2. desember 1998 | Bókmenntir | -1 orð

SJÓNHRINGUR GUÐRÍÐAR

BÆKUR Skáldsaga VERÖLD VÍÐ

Skáldsaga um ævi og örlög Guðríðar Þorbjarnardóttur ­ víðförlustu konu miðalda eftir Jónas Kristjánsson. 362 bls. Vaka-Helgafell. Prentun: Oddi hf. Reykjavík, 1998. FYRIR allnokkrum árum sendi Jónas Kristjánsson frá sér sögulegt skáldverk sem hann nefndi Eldvígsluna.

SJÓNHRINGUR

GUÐRÍÐAR

BÆKUR

Skáldsaga VERÖLD VÍÐ Skáldsaga um ævi og örlög Guðríðar Þorbjarnardóttur ­ víðförlustu konu miðalda eftir Jónas Kristjánsson. 362 bls. Vaka-Helgafell. Prentun: Oddi hf. Reykjavík, 1998. FYRIR allnokkrum árum sendi Jónas Kristjánsson frá sér sögulegt skáldverk sem hann nefndi Eldvígsluna. Gerist hún á Norðurlöndum og víðar á víkingaöld, eða með öðrum orðum í löndum þeim þar sem víkingar vöndu komur sínar. Eldvígslan er í hvívetna mikils háttar skáldverk. En hún fór alveg framhjá fjölmiðlunum, hvernig svo sem á því stóð, og þar af leiðandi einnig framhjá lesendum. Veröld víð er líka skáldverk með miðaldafræðin í bakgrunni og mun víðáttumeira sögusvið en Eldvígslan. Aðalsöguhetjan, Guðríður Þorbjarnardóttir, fór til Vínlands og síðar til Rómar. Hún kannaði því lönd þau sem voru innan sjónmáls víkinganna ­ og gott betur! Það sem vitað er um hana sjálfa og hennar nánustu er ekki svo mikið að fylla mundi stóra bók. Sá var háttur fornra sagnaritara að segja sem mest í sem fæstum orðum. Jónas Kristjánsson fyllir í eyðurnar. Útkoman verður rismikið og margslungið skáldverk. Með sögugleði sinni tekst höfundi að blása lífi í þessa frægu miðaldapersónu sem horfði nánast vítt of veröld alla. Ferðir þessara fornu Íslendinga, sem sagnaritarar sögðu frá í skeytastíl, rekur hann sömuleiðis nákvæmlega og byggir á sinni víðtæku þekkingu. Að sönnu nær ímyndunaraflið og þekkingin aldrei að lýsa löngu liðnum tímum nákvæmlega eins og þeir voru í raun. Skáldverk, sem reist er á víðtækustu þekkingu, verður því blanda af skáldskap og veruleika í hlutföllum sem ógerlegt er að sannprófa. Nauðsynlegt er eigi að síður að búa yfir hvoru tveggja, þekkingunni og ímyndunaraflinu, eigi svo mikið sem að nálgast hina löngu liðnu tíma. Vandaminnst er að lýsa framkomu og viðbrögðum söguhetjanna. Mannlegt eðli breytist ekki á þúsund árum. Erfiðara er að lýsa umgjörð daglega lífsins eða með öðrum orðum lífsháttum þeim sem miðaldamaðurinn bjó við frá degi til dags, svo sem húsakynnum, klæðnaði og viðurværi; trú hans og hjátrú, lífsreynslu og afstöðu til umhverfisins í víðtækasta skilningi. Um margt hvað, sem okkur fýsti helst að vita nú, eru sagnaritararnir fornu næsta fáorðir. Og heimurinn ­ lönd og leiðir ­ hvernig leit hann út og hver voru endimörk hans fyrir sjónum Íslendings fyrir og eftir ferð Guðríðar til Vínlands? Sannarlega allt önnur en við lok miðalda. Til dæmis voru Íslendingar ekki farnir að finna fyrir þeirri málfarslegu einangrun sem síðar varð svo tilfinnanleg. Í Róm hittir Guðríður til að mynda nunnu frá Býjaralandi. Í fyrstu gekk samræða þeirra nokkuð ógreitt, en smám saman tóku þær að skilja hvor annarrar móðurmál, og að liðnum nokkrum vikum ræddust þær við reiprennandi. Þessi má kalla að sé mergurinn málsins þegar minnst er samskipta germanskra þjóða innbyrðis á fyrri hluta miðalda. Víkingarnir gátu gert sig skiljanlega svo að segja allt í kringum sig. Munurinn á norrænu og þýðversku var að vísu orðinn allnokkur en ekki meiri en svo að samræður gætu ekki tekist með nokkurri þolinmæði eins og raunin varð hjá þeim, Guðríði og Hildigerði hinni býversku. Loftslag á norðurslóðum var og mun hagstæðara en síðar varð. Giskað hefur verið á að það hafi verið líkt því sem hér var á fyrri hluta þessarar aldar. Árferðið skipti miklu fyrir þjóðir sem áttu allt undir veðri og vindum. Víkingarnir smíðuðu bestu skip sem þá flutu á höfunum. Þeir báru víðast hvar sigurorð af öðrum. Þeir kynntust öðrum þjóðum og settust margir að erlendis, til að mynda á Bretlandseyjum, Valllandi og í Garðaríki. Ungir menn fóru suður yfir Rússland og gerðust atvinnuhermenn ­ væringjar ­ í Miklagarði. Með öllu þessu jókst mönnum sjálfstraust og víðsýni. Það er á þessum grunni sem Jónas Kristjánsson byggir sögu sína. Hún er að ýmsu leyti fræðilegri en Eldvígslan og þó engu síðra skáldverk. Til dæmis leitast höfundur við að líkja eftir máli því sem ætla má að talað hafi verið á dögum Guðríðar. Í byrjun kann það að tefja fyrir lesandanum, en venst fljótt. Málfræðingur getur endurgert íslenskuna eins og telja má að hún hafi verið töluð árið þúsund. Svo langt gengur Jónas Kristjánsson ekki ­ að sjálfsögðu ekki! Hófleg málfyrning hans getur fremur talist til stílbragða ­ til að minna lesandann á að hann er að ferðast um annars konar veröld á annars konar tímum. Vínlandsferðin var einstök, Rómarferðin ekki. Í suðurgöngu lagði þá margur með staf og skreppu til að styrkja trú sína og tryggja sér eilífa sáluhjálp. En Rómarferð var bæði kostnaðarsöm og hættuleg. Jónas Kristjánsson hefur sýnilega kynnt sér náið þann þátt sögunnar. Þegar kemur að ferjustaðnum yfir Rín, svo dæmi sé tekið, heimtar ferjumaður átta skildinga af hverjum farþega... Það verða alls fimm merkur hins fjórða tugar. Íslendingar vilja ekki greiða meira en fjóra skildinga á höfuð. Þetta var fyrir þúsund árum. Rínartoll þarf ekki að greiða lengur. En merkur og skildingar standa enn í fullu gildi þar um slóðir. Breytilegt er að sjálfsögðu hvernig þjóð metur sögu sína. Víkingaöldinni fylgdi hrottaskapur og siðleysi. En hún færði Norðurlöndum einnig margháttaða menning, bóklega og verklega. Veröld víð byggir á hvoru tveggja. Þetta er því í senn stórfróðleg bók; auk þess merkilegt og að mínum dómi skemmtilegt skáldverk. Erlendur Jónsson Jónas Kristjánsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.