HANN teiknaði óperuhúsið í Sydney á sínum tíma, en hrökklaðist á braut áður en því var lokið. Nú, 33 árum síðar, mun danski arkitektinn Jørn Utzon aftur koma að húsinu, en þá sem ráðgjafi við innréttingu þess. Óvíst er hvort Utzon, sem er 81 árs, mun sjálfur fara til Sydney, en sonur hans Jan, sem hann vinnur með, mun taka þátt í verkefninu með föður sínum.
Óperuhúsið í Sydney gert upp Arkitektinn Utzon mun verða með eftir 33 ára fjarveru Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. HANN teiknaði óperuhúsið í Sydney á sínum tíma, en hrökklaðist á braut áður en því var lokið. Nú, 33 árum síðar, mun danski arkitektinn Jørn Utzon aftur koma að húsinu, en þá sem ráðgjafi við innréttingu þess. Óvíst er hvort Utzon, sem er 81 árs, mun sjálfur fara til Sydney, en sonur hans Jan, sem hann vinnur með, mun taka þátt í verkefninu með föður sínum. Óperuhúsið í Sydney þykir einhver snilldarlegasta bygging þessarar aldar, en byggingarsagan er saga mikilla átaka. Eftir að ákveðið var að Utzon teiknaði húsið var hafist handa við bygginguna. Framkvæmdin var vægast sagt umdeild, enda húsið sérstakt og þótti það enn frekar um það leyti sem verið var að byggja það. Það leið heldur ekki á löngu þar til að Utzon sá sér þann kost vænstan að hætta afskiptum af byggingunni, því ýmsir stjórnmálamenn og embættismenn gerðu honum lífið leitt. Síðan hafa deilurnar haldið áfram. Meðal annars var leyft að byggja á svæðinu í kringum húsið, sem þótti skemma útlit þess og umhverfi mjög. Enn er verið að deila um hvort rífa eigi þær byggingar. En tíminn hefur leitt í ljós að húsið er snilldarverk og Sydney til hróss að borgaryfirvöld skyldu svo djörf að ráðast í framkvæmdirnar. Þegar Utzon fór var búið að reisa skel hússins og hann næstum búinn að teikna innréttingar í húsið. Þær teikningar voru þó ekki notaðar, heldur aðrir fengnir til að innrétta það. En deilunum var ekki lokið, því heima fyrir hefur lengi verið mikil óánægja með innréttingarnar, sem ekki þóttu í neinu samræmi við hið einstaka útlit hússins. Þær þóttu klossaðar í samanburði við hið lauflétta útlit hússins og klæða það illa. Undanfarin ár hefur legið ljóst fyrir að á næstunni þyrfti að ráðast í að gera húsið upp að innan og þá komið upp ákafar raddir um að rétt væri að leita nú til Utzons og fá hann til að ljúka við húsið eftir eigin hugmyndum. Sökum þess hve heitt var í kolunum fyrir 33 árum voru forráðamenn óperuhússins þó vonlitlir um að Utzon fengist til þess, en viðræður við hann hófust í fyrra. Í vikunni tilkynnti arkitektinn svo að hann væri fús til að taka verkefnið að sér, enda væru allir þeir, sem hann deildi við á sínum tíma, farnir frá og nýir menn komnir í staðinn. Ekki þykir raunsætt að búast við að allar gömlu innréttingarnar verði rifnar, bæði sökum þess að það væri ofur dýrt, en einnig vegna þess að húsið er í notkun og ekki uppi áætlanir um að loka því meðan breytingar fara fram. Utzon hefur heldur ekki áhuga á að taka gömlu teikningarnar fram, heldur hyggst taka mið af nýjum efnum og hugmyndum. Hann mun ekki verða arkitekt við framkvæmdirnar, heldur einungis ráðgjafi ástralskrar arkitektastofu, sem mun sjá um verkið. Utzon og sonur hans áætla að þeir geti skilað hugmyndum sínum eftir um hálft ár. Þá tekur við undirbúningur og ekki síst að leita fjár fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir. Forráðamenn óperuhússins eru þó vongóðir um að þar sem Utzon komi sjálfur við sögu muni margir hafa áhuga á að styðja framkvæmdirnar við húsið, sem fyrir löngu er orðið eitt af kennimerkjum Sydney og Ástralíu.