Forseti El Salvador: Hermenn viðriðnir morðin á jesúítaprestunum sex San Salvador. Reuter. ALFREDO Cristiani, forseti El Salvador, hefur sakað liðsmenn í her landsins um að vera viðriðna morðin á sex kunnum prestum úr hreyfingu jesúíta hinn 16. nóvember...

Forseti El Salvador: Hermenn viðriðnir morðin á jesúítaprestunum sex San Salvador. Reuter.

ALFREDO Cristiani, forseti El Salvador, hefur sakað liðsmenn í her landsins um að vera viðriðna morðin á sex kunnum prestum úr hreyfingu jesúíta hinn 16. nóvember síðastliðinn. "Rannsókn hefur leitt í ljós, að viss öfl innan hersins áttu þátt í morðunum," sagði forsetinn á sunnudagskvöld, þegar hann flutti óvænt ávarp til þjóðarinnar í sjónvarpi og útvarpi.

Skotið var á prestana sex úr návígi í bústað þeirra við MiðAmeríkuháskólann. Meðal hinna myrtu var Ignacio Ellacuria, háskólarektor og einn fremsti menntamaður þjóðarinnar. Auk prestanna féll ráðskona þeirra og dóttir hennar fyrir hendi morðingjanna. Mannréttindahópar og kirkjunnar menn létu strax í ljós þá skoðun, að svonefndar "dauðasveitir" hægrimanna, sem starfa í tengslum við herinn, hefðu átt þarna hlut að máli.

Í ávarpi sínu á sunnudagskvöld sagði Cristiani, að skipuð hefði verið sérstök nefnd foringja úr hinum ýmsu greinum hersins til að rannsaka morðin ásamt með hefðbundinni rannsóknanefnd. Forsetinn skýrði hvorki frá einstökum þáttum rannsóknarinnar né hvort nokkur hermaður hefði verið handtekinn.

Hreingerningakona, sem varð vitni að morðunum og hefur verið flutt til Bandaríkjanna í því skyni að tryggja öryggi hennar, segist hafa séð, þegar menn klæddir í græna einkennisbúninga hermanna drógu prestana úr rúmum þeirra og skutu þá. Morðin voru framin á meðan útgöngubann var í gildi vegna stórsóknar vinstrisinnaðra skæruliða (FMLN), sem hófst 11. nóvember sl. Þá var barist í sex vikur í landinu og meðal annars í fyrsta sinn í höfuðborginni og um 2.000 hermenn og skæruliðar féllu. Talið er, að um 70.000 manns hafi týnt lífi í borgarastyrjöldinni í El Salvador, sem staðið hefur í 10 ár.

Prestamorðin voru fordæmd um heim allan og vöktu ótta um að "dauðasveitirnar" væru að aftur að komast á kreik, en þær myrtu þúsundir manna í upphafi níunda áratugarins. Í byrjun desember skýrðu embættismenn í El Salvador frá því, að ríkisstjórn Cristianis hefði farið þess á leit við herinn, að hann veitti upplýsingar vegna rannsóknarinnar á prestamorðunum. Prestarnir voru eindregnir talsmenn þess, að leitað yrði stjórnmála lausna á deilum uppreisnarmanna og ríkisstjórnarinnar.

Johannes Gerhart, talsmaður jesúíta í Rómaborg, sagði að ummæli Cristianis um morðin staðfestu grun hreyfingarinnar. Hann skýrði einnig frá því, að jesúítar í El Salvador fögnuðu hinni óvæntu hörku sem sýnd væri við rannsóknina á morðunum.

Alfredo Cristiani