Eigendur Andra BA íhuga skaðabótakröfur Engin svör enn frá Bandaríkjamönnum um vinnsluheimildina EIGENDUR Andra BA, íslenska fiskvinnsluskipsins við strönd Alaska, íhuga nú skaðabótakröfur á hendur Bandaríkjamönnum vegna sviptingar vinnsluleyfis, sem þeir...

Eigendur Andra BA íhuga skaðabótakröfur Engin svör enn frá Bandaríkjamönnum um vinnsluheimildina

EIGENDUR Andra BA, íslenska fiskvinnsluskipsins við strönd Alaska, íhuga nú skaðabótakröfur á hendur Bandaríkjamönnum vegna sviptingar vinnsluleyfis, sem þeir töldu sig hafa fengið fyrir skipið. Þeir töldu að skipið hefði leyfi til að vinna 30 þúsund tonn af þorski, á grundvelli samkomulags milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda frá árinu 1983. Kostnaður við úthald skipsins nemur 15 til 20 þúsund Bandaríkjadollurum á dag, eða rúmri milljón króna, og er uppundir 10 milljóna dollara fjárfesting í húfi, eða á sjötta hundrað milljóna króna, að sögn Ragnars S. Halldórssonar framkvæmdastjóra ÍSÚF, sem gerir Andra út.

Í gærkvöldi hafði ekkert svar borist frá viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna um vinnsluleyfi Andra. Leyfið var afturkallað á gamlársdag án skýringa og hefur Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra ritað bandaríska viðskiptaráðherranum bréf í tilefni afþví og lýst áhyggjum sínum ef samningurinn frá 1983 verður ekki í heiðri hafður.

Ragnar S. Halldórsson fer í dag á fund Jóns Sigurðssonar viðskiptaráðherra og síðan á fund með Charles Cobb sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi um málið. Cobb hefur áður beitt sér í þessu máli og var skömmu fyrir jól talið að fyrir hans atbeina hefði Andra verið tryggt vinnsluleyfið, en svo reyndist síðan ekki vera þegar á reyndi.

Íslenska úthafsútgerðarfélagið hf., ÍSÚF, er eigandi Andra BA. Aðaleigendur ÍSÚF eru Haraldur Haraldsson og Andri hf., Sigurður Einarsson, Ágúst Einarsson, Jón Búi Guðlaugsson, Tryggingamiðstöðin hf. og Ragnar S. Halldórsson.

Ragnar segir að fáist ekki jákvæð svör í þessari viku, verði skipinu siglt á brott frá Alaska. Hann var spurður hvort í önnur hús væri að venda fyrir félagið. "Ég tek bara eitt mál fyrir í einu og þetta erþað, að Bandaríkjamenn eiga að standa við sína samninga. Mér þykir það undarlegt eftir að hafa unnið með Bandaríkjamönnum í 11 ár og aldrei þurft að kvarta yfir samn ingsbrigðum, að þá skuli sú staða allt í einu vera komin upp núna," sagði Ragnar S. Halldórsson.