upp úr 990 að leita landa þeirra er Bjarni Herjólfsson taldi sig hafa séð. Hann fann þau og kallaði Helluland, Markland og Vínland hið góða.

Árið 1000 fór Þorfinnur karlsefni Þórðarson frá Höfðaströnd í Skagafirði í landkönnunarferð ásamt konu sinni, Guðríði Þorbjarnardóttur, til Vínlands hins góða. Hún var fyrsta hvíta konan sem kom til Ameríku. Hún fór síðar í pílagrímsferð til Rómar, eins og þá var títt. Þessi skagfirzka, kristna kona gerði því víðreist um sína daga.

HVERT ER upphaf íslenzks þjóðernis? Hvenær urðu Íslend ingar að Íslendingum, ef Víkverji má taka þannig til orða? Um þetta er deilt, m.a. með tilliti til þess hvort telja eigi Leif heppna Íslending eða Norðmann.

Landnámsöld er talin hafa staðið frá því um eða litlu fyrir 870 fram til 930. Það ár er stofnað íslenzkt þjóðveldi að Þingvöllum við Öxará. Frá þeim tíma a.m.k. er réttlætanlegt að tala um íslenzkt ríkisfang og íslenzka þjóðernisvitund.

Nafnið Ísland kemur fyrst fram í norrænum kvæðum á 10. öld, segir í Íslandssögu Einars Laxness. Það má og sjá í ritum Adams erkibiskups í Brimum frá árinu 1072. Ennfremur á bresku korti og rúnasteini frá 11. öld. Heitið Íslendingur kemur fyrst fyrir í samningi, sem Íslendingar gerðu við Ólaf helga Noregskonung um 1022 (skrásettur um 1083). Á 11. öld notaði Sighvatur skáld Þórðarson orðið íslenzkur í Austurfararvísum.

ÞAÐ ER völlur á okkur Íslend ingum í dag sem á þjóðveldis öld. Sólarferðir nánast uppseldar fram á nýtt ár. Einnig skíðaferðir til Mið-Evrópu. Ítem flestar leiksýningar í menningar- og bjórkráaborginni Reykjavík. Eftirspurn eftir jólahlaðborðum er sögð meiri en nokkru sinni. Og það þykir ekki saga til næsta bæjar þótt vinnustaðaárshátíðir séu haldnar í hinum og þessum erlendum stórborgum. Já, við erum menn með mönnum, Mörlandarnir, hvað sem líður fyrirhyggjunni og ráðdeildarseminni.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.