eftir Huldar Breiðfjörð. Bjartur, 181 bls. FERÐASöGUR geta verið með skemmtilegustu frásögnum ef vel er haldið á penna og ferðalangurinn hefur næmt auga fyrir því sem fyrir hann ber í mannlífinu og náttúrunni.
Í leit að Íslandi og mér BÆKUR Ferðasaga GÓÐIR ÍSLENDINGAR

eftir Huldar Breiðfjörð. Bjartur, 181 bls. FERÐASöGUR geta verið með skemmtilegustu frásögnum ef vel er haldið á penna og ferðalangurinn hefur næmt auga fyrir því sem fyrir hann ber í mannlífinu og náttúrunni. Íslenskar bókmenntir eiga nokkrar perlur sem tilheyra þessari bókmenntagrein, nefna má ferðasögu Jóns Indíafara, Reisubók séra Ólafs Egilssonar, ævisögu Önnu frá Moldnúpi: Fjósakona fer út í heim, og (nær okkur í tíma) ferðasögur Thors Vilhjálmssonar. Huldar Breiðfjörð er ungur rithöfundur sem sendir nú frá sér sína fyrstu bók, ferðasöguna Góðir Íslendingar. Hugmyndin að bók Huldars er sniðug og maður hálffurðar sig á því að engum skuli hafi dottið í hug áður að skrifa bók um það "að fara hringinn", eins og það er nú almenn og "íslensk" iðja. En þannig er það oft með góðar hugmyndir, þær eru nærtækari en nokkurn grunar og því sést okkur yfir þær í leit að fjarlægari ("frumlegri") hugmyndum. Kannski er rétt að minna á kvikmynd Friðriks Þórs sem byggðist á sömu grunnhugmynd þó að úrvinnslan sé gjörólík: myndavél fest framan á bifreið sem brunar hringveginn. En hvernig er hringferð Huldars? Eins og í flestum góðum ferðasögum lýsir ferðalangurinn (sögumaðurinn) tvenns konar ferð. Annars vegar er það ferðin um landið sem miðar að því að "finna Ísland", fá það í æð, svo að segja, og þess vegna er ferðin farin í janúar og febrúar "því það eru íslenskustu mánuðirnir" (7). Hins vegar er það ferðin inn á við sem miðar að því að "finna sjálfan sig", leita "Íslendingsins" í sér í von um að eflast við það: að mannast. Það er sambandið á milli þessara tveggja "ferðalaga" sem er sá ás sem frásögn Huldars snýst um: Samband sjálfs og lands. Og það samband er að mörgu leyti kostulegt og gefur frásögninni bæði líf og spennu. En hvers konar (sögu)sjálf er það sem mætir okkur á síðum bókarinnar? Frásögnin er ýmist í 1. eða 2. persónu. Sögumaður lýsir sjálfum sér bæði að utan og hið innra. Af þeirri tvísýn skapast oft skemmtileg íronía, eða sjálfsháð, sögumaður dregur ekki dul á eigin ófullkomleika og "aumingjaskap", firringu sína frá náttúrunni og því lífi sem lifað er á landsbyggðinni. Hann er borgarbarn í húð og hár, hefur lengst af hangið á Kaffibarnum, átt þar innihaldslitlar samræður við aðra bargesti, eða starað ofan í bjórglasið. Þegar hann loksins rífur sig upp af barstólnum, kaupir sér Lapplanderjeppa og leggur í 'ann, hefst nokkurs konar "meðganga" þar sem bíllinn er í hlutverki móðurlífs sem á ferð sinni hringinn nærir "fóstrið" sem við lok ferðarinnar "er togað út í dagsbirtuna" (180). Þessi líking við fullburða fóstur í lok bókarinnar helst í hendur við þá sjálfsleit eða sjálfssköpun sem á sér stað allt frá byrjun. Spurningar eins og: "Hvað er ég?" (20), "Hvenær yrði ég loksins ég?" (31) eru leiðarstef í frásögninni. Ferðalangurinn, sem finnst hann vera ekkert í upphafi ferðalags, verður til í ferðalaginu og endurfæðist við lok þess. Á þessu ferli er ennfremur hnykkt í byrjun með ýmiss konar dauðatilvísunum. Samband bílsins (Lappa) og ferðalangsins er nánasta samband bókarinnar. Frá upphafi er bíllinn persónugerður og sögumaður tekur miklu ástfóstri við þennan félaga sinn þótt í byrjun hafi ýmislegt gengið brösuglega í samskiptum þeirra. Margar skemmtilegar lýsingar eru á þessu sambandi þar sem mörk manns og vélar eru þurrkuð út. Í upphafsmálsgrein bókarinnar liggur sögumaður dúðaður "í svefnpoka, undir dúnsæng aftur í Volvo Lapplander" (5) hefur "dregið fyrir alla glugga svo bíllinn virðist bólstraður að innan. Það er dimmt inni í honum". Og honum "líður eins og [hann hvíli] í líkkistu". Þannig falla saman, í mynd bílsins, tákn fyrir dauða og líf: líkkista og móðurlíf. Þá má að lokum velta því fyrir sér um hvers konar endurfæðingu sé hér að ræða. Hvernig er ferðalangurinn annar en hann var þegar af stað var haldið? Borgarbarnið sem leggur af stað í byrjun hefur litla tilfinningu fyrir náttúrunni og er fullt fordóma gagnvart landsbyggðinni. Hann efast í raun um að hann eigi nokkurt erindi "út á land" og í honum togast á ótti og eftirvænting: "Þetta ferðalag sem þú hélst að þú myndir guggna á eins og ýmsu öðru er raunverulega hafið. Þú lífhræddi, bílhræddi, lofthræddi, myrkfælni maður, átt eftir að hafa gott af því" (35). Framan af skynjar hann náttúruna aðeins sem óvinveitta og hættulega, sér enga fegurð í henni og stoppar aðeins í sjoppum. Þegar ferðinni er að ljúka hefur viðhorf hans breyst mikið, hann er farinn að skynja fegurð náttúrunnar og kann að meta þær sögur og það mannlíf sem hann hefur kynnst á ferðalaginu. Sá sem lýkur ferðinni er því annar en sá sem lagði af stað, hann hefur öðlast nýja sýn, nýja reynslu: hefur mannast. Góðir Íslendingar er skemmtileg lesning, hugmyndin sem höfundur vinnur með gengur vel upp. Helst mætti finna að því að bókarlok eru helst til snubbótt ­ gaman hefði verið að fá að fylgjast með ferðalangnum örlítið lengur; að sjá hvernig höfuðborgin og mannlíf hennar kemur honum fyrir sjónir þegar hann kemur nýr og breyttur maður ­ endurfæddur ­ til baka. Soffía Auður Birgisdóttir

Huldar Breiðfjörð